Afkoma LH á árinu 2015

13.04.2016

Nafnávöxtun LH á árinu 2015 var 7,4% á árinu sem svarar til 5,1% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LH síðustu fimm árin var 6,6%. Tekjur af fjárfestingarstarfsemi voru 2 milljarðar króna og heildareignir LH í árslok 2015 námu 27,7 milljörðum króna.

 

Verðbréfaeign sjóðsins í árslok 2015 skiptist þannig að 41,4% voru í skuldabréfum, þar af 27,5% í bréfum með ríkisábyrgð, 10% í innlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 42% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum og 6,5% í innlánum. Hlutfall erlendra eigna var 45,1% í árslok. Hlutfallið er hærra en hjá lífeyrissjóðum í landinu og endurspeglar góða áhættudreifingu í verðbréfasafni LH.

 

Á árinu 2015 fengu 1.063 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 3,2 milljarða króna. Að meðaltali greiddi 305 sjóðfélagi iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 203,2 milljónir króna.

 

Áfallin skuldbinding sjóðsins í árslok 2015 var 86,3 milljarðar króna og hækkaði um 10,6% á árinu. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 48 milljörðum króna af skuldbindingum sjóðsins með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 38,3 milljarðar króna. Endurmetin hrein eign sjóðsins var 28 milljarðar króna í árslok skv. úttektinni. Mismunurinn á skuldbindingum og eignum sjóðsins er á ábyrgð ríkissjóðs og annarra launagreiðenda.

Upplýsingar um starfsemi LSR og LH á árinu 2015