Áhrif af tilgreindri séreign

Ýmsa þætti þarf að meta þegar tekin er ákvörðun um hvort greiða eigi fullt iðgjald í samtryggingu eða setja hluta þess í tilgreinda séreign.

Við ákvörðun um hvort greiða skuli í tilgreinda séreign er lykilspurningin hvort sjóðfélagi meti meira sveigjanleika og erfanleika iðgjalds með tilgreindri séreign eða ríkari örorkutryggingu og hærri eftirlaun úr samtryggingu til æviloka.

Þau ólíku verðmæti sem iðgjaldið skapar eftir því hvort það rennur í tilgreinda séreign eða samtryggingu skipta einnig máli. Fyrir sjóðfélaga í jafnri ávinnslu A-deildar er t.d. mikilvægt að hafa í huga að réttindaávinnsla þeirra í samtryggingu er meiri en almennt er og verðmæti iðgjalda eykst eftir því sem sjóðfélagi er eldri. 

Hjá sjóðfélaga í jafnri ávinnslu sem er 30 ára eða eldri mun tilgreind séreign til að mynda ekki leiða af sér hærri heildarréttindi yfir áætluð eftirlaunaár. Í aldurstengdri ávinnslu er réttindaávinnslan hins vegar jafnari milli samtryggingar og tilgreindrar séreignar.

Skoða tilgreinda séreign í reiknivél

Hvort er ég í jafnri eða aldurstengdri ávinnslu?

Almenna reglan er að þeir sem hafa greitt samfleytt í A-deild síðan fyrir 1. júní 2017 eru í jafnri ávinnslu. Sjóðfélagar sem hófu greiðslur eftir þann tíma eru í aldurstengdri ávinnslu. Ef þú veist ekki hvort þú ert í jafnri eða aldurstengdri ávinnslu getur þú séð það á lífeyrishlutanum á Mínum síðum.

Aldurstengd ávinnsla – Samanburður réttinda

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á réttindaávinnslu í aldurstengdri ávinnslu hjá 25 ára, 40 ára og 60 ára sjóðfélaga með 500.000 kr. í mánaðarlaun með og án tilgreindrar séreignar. Dæmin sýna réttindaávinnslu frá þeim tíma sem 25, 40 eða 60 ára sjóðfélagi velur tilgreinda séreign en innihalda ekki áunnin réttindi fram að þeim tíma. Þá er miðað við að sjóðfélaginn dreifi greiðslum úr tilgreindri séreign jafnt yfir allan væntan lífaldur sinn og að meðalraunávöxtun sé 3,5%.

25 ára sjóðfélagi

Aldurstengd réttindaávinnsla frá 25 til 67 ára með og án tilgreindrar séreignar

  • Aldur: 25 ára sjóðfélagi.
  • Laun: 500.000 kr./mán.
  • Tilgreindri séreign dreift á væntanlegan fjölda eftirlaunaára, sem er 24 ár.
   Samtrygging 15,5% Samtrygging 12%
Tilgreind séreign 3,5%
 
Ævilöng eftirlaun  373.581 kr./mán. 289.224 kr./mán. 
Tilgreind séreign   100.709 kr./mán.
Samtals  373.581 kr. /mán.  389.933 kr./mán.

40 ára sjóðfélagi

Aldurstengd réttindaávinnsla á árunum 40 til 67 ára með og án tilgreindrar séreignar

  • Aldur: 40 ára sjóðfélagi
  • Laun: 500.000 kr./mán.
  • Tilgreindri séreign dreift á væntanlegan fjölda eftirlaunaára, sem er 23 ár.
   Samtrygging 15,5% Samtrygging 12%
Tilgreind séreign 3,5%
 
Ævilöng eftirlaun   188.255 kr./mán. 145.746 kr./mán. 
Tilgreind séreign      48.919 kr./mán.
Samtals  188.255 kr./mán.  194.665 kr./mán.

60 ára sjóðfélagi

Aldurstengd réttindaávinnsla á árunum 60 til 67 ára með og án tilgreindrar séreignar

  • Aldur: 60 ára sjóðfélagi
  • Laun: 500.000 kr./mán.
  • Tilgreindri séreign dreift á væntanlegan fjölda eftirlaunaára, sem er 22 ár.
   Samtrygging 15,5% Samtrygging 12%
Tilgreind séreign 3,5%
Ævilöng eftirlaun   38.146 kr./mán. 29.532 kr./mán. 
Tilgreind séreign     8.956 kr./mán. 
Samtals  38.146 kr./mán. 38.488 kr./mán.

