Afgreiðsla örorkulífeyrisumsókna er samvinnuverkefni allra íslenskra lífeyrissjóða og þess vegna er nóg fyrir þig að sækja um örorkulífeyri hjá einum sjóði til að umsóknin fari í ferli hjá öllum þeim sjóðum þar sem þú átt réttindi. Þannig er tryggt að sjóðfélagi sem metinn er með örorku fái greiðslur í samræmi við áunnin réttindi sín hjá öllum sjóðum.
Skref fyrir skref
Hér eru helstu atriðin sem gott er að hafa í huga varðandi örorkulífeyri og umsóknarferlið.
-
Ábending
Ef þú veist ekki til hvaða lífeyrissjóðs þú greiddir síðast getur þú séð það á síðasta launaseðli.
-
Til að geta sótt um örorkulífeyri hjá LSR þarf starfsgeta að skerðast í a.m.k. þrjá mánuði og gildir það bæði fyrir A- og B-deild.
Það er hins vegar mismunandi milli A- og B-deildar hversu hátt örorkuhlutfallið þarf að vera til að eiga rétt á greiðslum:
- A-deild: 40-100% örorka
- B-deild: 10-100% örorka
-
Því skiptir miklu máli að bíða ekki of lengi með að hefja umsóknarferlið. Ef starfsgeta þín hefur skerst í samræmi við skilyrðin í lið 2 ættir þú að panta tíma hjá lækni sem fyrst til að óska eftir læknisvottorði. Best er að panta hjá þínum heimilislækni eða einhverjum sem þekkir þína sjúkrasögu vel.
Mikilvægt er að læknirinn fylli út ítarlegt læknisvottorð vegna umsóknar um örorkulífeyri, þar sem fram kemur m.a.:
- Sjúkrasaga
- Upplýsingar um veikindi sem valda orkutapi
- Dagsetning óvinnufærni
- Upplýsingar um lyfjagjafir, endurhæfingu og meðferðir við núverandi veikindum
- Batahorfur og framtíðarsýn læknis
- Undirskrift og dagsetning
Æskilegast er að læknisvottorðin séu send með rafrænum hætti til LSR beint frá lækni/heilsugæslu.
Ábending
Læknisvottorðið þarf að sýna fram á að veikindin hafi staðið yfir lengur en þrjá mánuði. Athugaðu að biðtími eftir viðtali hjá lækni getur verið langur og því getur verið gott að panta tíma með fyrirvara. Viðtalið ætti þó ekki að fara fram fyrr en þremur mánuðum eftir að starfsgeta skertist.
Ábending
Sjóðfélagar þurfa sjálfir að standa straum af kostnaði við læknisvottorð. LSR greiðir hvorki slíkan kostnað né endurgreiðir útlagðan kostnað við læknisvottorð.
-
Umsókn um örorkulífeyri er nokkuð yfirgripsmikil og það getur verið tímafrekt að finna til nauðsynlegar upplýsingar. Því skaltu gefa þér góðan tíma í að fylla umsóknina út.
Gott er að byrja á því að renna yfir spurningarnar og sjá hvort þú hafir tiltæk svör við þeim. Þetta eru til dæmis spurningar um tímasetningar, nöfn á læknum, sjúkrastofunum eða aðrar upplýsingar sem þú gætir þurft að fletta upp. Þú getur alltaf vistað umsóknina með þeim upplýsingum sem þú hefur þegar skráð og snúið aftur síðar til halda útfyllingunni áfram.
Til að stytta biðtíma er gott að byrja að vinna í umsókninni áður en læknisvottorð er komið, svo hægt sé að senda hana inn um leið og læknisvottorð berst.
Athugaðu að þjónustufulltrúar LSR geta að takmörkuðu leyti aðstoðað við útfyllingu örorkuumsókna vegna þess að þær krefjast þess að safnað sé saman ýmsum persónulegum gögnum sem LSR hefur ekki aðgang að. Ef einhverjar spurningar vakna um ferlið erum við þó alltaf reiðubúin til að svara þeim.
