Spurt og svarað

Er einhver einn aldur betri en annar til að byrja að safna tilgreindri séreign?

Það er einstaklingsbundið hvort og hvenær það er hagstætt að nýta sér val um tilgreinda séreign. Líta þarf til þeirra þátta sem snúa að tegund réttindaávinnslu og virði áfallaverndar. Einnig skiptir máli hve mikið sjóðfélagi hefur áunnið sér nú þegar í samtryggingarsjóð til að meta heildaráhrifin af því að velja tilgreinda séreign fram yfir samtryggingu.

Fyrir sjóðfélaga sem enn eru tiltölulega ungir að árum, hafa áunnið sér lítið í samtryggingu en eru með talsverðar skuldbindingar gagnvart fjölskyldu og heimili getur sterkur örorkulífeyrisréttur verið mikils virði ef sjóðfélagi verður fyrir tekjutapi vegna óvinnufærni. Að verða fyrir áfalli á yngri árum þýðir að sjóðfélagi hefur ekki náð að ávinna sér mikil réttindi sökum aldurs. Í þeim tilvikum verða framreiknuð réttindi til 65 ára stór hluti af heildar örorku- og makalífeyrisgreiðslum og þá kemur sér illa að hafa ekki greitt fullt iðgjald í samtryggingu.

Á móti getur það verið góður kostur fyrir ungt fólk að safna upp tilgreindri séreign og nýta skattfrjálst til fyrstu íbúðarkaupa, eða til að greiða inn á íbúðarlán vegna fyrstu kaupa.

Eldri sjóðfélagar sem hafa þegar áunnið sér góð réttindi í samtryggingu og komið undir sig fótunum eiga oft auðveldara að mæta áföllum og þurfa því síður á áfallavernd að halda. Þá hefur lægri áfallavernd minna vægi þar sem framreikningur réttinda til 65 ára er minni hluti af heildar örorku- og makalífeyrisgreiðslum.

Einnig er gott að hafa í huga að ákvörðun um að safna í tilgreinda séreign er ekki endanleg, þ.e. sjóðfélagi sem hefur safnað í tilgreinda séreign getur alltaf hætt því og byrjað að greiða aftur fullt iðgjald í samtryggingu. 

Skerðast greiðslur frá TR á móti tilgreindri séreign?

Já, tilgreind séreign er hluti af lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóð og mun því skerða greiðslur Tryggingastofnunar líkt og greiðslur úr samtryggingasjóðum.

Er tilgreind séreign erfanleg?

Já, tilgreind séreign verður þín einkaeign og erfist að fullu samkvæmt erfðalögum til lögerfingja.

Hversu mikið má leggja inn í tilgreinda séreign?

3,5% af launum er hámarkið, einnig er hægt að velja 1,5% og 2,5%.

Hvernig sæki ég um tilgreinda séreign?

Á Mínum síðum má finna umsókn um tilgreinda séreign.

Hvert fer iðgjaldið sem ég vel að ráðstafa í tilgreinda séreign?

Í stað þess að iðgjaldið fari í A-deild LSR fer það í séreignarsjóð LSR og fylgir fjárfestingastefnu tilgreindrar séreignar sem byggir á sama lagaramma og samtryggingin. Finna má fjárfestingarstefnu tilgreindrar séreignar hjá LSR hér.

Séreignarsjóður LSR er öflugur og góður sjóður þar sem rekstrarkostnaði er haldið í lágmarki. Séreignardeild LSR hefur það eina markmið að skapa sem mest verðmæti fyrir sjóðfélaga og er ekki rekin í hagnaðarskyni fyrir neina aðra en þá. Þannig er t.d. markaðs- og sölukostnaður séreignardeildar LSR svo til enginn. Sjóðfélagar sem hefja greiðslu í tilgreinda séreign greiða engin upphafsgjöld og strax frá fyrstu iðgjaldagreiðslu byrjar inneignin að safnast upp. Þá er heldur ekki tekin þóknun við útgreiðslur á inneign, til dæmis vegna örorku eða aldurs, vegna fyrstu fasteignakaupa eða vegna greiðslna inn á lán þegar heimild er fyrir því samkvæmt lögum.

