Iðgjald og ávinnsla

Í A-deild LSR greiðir þú mánaðarlega 4% iðgjald af launum og til viðbótar greiðir vinnuveitandi allt að 11,5%. Með þessu færðu rétt á eftirlaunum sem greidd eru til æviloka, auk þess að fá rétt á örorkulífeyri ef vinnugeta skerðist og maki og börn eiga kost á að fá greiddan maka- og barnalífeyri við fráfall sjóðfélaga

Iðgjöld eru greidd frá 16 ára aldri til sjötugs. Í A-deild LSR er hægt að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri, en jafnframt er hægt að fresta lífeyristöku allt fram að 80 ára aldri.

Ávinnsla réttinda

Hver iðgjaldagreiðsla veitir réttindi til eftirlauna- eða lífeyrisgreiðslna sem reiknuð eru samkvæmt ákveðnum reglum sem skilgreindar eru í samþykktum LSR. Frá júní 2017 hefur verið aldurstengd réttindaávinnsla í A-deild LSR, en það er í samræmi við flesta aðra íslenska lífeyrissjóði.

Með aldurstengdri réttindaávinnslu hefur aldur sjóðfélaga áhrif á réttindin sem fást fyrir hverja iðgjaldagreiðslu. Því yngri sem þú ert þegar þú greiðir iðgjaldið, því meiri réttindi færðu fyrir hverja greidda krónu. Það er vegna þess að iðgjaldið mun ávaxtast lengur en iðgjald sem greitt er á eldri árum. Sérstakar réttindatöflur LSR segja til um verðmæti iðgjalda sjóðfélaga hverju sinni.

Jöfn réttindaávinnsla – fyrir sjóðfélaga sem hafa greitt reglulega frá því fyrir 1. júní 2017

Áður en aldurstengd réttindaávinnsla var tekin upp 1. júní 2017 var svokölluð jöfn réttindaávinnsla í A-deild LSR. Þeir sem hafa greitt reglulega í sjóðinn frá þeim tíma eru enn í jafnri réttindaávinnslu. Í slíkri ávinnslu er verðmæti þeirra réttinda sem fást fyrir iðgjaldið alltaf það sama, óháð aldri sjóðfélagans, og fylgja réttindin ákveðnu hlutfalli af meðallaunum. Þessi réttindi eru nú árlegur lífeyrisréttur frá 67 ára aldri sem nemur 1,98% af meðallaunum.

Ábending: Þú getur séð hvort þú sért í aldurstengdri eða jafnri réttindaávinnslu með því að fara á Mínar síður. Í spjaldi A-deildar efst á lífeyrissíðunni sérðu hvort þú sért í aldurstengdri eða jafnri ávinnslu.