Fara á efnissvæði
Innskrá
Kona með kaffibolla á kaffistofu á skrifstofu.

Allir ættu að safna í séreign

Séreignarsparnaður er bein launahækkun fyrir þig, því þegar þú byrjar að safna í séreignarsparnað færðu 2% mótframlag frá launagreiðanda sem þú fengir ekki annars. Þess vegna ættu allir að nýta sér þessa frábæru kjarabót.

Allir launþegar eiga rétt á að safna í séreignarsparnað. Þú velur um að greiða iðgjald á bilinu 2-4% af launum þínum og á móti kemur 2% mótframlag frá launagreiðanda þínum. Sparnaðurinn er svo laus til útborgunar eins og þér hentar frá 60 ára aldri. 

Ekki fresta því að hefja sparnaðinn – því fyrr sem greiðslur hefjast, því meiri verður ávöxtunin að lokum. En það er heldur aldrei of seint að hefja sparnað í séreignarsjóð því mótframlag launagreiðandans þýðir að séreignarsparnaður er góður kostur alveg fram á síðasta starfsdag.

Kostir séreignar

  • 2% launahækkun fyrir þig vegna mótframlags launagreiðanda
  • Skattalegt hagræði myndast þar sem iðgjald er ekki skattlagt við innborgun
  • Fjármagnstekjuskattur er ekki tekinn af ávöxtun
  • Hægt er að ráðstafa séreign skattfrjálst inn á fasteignalán
  • Séreign er þín einkaeign og er erfanleg
  • Séreign skerðir hvorki barna- né vaxtabætur
  • Útborgun getur hafist við 60 ára aldur og útborganir eru sveigjanlegar
  • Greiðslur úr séreign skerða ekki lífeyrisgreiðslur TR

Get ég nýtt mér Séreign LSR?

Til að geta safnað í Séreign LSR þarftu að uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

  • Að hafa einhvern tímann greitt iðgjald til einhverra af sjóðum LSR
  • Að vera núverandi félagi í KÍ, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eða einhverju aðildarfélaga BSRB eða BHM

Reglurnar eru þannig nokkuð rúmar og ef þú ert ekki viss um hvort þú getir safnað í Séreign LSR hvetjum þig til að hafa samband við okkur með netfanginu idgjold@lsr.is, eða einfaldlega sækja um aðild að Séreign á Mínum síðum. Það tekur einungis örfáar mínútur og við munum svo hafa samband við þig til að ganga frá skráningunni. 

Veldu ávöxtunarleið sem hentar þér

Breytingar verða gerðar á séreignarleiðum LSR 1. janúar 2026 og með þeim getur þú valið milli tveggja mismunandi ávöxtunarleiða eftir því sem hentar þér.
  Leið I (verður Verðbréfaleið 1. jan. 2026) Leið III (verður Innlánaleið 1. janúar 2026)
Sveifla í ávöxtun (áhætta) Mikil Lítil
Aðalfjárfesting Hlutabréf Verðtryggð innlán
Hentar best fyrir Yngra fólk sem mun ávaxta séreignina lengi í von um hærri ávöxtun og þau sem eru tilbúin til að taka meiri áhættu í fjárfestingum Sjóðfélaga sem nálgast starfslok og vilja lágmarka áhættu inneignar sinnar og þau sem vilja lágmarka áhættu
10 ára meðaltal hreinnar raunávöxtunar 4,1% 1,3%

Séreign fyrir sjóðfélaga í B-deild

Sjóðfélagar í B-deild geta safnað í Séreign LSR með sama hætti og aðrir launþegar á Íslandi. Sjóðfélagar í B-deild sem fá greidda yfirvinnu og þeir sjóðfélagar sem eru orðnir iðgjaldafríir geta hins vegar greitt viðbótarframlag í séreign og aukið þannig lífeyrissparnað sinn.

  • Til nánari útskýringar, þá geta launþegar á Íslandi greitt alls 8% iðgjöld af heildarlaunum sínum í lífeyrissjóði án þess að dreginn sé skattur af iðgjaldinu. Til að fullnýta það er jafnan greitt 4% iðgjald í hefðbundinn lífeyrissjóð og 4% iðgjald í séreignarsjóð.

    Sjóðfélagar í B-deild greiða einungis iðgjald til B-deildar af föstum dagvinnulaunum, orlofs- og persónuuppbót og föstu vaktaálagi. Þeir greiða hins vegar ekki iðgjald af yfirvinnulaunum. Þannig ávinna þeir sér ekki lífeyrissjóðsréttindi af slíkum launum og fullnýta ekki möguleika á 8% iðgjaldagreiðslu.

    Sjóðfélögum B-deildar gefst hins vegar kostur á að greiða aukalega í séreign af yfirvinnulaununum til að fylla upp í 8% iðgjaldið. Þetta er best útskýrt með dæmi:

    Sjóðfélagi í B-deild sem greiðir 4% í séreign fær 1.000.000 kr. í heildarlaun. 800.000 kr. eru vegna dagvinnu og fastra vakta, en 200.000 kr. eru vegna yfirvinnu. 

    Iðgjöld af dagvinnu og föstum vöktum (samtals 800.000 kr.) eru:

    • 4% til B-deildar LSR (32.000 kr.)
    • + 4% í séreign (32.000 kr.)
    • =8% heildariðgjöld, 64.000 kr. af 800.000 kr.

    Fyrir yfirvinnu eru hins vegar engin iðgjöld greidd til B-deildar. Þá getur sjóðfélaginn ákveðið að greiða 4% viðbótariðgjöld af yfirvinnu, sem í þessu dæmi er 200.000 kr., í séreign til að fullnýta 8% heimildina. Þá verða iðgjöldin af yfirvinnunni:

    • 4% í séreign (8.000 kr.)
    • + 4% viðbótargreiðsla í séreign (8.000 kr.)
    • =8% heildariðgjöld, 16.000 kr. af samtals 200.000 kr., allt í séreign

    Sjóðfélagar í B-deild sem hafa náð 32 eða 95 ára reglunni og eru því orðnir iðgjaldafríir geta með sama hætti greitt 4% aukalega í séreign af heildarlaunum sínum, þar sem iðgjaldagreiðslur þeirra til B-deildar hafa fallið niður. Það er mjög góður kostur til að auka lífeyrissparnaðinn umtalsvert eftir að reglunni er náð.

    Ég er sjóðfélagi í B-deild. Hvernig sæki ég um að greiða aukalega í séreign?
    Á umsókn LSR um séreignarsparnað geta sjóðfélagar í B-deild óskað sérstaklega eftir greiðslu viðbótariðgjalda til Séreignar LSR.