Hvenær get ég byrjað að taka út tilgreinda séreign?

Hægt er að taka út frá 62 ára aldri og þá er fjárhæð dreift í jöfnum greiðslum til 67 ára aldurs. Eftir 67 ára aldur er heildarinneignin laus til útborgunar. Ef inneign er undir ákveðinni viðmiðunarfjárhæð er í boði að taka inneignina út í eingreiðslu frá 62 ára.

Get ég tekið alla fjárhæðina sem ég á í tilgreindri séreign út í einu?

Ef inneign er undir ákveðinni viðmiðunarfjárhæð er í boði að taka inneignina út í eingreiðslu frá 62 ára. Sé inneignin hærri en það, er eingöngu hægt að taka heildarfjárhæðina út eftir 67 ára aldur. Ef útgreiðsla hefst fyrr þá þarf að dreifa greiðslunum til 67 ára. Ef byrjað er 64 ára þá þarf að dreifa í 3 ár o.s.frv. Eftir 67 ára er heildarinneignin laus til útborgunar.

Er hægt að velja annan vörsluaðila fyrir tilgreinda séreign?

Já, hægt er að velja annan vörsluaðila. Ef óskað er eftir því þarf að hafa samband við starfsfólk sjóðsins.
LSR hvetur sjóðfélaga sína til þess að vanda valið á vörsluaðila, sérstaklega með tilliti til kostnaðar, gjaldmiðlaáhættu og sveigjanleika til að nýta tilgreinda séreign inn á lán eða til fyrstu íbúðarkaupa, þar sem reglur geta verið ólíkar á milli vörsluaðila.

Er hægt að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst inn á lán?

Já, hægt er að ráðastafa tilgreindri séreign inn á lán vegna fyrstu íbúðarkaupa, eins og farið er nánar yfir hér. Nánari upplýsingar um greiðslur á séreignarsparnaði inn á lán má jafnframt finna á vef Skattsins

Hvernig er tilgreind séreign frábrugðin „hefðbundnum“ séreignarsparnaði?

Tilgreinda séreign má taka út frá 62 ára aldri með dreifingu í 5 ár. Annan séreignarsparnað má taka út að fullu frá 60 ára aldri. 

Tilgreind séreign kemur jafnframt til frádráttar frá greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins, en greiðslur úr hefðbundinni séreign gera það ekki.

Hefur tilgreind séreign áhrif á eftirlaun, örorku- og makalífeyri?

Já, tilgreind séreign hefur áhrif á samtrygginguna vegna þess að greiðslur iðgjalda í samtryggingu lækka þegar byrjað er að greiða í tilgreinda séreign.

 

  • Eftirlaun - ævilangur lífeyrir verður lægri. Réttindaávinnsla lækkar í samtryggingunni.
  • Örorkulífeyrir - ekki myndast réttur á örorkulífeyri út frá tilgreindri séreign.
  • Makalífeyrir - ekki myndast réttur á makalífeyri út frá tilgreindri séreign.

 

Athugið þó að réttindi sem þegar hafa verið greidd í samtryggingu breytast ekki þótt sjóðfélagi hefji greiðslur í tilgreinda séreign.

Er tilgreind séreign aðfararhæf við gjaldþrot?

Nei. Lífeyrisréttindi í samtrygginga- og séreignarsjóðum eru ekki aðfararhæf við gjaldþrot sjóðfélaga á meðan þau eru í vörslu sjóðanna.

Þarf ég að láta vinnuveitanda minn vita að ég vilji vera með tilgreinda séreign?

Nei, launagreiðandi skilar 11,5% mótframlagi til samtryggingasjóðs áfram. Sjóðfélagi þarf eingöngu að sækja um hjá sínum samtryggingarsjóð.

Get ég greitt í tilgreinda séreign ef ég er í B-deild?

Nei, lög um B-deild heimila það ekki. Skylduiðgjald í B-deild er 12% (8+4) en ekki 15,5% eins og í hefðbundnum lífeyrissjóðum.