Góð ávöxtun af hlutabréfum í Högum

09.08.2017

Gengi hlutabréfa í Högum hf. hefur lækkað á síðustu dögum í kjölfar aukinnar samkeppni á smásölumarkaði og afkomuviðvörunar frá félaginu. Hagar reka m.a. verslanirnar Bónus, Hagkaup og Útilíf. Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um stóran eignarhlut lífeyrissjóða í félaginu og tjón þeirra vegna verðlækkunarinnar.

Af þessu tilefni telur LSR rétt að eftirfarandi komi fram: 

LSR á samtals 163.744.100 hluti í Högum eða sem nemur 13,98% hlut í félaginu.

Nettó fjárfesting LSR í Högum nemur tæpum 2,1 milljarði kr. en markaðsvirði eignarhlutar LSR miðað við lok dags 8. ágúst var tæpir 6 milljarðar kr. LSR fjárfesti fyrst í Högum á árinu 2011 og mikill meirihluti hlutafjár lífeyrissjóðsins var keyptur á því ári og árinu 2012. Uppsöfnuð ávöxtun fjárfestingar LSR í Högum er 187% miðað við dagslokagengi 8. ágúst.

Þó hræringar undanfarinna vikna á smásölumarkaði hafi vissulega haft áhrif á markaðsvirði Haga og þar með fjárfestingu LSR þá er félagið fjárhagslega sterkt og hefur fjárfesting lífeyrissjóðsins í Högum skilað góðri ávöxtun. Þá er rétt að árétta að LSR er langtímafjárfestir og væntir sjóðurinn þess að fjárfesting sjóðsins í Högum muni áfram skila góðri ávöxtun til lengri tíma litið.