Aðkoma sjóðsins að fjárhagslegri endurskipulagningu Bakkavarar

18.01.2010

Undanfarið hefur verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Bakkavarar hf. Lífeyrissjóðurinn hefur á grundvelli skuldabréfaeignar í félaginu tekið þátt í þeirri vinnu í samstarfi við aðra kröfuhafa félagsins, þ.á.m. aðra lífeyrissjóði. Markmiðið hefur verið að tryggja fjárhagslega hagsmuni lífeyrissjóðsins þannig að endurheimtur krafna verði sem best tryggðar.

Þeir nauðasamningar sem Bakkavör leitar nú eftir byggja á framangreindri vinnu þar sem kröfuhafar og ráðgjafar þeirra hafa komið að málum. Tilgangur samninganna er að gera félaginu kleift að greiða skuldir sínar að fullu innan tiltekins tíma. Miðað er við að kröfuhafar fái í kjölfar nauðasamninga aukna eignarhlutdeild og ítök í Bakkavör um leið og félaginu og stjórnendum þess er gert kleift að vinna áfram að því að efla félagið svo það verði betur í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar.

 

Gangi markmið samninganna eftir fær lífeyrissjóðurinn kröfur sýnar greiddar að fullu með vöxtum auk eignarhlutar í félaginu. Geti félagið hins vegar ekki greitt skuldir sínar að fullu eignast lífeyrissjóðurinn ásamt öðrum kröfuhöfum umtalsverða hlutdeild í félaginu, allt eftir því hve stór hluti krafna greiðist til baka.

 

Eins og í öðrum helstu málum er varða fjárhagslega endurskipulagningu félaga sem sjóðurinn hefur komið að í kjölfar efnahagshrunsins mun hann fara fram á að reikningar félagsins verði skoðaðir með tilliti til riftanlegra gerninga eins og reglur um nauðasamninga heimila. Þá liggur fyrir að gerð er krafa um góða stjórnarhætti.

 

Bakkavör hf. hefur birt tilkynningu á vef NASDAQ OMX sem skýrir nánar grundvöll nauðasamningsbeiðninnar.