Við úrvinnslu umsóknarinnar er metið hvort tekjumissir hafi orðið vegna örorkunnar. Úrskurðaðar eru viðmiðunartekjur sem eru meðaltekjur þínar síðustu þrjú almanaksár fyrir orkutap. Ef þú varst með erlendar tekjur á þeim tíma þarftu sýna fram á þær, t.d. með launaseðlum eða skattframtölum. Viðmiðunartekjur þínar ráða því hversu miklar tekjur þú getur verið með án þess að það leiði til skerðinga á örorkulífeyrisgreiðslum. Ef þú skilar ekki inn gögnum um allar tekjur síðustu ára gæti það því leitt til að viðmiðunartekjur verði vanáætlaðar. Það myndi leiða til þess að þú hafir minna svigrúm til að afla tekna án þess að það skerði lífeyrisgreiðslur.
Ábending
Ef aðstæður breytast eftir að umsókn hefur verið skilað getur þú ávallt haft samband við LSR og óskað eftir því að umsóknin verði tekin úr afgreiðslu.
-
Umsóknir til TR eru aðskildar umsóknum um örorkulífeyri til lífeyrissjóða, en þú getur nýtt sama læknisvottorð við báðar umsóknir. Ferlið við mat á örorku er ekki það sama hjá lífeyrissjóðum og TR og því er mögulegt að örorka sé metin með mismunandi hætti á hvorum stað fyrir sig. Mat annars aðilans hefur ekki áhrif á mat hins.
Hægt er að fá greiðslur frá lífeyrissjóðum og TR samhliða, hvort sem það eru endurhæfingarlífeyrisgreiðslur eða örorkulífeyrisgreiðslur. Greiðslur TR hafa ekki áhrif á greiðslur lífeyrissjóða svo lengi sem samanlagður lífeyrir, barnalífeyrir, greiðslur TR og/eða aðrar launagreiðslur eru ekki umfram viðmiðunartekjur. Hins vegar gætu greiðslur úr lífeyrissjóðum leitt til skerðinga á greiðslum TR samkvæmt reglum stofnunarinnar.
Ábending
Kynntu þér réttindi þín hjá TR og sendu inn umsókn í gegnum vef stofnunarinnar.
-
Miðað er við að greiðslur örorkulífeyris hefjist um leið og sjóðfélagi verður fyrir tekjuskerðingu, þ.e. tekjur verða lægri er viðmiðunartekjurnar. Meðan á umsóknarferlinu stendur gætir þú átt rétt á úrræðum á borð við veikindarétti í vinnu og greiðslum úr sjúkrasjóði verkalýðsfélags.
Eins ættirðu að kanna stöðu þína hjá þínu tryggingarfélagi og ef allur réttur hefur verið fullnýttur gæti Félagsmálastofnun þíns sveitarfélags boðið upp á úrræði sem nýtast þér.
-
Mikilvægt er að læknisvottorð og önnur gögn séu ítarleg svo örorkumatið sé rétt metið. Eftir að trúnaðarlæknir skilar inn mati sínu fer það í úrvinnslu hjá sjóðnum.
Við úrvinnsluna er m.a. metið við hvaða dagsetningu skuli miða fyrstu greiðslu sjóðsins og hvort greiða eigi lífeyri afturvirkt, en LSR greiðir þó aldrei lengra en fjögur ár aftur í tímann frá dagsetningu umsóknar. Einnig er kannað hvort réttur sé á barnalífeyri frá LSR og hvort réttur sé til framreiknings.
Framreikningur þýðir að í stað þess að ákvarða örorkugreiðslur út frá núverandi áunnum réttindum eru greiðslurnar einnig metnar út frá þeim réttindum sem sjóðfélagi hefði unnið sér inn ef hann hefði greitt iðgjöld af meðaltekjum síðustu þriggja ára allt til 65 ára aldurs.
Mismunandi reglur eru um framreikning milli A- og B-deildar. Meginmunurinn er sá að í B-deild er einungis hægt að fá framreikning ef aðalorsök örorku má rekja til starfs en í A-deild eru skilyrðin að greidd hafi verið lágmarksiðgjöld til lífeyrissjóða í a.m.k. þrjú af síðustu fjórum almanaksárum og þar af í a.m.k. sex af síðustu tólf mánuðum. Við mat á greiðslutíma er einnig tekið tillit til iðgjalda sem greidd hafa verið til annarra lífeyrissjóða.
Eftir að úrvinnslu umsóknar er lokið færð þú tilkynningu í gegnum Ísland.is, þar sem tilgreint er hvort þú átt rétt á greiðslum, hversu háar þær eru og hvenær þær hefjast. Jafnframt er tilgreint hvort einhver skilyrði séu fyrir greiðslunum og hvort og þá hvenær þú þurfir að gangast undir endurmat á örorku.
