Harpa Jónsdóttir nýr framkvæmdastjóri LSR

22.08.2019

Harpa Jónsdóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra LSR af Hauki Hafsteinssyni. Harpa er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og meistara- og doktorspróf í verkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur með tímaraðagreiningu, tölfræði og vatnafræði sem sérsvið. Hún var áður framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands.

Fyrsti vinnudagur Hörpu hófst á fundi með starfsmönnum sjóðsins. „Ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru hjá LSR. Lífeyrissjóðnum hefur verið stýrt farsællega og ég er heppin að geta byggt á þeirri góðu vinnu,“ segir Harpa.

Haukur Hafsteinsson lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri eftir 34 ár samfleytt sem framkvæmdastjóri sjóðsins. Hann vann að lífeyrismálum ríkisstarfsmanna allan sinn starfsferil eða frá því hann útskrifaðist úr lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1982. Haukur réði sig fyrst til starfa hjá Tryggingastofnun ríkisins sem annaðist þá rekstur nokkurra lífeyrissjóða, þar á meðal sjóð ríkisstarfsmanna.

Haukur segir eftirfarandi í tilefni dagsins, „Á þessum tímamótum er mér efst í huga að þakka fyrir gott samstarf við núverandi og fyrrverandi starfsmenn og stjórnarmenn sjóðsins. Baklandi lífeyrissjóðsins, bæði stéttarfélögum sjóðfélaga LSR og fjármálaráðuneytinu, vil ég þakka gott samstarf. Þá eru einnig ofarlega í huga góð samskipti við sjóðfélaga í gegnum tíðina.“