LSR í 100 ár

Afmælisræða framkvæmdastjóra LSR | Harpa Jónsdóttir

Ræða Hörpu JónsdótturVirðulegi forsætisráðherra, stjórnarformaður og aðrir gestir.

Til hamingju með afmælið!

Í dag eru nákvæmlega 100 ár frá því að lífeyrissjóðurinn var stofnaður. Á þessum tíma hefur auðvitað margt breyst. Eitt hundrað ár eru langur tími, lengri en fólk man og fátt fólk nær þessum aldri. Þess vegna langar mig að byrja á því að draga upp nokkur atriði til þess að tengja okkur við árið 1919.

Í nóvember 1919 var eitt ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Sömuleiðis var um eitt ár frá því að Ísland öðlaðist fullveldi. Spænska veikin herjaði á landsmenn. Fyrsta flugvélin tók á loft á Íslandi og ýmsar breytingar voru í umræðunni.

Í dagblöðum sem komu út þennan dag fyrir 100 árum var skrifað um orkuskipti. Þar var þrefað um hvort rafmagn úr vatnsvirkjunum yrði nokkurn tímann nægilega mikið eða á nógu góðu verði til þess að koma í stað kola við húshitun. Það var rætt um jákvæðar breytingar varðandi skipaflotann sem var hratt að færa sig frá því að nota kol yfir í olíu. Að sjálfsögðu voru líka fréttir af veðri og færð. Svo var talað um illa heppnaðar nýbyggingar. Eitt þeirra húsa sem kvartað var undan var þá nýbyggt íshús á milli Kvennaskólans og Fríkirkjunnar. Í dag er Listasafn Íslands þar til húsa og ég held að almennt þyki það hús mikil prýði.

Embættismenn 1919Í þessu umhverfi var fyrsti lífeyrissjóðurinn stofnaður hér á landi. Hann var hugsaður fyrir embættismenn, sem sagt ríkisstarfsmenn í æðstu stöðum og hét Lífeyrissjóður embættismanna. Prinsippið var einfalt, að tryggja embættismanninum lifibrauð á efri árum – ævilangt. Á sama tíma var stofnaður sjóður fyrir ekkjur embættismanna.

Tryggingin fyrir eftirlaununum var samtrygging, allir borguðu í einn pott. Eftirlaun voru svo greidd úr pottinum.

Ekkja 1919Ekkjutryggingin var einstaklingstrygging og hvíldi á hverjum embættismanni fyrir sig. Embættismennirnir töldu það áhættu og mikinn ókost svo tveimur árum síðar, þ.e. 1921, var þessu fyrirkomulagi breytt í samtryggingu. Á sama tíma var stofnaður sjóður fyrir barnakennara. Allt frá þessum tíma voru stofnaðir fleiri og fleiri sjóðir og má nefna að árið 1930 var Eftirlaunasjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar stofnaður.

Árið 1944 varð mikil breyting á LSR. Sjóðurinn hætti að vera eingöngu fyrir embættismenn og almennum ríkisstarfsmönnum veittur aðgangur að sjóðnum og fékk sjóðurinn þá það nafn sem hann ber í dag, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Hér varð því bylting. Þetta gerist á tímum seinni heimsstyrjaldar. Sá tími var mikill uppgangstími fyrir Íslendinga, hagvöxtur á mann hefur varla nokkurn tíma verið svo mikill mörg ár í röð og mikil samkeppni var um vinnuafl.

Kennari 1921Í greinargerð með lögunum um þessa breytingu sjóðsins stendur meðal annars: „Á síðustu árum hafa mörg fyrirtæki og stofnanir komið upp eftirlaunasjóðum fyrir starfsfólk sitt. Með þessum ráðum reyna einkafyrirtæki nú að draga til sín starfslið frá hinu opinbera. Ríkið mun tæplega geta mætt þessari samkeppni á annan hátt en með því að endurbæta þær tryggingar, er starfsmenn þess njóta. Og þeir einir mundu njóta framlags ríkisins, sem láta ekki ginnast af smávægilegum yfirboðum einkafyrirtækja.“

Lífeyrismálin voru greinilega á þessum tíma mjög stórt lóð á vogarskálarnar í samkeppninni um vinnuafl. Þetta sama ár var einnig settur á stofn lífeyrissjóður fyrir hjúkrunarfræðinga og áfram fjölgaði sjóðunum.