Ef þú átt rétt á örorkulífeyri hjá fleiri sjóðum mun hver sjóður fyrir sig tilkynna þér um niðurstöðu sína.
Ábending
Hér getur þú fundið umfjöllun um framreikning og hvernig örorkugreiðslur eru ákvarðaðar fyrir A- og B-deild:
-
Ef þú átt inneign í séreignarsparnaði eða tilgreindri séreign hjá LSR og ert metin(n) með örorku fyrir almennan útgreiðslualdur getur þú fengið séreignarsparnaðinn greiddan út ef þú óskar þess. Þó eru ákveðnar hömlur á því hvernig útgreiðslurnar fara fram:
- Ef inneign er undir ákveðnu eingreiðsluviðmiði getur þú fengið hana greidda alla í einu.
- Ef inneignin er hærri en eingreiðsluviðmiðið er útgreiðslu heildarinneignar dreift á 7 ára tímabil miðað við 100% örorku. Ef örorkan er metin minni en 100% lækkar árleg greiðsla í sama hlutfalli og útborgunartíminn lengist sem því nemur.
-
Þetta geta t.d. verið:
- Tilkynningar um birtingu launaseðla
- Tilkynningar um að komið sé að endurmati á örorku og skilum á nýju læknisvottorði
- Tilkynningar um breytingar á útgreiðslum vegna tekna, sem þú gætir þurft að bregðast við
- Ef þú ert búsett/ur erlendis færðu tilkynningar árlega um skil á skattframtali í þínu búsetulandi
Þessar tilkynningar eru sendar með rafrænum hætti í gegnum Ísland.is og því er mikilvægt fyrir þig að fylgjast með skilaboðum sem birtast þar. Því er mikilvægt að tryggja að þú sért ávallt með rétt netfang skráð hjá Ísland.is og að þú fáir tölvupósttilkynningar þegar ný skilaboð berast í rafræna pósthólfið hjá Ísland.is.
Þetta gerir þú með því að skrá þig inn á Ísland.is með rafrænum skilríkjum, smella á nafnið þitt og fara í „Mínar stillingar.“ Þar skaltu ganga úr skugga um að tölvupósttilkynningar séu ekki afþakkaðar.
Ábending
Skilyrði um endurmat á örorku eru mismunandi eftir aðstæðum og örorkumati hvers og eins og engin ein regla er á því hversu langt líður á milli þess sem endurmats er krafist. Mikilvægt er að þú kynnir þér vel þær upplýsingar sem koma fram á örorkuúrskurði sem og öðrum tilkynningum. Ef orkutap er enn til staðar þegar komið er að endurmati er mikilvægt að skila inn vottorði tímanlega svo ekki komi til greiðslustöðvunar. Tilkynningar um endurmat eru sendar út með góðum fyrirvara.
-
Ef breytingar verða á högum þínum, t.d. ef þú sérð fram á að samanlagðar heildarárstekjur þínar verði hærri en viðmiðunarlaunin sem þú varst með fyrir orkutapið eða ef starfsorka hefur aukist ber þér skylda til að tilkynna það til sjóðsins. Ef starfsorka breytist þarft þú að skila inn nýju læknisvottorði.
LSR framkvæmir reglulega tekjueftirlit og tilkynnir örorkulífeyrisþegum ef breytingar verða á greiðslum eftir slíkt eftirlit.
Umsóknir og eyðublöð
-
Hvernig er umsóknarferlið?
- Byrjaðu á að bóka tíma hjá þínum heimilislækni til að fá ítarlegt læknisvottorð.
- Þú fyllir út umsókn um örorkulífeyri hjá þeim lífeyrissjóði sem þú greiddir síðast til fyrir orkutap. Meðal þess sem þarf að fylla út á umsókninni eru:
- Upplýsingar um börn yngri en 22 ára á þínu framfæri
- Upplýsingar um nýtingu skattkorts og val á skattþrepi
- Upplýsingar um þjónustu hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði
- Upplýsingar um hvenær þú varðst óvinnufær að hluta eða öllu leyti og upplýsingar um núverandi starf og/eða starfsgetu
- Upplýsingar um vinnuveitendur síðustu fimm ára
- Upplýsingar um tíma utan vinnumarkaðar vegna barnauppeldis
- Nöfn lækna sem þú hefur leitað til síðustu 5 ár
- Sjúkrastofnanir og innlagnir síðustu fimm ár
- Allar núverandi tekjur
Athugaðu að þú þarft ekki að klára alla umsóknina í einu, heldur er hægt að vista hana og hefja aftur útfyllingu síðar. Sérstaklega er mikilvægt að upplýsingar um óvinnufærni séu ítarlegar og fullnægjandi. - Úrvinnsla umsóknarinnar hefst hjá LSR og trúnaðarlækni sjóðsins þegar bæði umsókn og læknisvottorð hafa borist. Umsóknin er jafnframt áframsend á aðra lífeyrissjóði þar sem þú átt réttindi.
