Öflugri lífeyrisreiknivél
12. maí 2025
Lífeyrisreiknivél LSR fyrir A-deild hefur verið uppfærð þannig að nú geta sjóðfélagar reiknað áhrifin af því að taka hálf eftirlaun áður en full eftirlaunataka hefst. Eins geta sjóðfélagar séð þróun eftirlaunaréttinda þegar unnið er samhliða fullum eftirlaunagreiðslum.

Lífeyrisreiknivél LSR er í stöðugri þróun og nú hafa tveir öflugir eiginleikar bæst við reiknivélina sem hjálpa sjóðfélögum að sjá fyrir sér hvernig eftirlaunaréttindi geta þróast.
Hálf eftirlaun:
Sjóðfélögum býðst að taka hálf eftirlaun frá 60 ára aldri. Þá hefjast greiðslur á helmingi eftirlaunaréttinda en hinn helmingurinn geymist og eykst í samræmi við iðgjaldagreiðslur og reglur sjóðsins um frestun eftirlaunagreiðslna.
Í reiknivélinni getur þú nú kveikt á valmöguleikanum hálf eftirlaun til að sjá hvernig þetta gæti litið út fyrir þig. Ef þú ert að skoða reiknivélina á Mínum síðum, þar sem allar þínar upplýsingar eru for-útfylltar, þá þarftu bara að velja þrennt:

- Hvenær hálf eftirlaunataka hefst
- Hvaða laun þú gerir ráð fyrir að vera með samhliða hálfum eftirlaunum
- Hvenær full eftirlaunataka hefst
Í niðurstöðuglugganum sérðu þá áætlaðar eftirlaunagreiðslur fyrir annars vegar tímabilið sem þú færð hálf eftirlaun og hins vegar greiðslurnar eftir að þú ferð á full eftirlaun.

Vinna með fullum eftirlaunum
Annar valkostur sjóðfélaga í A-deild er að halda áfram vinnu eftir að taka fullra eftirlauna hefst og safna áfram réttindum í sjóðinn. Við 70 ára aldur eru eftirlaunin svo endurreiknuð með tilliti til þeirra iðgjalda sem borist hafa eftir að taka fullra eftirlauna hófst og greiðslurnar hækkaðar með tilliti til þeirra.
Í reiknivélinni getur þú nú séð hvernig þetta kæmi út fyrir þig með því að kveikja á valmöguleikanum „Vinna með fullum eftirlaunum“. Ef þú ert innskráð/ur á Mínum síðum þarftu bara að velja þrennt:

- Hvenær full eftirlaunataka hefst
- Hvaða laun þú gerir ráð fyrir að vera með samhliða fullum eftirlaunum
- Hversu lengi þú gerir ráð fyrir að greiða iðgjöld (þ.e. hvenær þú hyggst hætta að vinna)
Í niðurstöðuglugganum sérðu þá áætlaðar eftirlaunagreiðslur fyrir annars vegar tímabilið eftir að þú ferð á full eftirlaun og hins vegar greiðslurnar eftir endurútreikninginn við 70 ára aldur.

Athugaðu að við mælum ávallt með að skoða reiknivélina á Mínum síðum, þar sem upplýsingar um aldur, laun, áunnin lífeyrisréttindi, tegund réttindaávinnslu auk séreignarréttinda hjá sjóðnum hafa verið for-útfyllt. Þó er að sjálfsögðu hægt að nota reiknivélina án innskráningar, en þá þarf að fylla allar þessar upplýsingar út handvirkt.
Einnig má benda á að enn sem komið er getur reiknivélin einungis skilað niðurstöðum fyrir þau sem eru ekki byrjuð að fá greidd eftirlaun eða hálf eftirlaun frá sjóðnum. Ef þú færð nú þegar greidd hálf eða full eftirlaun frá sjóðnum nýtist reiknivélin ekki til að sýna framtíðarréttindi.