Upp úr 1960 var orðin almenn vitundarvakning í þjóðfélaginu um þann mikla mismun sem var á kjörum þeirra sem áttu í lífeyrissjóði og hinna sem ekki áttu í slíkum sjóði og árið 1969 urðu lífeyrismál að stóru baráttumáli í kjaraviðræðum sem lauk með samningum um skyldutryggingu í kjarasamningum. Verkalýðshreyfingin lagði mikið upp úr því að tryggingin væri söfnunarsjóður með samtryggingu og var í samningunum samið um S-in 3: Sjóðsöfnun, Skylduaðild og Samtryggingu. Lífeyrissjóðakerfið okkar er því 50 ára á þessu ári. Fimm árum síðar voru svo sett lög um skylduaðild allra launþega. Þannig er stofnun LSR, fyrir 100 árum, grunnurinn að því lífeyriskerfi sem við höfum í dag.

1960 og 1969Eftir þetta fór að gæta sameininga sjóða. Árið 1980 sameinaðist Lífeyrissjóður barnakennara LSR og fleiri slíkar sameiningar og samrunar fylgdu í kjölfarið og LSR stækkaði. Í dag er LSR stærsti lífeyrissjóður landsins. Hann er 100 ára og eignirnar orðnar 1000 milljarðar.

Árið 1997 voru svo stórar breytingar á LSR – þá var A-deildin stofnuð en hún byggir alfarið á sjóðasöfnun líkt og sjóðirnir á almenna markaðnum. B-deildin verður til svo lengi sem það ber að greiða úr henni, en yngsti virki meðlimur deildarinnar er 46 ára, en síðasta greiðsla úr B-deildinni verður líklega makalífeyrir vegna sjóðfélaga sem yngdi vel upp.

Árið 1999 var séreignarsjóður LSR stofnaður. Séreignin er kærkomin viðbót við hina ævilöngu framfærslutryggingu sem sameignin er.

Á hátíðisdögum er gaman að fara yfir söguna, þó hér sé stiklað á mjög stóru. Margt hefur breyst í áranna rás. Við höfum tekið þátt í þeim breytingum og erum stolt af því. Fyrir hundrað árum var mikið rætt um orkuskipti, eins og nú í dag. Við viljum taka þátt í þessum breytingum. Fjárfesta skynsamlega, á ábyrgan hátt og hugsa um umhverfið. Við viljum halda áfram að vera hreyfiafl í þjóðfélaginu.

100 árVið viljum ganga í takt við samfélagsbreytingar og við erum tilbúin í næstu hundrað ár. Við vitum líka að þrátt fyrir allar þessar breytingar, þá breytumst við mannfólkið í raun og veru ekki mikið og höfum sömu grunnþarfir. Því er eins farið með grunnstarfsemi LSR. Hún er og verður og hefur alltaf verið að tryggja fólki áhyggjulaust ævikvöld.

Að lokum er vert að minnast þess að þriðjungi þess tíma sem sjóðurinn hefur verið starfræktur þá hefur honum verið stýrt af einum og sama manni. Haukur Hafsteinsson, mig langar að biðja þig að koma hér upp og taka við smá þakklætisvotti.

Við þökkum Hauki fyrir, hann stýrði sjóðnum dyggilega og þannig munum við feta áfram veginn næsta árhundraðið. Við hlökkum til þeirra verkefna sem framtíðin ber í skauti sér. Takk fyrir og til hamingju með daginn!

Haukur og Harpa