- Haft er samband við þig ef eitthvað er óljóst eða ef óskað er eftir frekari gögnum.
- Þú færð tilkynningu um úrskurð frá hverjum sjóði fyrir sig. Þar kemur m.a. fram mat á örorku, upphæð greiðslna, hvort þú eigir rétt á greiðslum afturvirkt og hvenær þú þurfir að skila inn læknisvottorði vegna endurmats.
- Útgreiðsla hefst. Fyrsta greiðsla fer fram næstu mánaðarmót eftir að úrskurður hefur verið tilkynntur. Hjá A-deild er greitt út síðasta dag mánaðar en í B-deild fyrsta dag mánaðar.
-
Hvernig er umsóknarferlið?
- Í tilkynningunni um örorkumat sjóðsins er gildistími þess tilgreindur. Þarfnist þú enn örorkulífeyris að loknum þeim tíma þarft þú að skila inn nýju læknisvottorði. Þú munt jafnframt fá tilkynningu í gegnum Ísland.is þremur mánuðum áður en gildistími örorkumatsins rennur út.
- Þú bókar tíma hjá þínum heimilislækni og færð ítarlegt læknisvottorð.
- Þú sendir inn umsóknina Endurmat á örorku og lætur læknisvottorðið fylgja með. Eins getur þú fengið heimilislækni þinn til að senda okkur vottorðið beint eða komið því til sjóðsins með öðrum hætti.
- Sjóðurinn vinnur úr umsókninni í samræmi við mat trúnaðarlæknis á þeim upplýsingum sem fram koma í læknisvottorðinu.
- Ef breytingar verða á örorkumati í kjölfar endurmats færðu tilkynningu í gegnum Ísland.is með ítarlegri upplýsingum. Ef matið er framlengt án breytinga færðu tilkynningu um nýjan gildistíma með tölvupósti.
-
Hvernig er umsóknarferlið?
- Ef þú hefur fengið úrskurð um örorkulífeyrisgreiðslur og átt séreignarsparnað hjá LSR getur þú sótt um að fá hann greiddan. Þá fyllir þú út umsókn um útborgun séreignarsparnaðar og hakar við „Útborgun séreignar vegna örorku“ í lið 3.
- Ef inneign þín er undir ákveðnu marki (sjá nánar hér) getur þú sótt um að fá hana alla í eingreiðslu. Ef hún er hærri verður útborgun séreignarsparnaðarins dreift jafnt á sjö ára tímabil miðað við 100% örorku. Ef örorka er metin minni lækkar árleg greiðsla í sama hlutfalli og útborgunartíminn lengist sem því nemur.
- Afgreiðslutími umsókna er a.m.k. fimm virkir dagar, en útgreiðslur fara fram tvisvar í mánuði, 1. og 15. hvers mánaðar. Eingöngu er hægt að fá eina útgreiðslu í hverjum mánuði.
-
Hvernig er umsóknarferlið?
- Ef þú hefur fengið úrskurð um örorkulífeyrisgreiðslur og hefur safnað í tilgreinda séreign hjá LSR getur þú sótt um að fá inneign þína greidda. Þá fyllir þú út umsókn um útborgun tilgreindrar séreignar og hakar við „Útborgun vegna örorku“ í lið 3.
- Ef inneign þín er undir ákveðnu marki (sjá nánar hér) getur þú sótt um að fá hana alla í eingreiðslu. Ef hún er hærri verður útborgun tilgreindrar séreignar dreift jafnt á sjö ára tímabil miðað við 100% örorku. Ef örorka er metin minni lækkar árleg greiðsla í sama hlutfalli og útborgunartíminn lengist sem því nemur.
- Afgreiðslutími umsókna er a.m.k. fimm virkir dagar, en útgreiðslur fara fram um mánaðarmót.