Eins og dæmin þrjú sýna hér fyrir ofan fást örlítið meiri heildarréttindi af því að greiða í tilgreinda séreign í aldurstengdri ávinnslu. Hafa þarf þó í huga að með því að greiða í tilgreinda séreign minnkar áfallatryggingin, þ.e. réttur til örorku- og makalífeyris, sem getur verið verðmætur ef til áfalla kemur á fyrri hluta ævinnar.

Jöfn ávinnsla – Samanburður réttinda

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á réttindaávinnslu í jafnri ávinnslu hjá 25 ára, 40 ára og 60 ára sjóðfélaga með 500.000 kr. í mánaðarlaun með og án tilgreindrar séreignar. Dæmin sýna réttindaávinnslu frá þeim tíma sem 25, 40 eða 60 ára sjóðfélagi velur tilgreinda séreign en innihalda ekki áunnin réttindi fram að þeim tíma. Þá er miðað við að sjóðfélaginn dreifi greiðslum úr tilgreindri séreign jafnt yfir allan væntan lífaldur sinn og að meðalraunávöxtun sé 3,5%.

25 ára sjóðfélagi

Jöfn réttindaávinnsla frá 25 til 67 ára með og án tilgreindrar séreignar

  • Aldur: 25 ára sjóðfélagi
  • Laun: 500.000 kr./mán.
  • Tilgreindri séreign dreift á væntanlegan fjölda eftirlaunaára, sem er 24 ár.
   Samtrygging 15,5% Samtrygging 12%
Tilgreind séreign 3,5%
 
Ævilöng eftirlaun  415.664 kr./mán. 321.804 kr./mán. 
Tilgreind séreign   100.709 kr./mán.
Samtals  415.664 kr. /mán.  422.513 kr./mán.

40 ára sjóðfélagi

Jöfn réttindaávinnsla á árunum 40 til 67 ára með og án tilgreindrar séreignar

  • Aldur: 40 ára sjóðfélagi
  • Laun: 500.000 kr./mán.
  • Tilgreindri séreign dreift á væntanlegan fjölda eftirlaunaára, sem er 23 ár.
   Samtrygging 15,5% Samtrygging 12%
Tilgreind séreign 3,5%
 
Ævilöng eftirlaun   267.212 kr./mán.  206.874 kr./mán. 
Tilgreind séreign       48.919 kr./mán.
Samtals  267.212 kr./mán.  255.793 kr./mán.

60 ára sjóðfélagi

Jöfn réttindaávinnsla á árunum 60 til 67 ára með og án tilgreindrar séreignar

  • Aldur: 60 ára sjóðfélagi
  • Laun: 500.000 kr./mán.
  • Tilgreindri séreign dreift á væntanlegan fjölda eftirlaunaára, sem er 22 ár.
   Samtrygging 15,5% Samtrygging 12%
Tilgreind séreign 3,5%
Ævilöng eftirlaun   69.277 kr./mán. 53.634 kr./mán. 
Tilgreind séreign     8.956 kr./mán. 
Samtals  69.277 kr./mán. 62.590 kr./mán.

Eins og sviðsmyndirnar hér fyrir ofan sýna er ekki mikill munur á heildarávinningi þess að vera í tilgreindri séreign fyrir yngri sjóðfélaga í jafnri ávinnslu. Þeir fá hins vegar lægri áfallavernd vegna örorku eða fráfalls. Eftir því sem sjóðfélagar verða eldri sést hins vegar hvernig sífellt meira fæst fyrir iðgjaldið með því að láta það renna í samtryggingu. Þetta er vegna þess að iðgjöld í jafnri ávinnslu verða hlutfallslega verðmætari því eldri sem sjóðfélagi er þegar iðgjaldið er greitt.  

Áfallavernd eða sveigjanleiki?

Dæmin hér fyrir ofan sýna að þegar greiðslum er dreift á væntan lífaldur er ekki verulegur munur á heildarávinningi í aldurstengdri ávinnslu, en munurinn er hins vegar nokkur í jafnri ávinnslu, sérstaklega fyrir þá sem eldri eru.

Helsti kostur tilgreindar séreignar er því fyrst og fremst að sjóðfélagi skapar erfanlega eign og fær tækifæri til að hækka lífeyrisgreiðslur á fyrstu árum eftirlauna. En um leið leiðir það til lægri eftirlaunagreiðslna á seinni árum þegar greiðslum tilgreindrar séreignar lýkur, auk þess sem áfallavernd minnkar.

LSR hvetur því sjóðfélaga að kynna sér vel hvaða áhrif val á tilgreindri séreign hefur á ævilöng eftirlaun og áfallavernd sem fæst með fullum greiðslum í samtryggingu. Hafa þarf báða þessa þætti í huga til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun sem hentar hverjum og einum.