Leiðbeiningar um iðgjaldaskil í kjölfar verkfalls kennara

19.11.2004

Að loknu verkfalli grunnskólakennara er afar mikilvægt að rétt verði staðið að skilum lífeyrisiðgjalda til LSR. Launafulltrúum sveitarfélaga hafa verið sendar eftirfarandi leiðbeiningar um iðgjaldaskil sjóðfélaga í A- og B-deildum LSR sem og Séreign LSR. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá iðgjaldadeild LSR í síma 510-6100, einnig er hægt að senda netpóst á netfangið lsr@lsr.is.

B-deild LSR

Fyrir þá sem eru sjóðfélagar í B-deild þarf sérstaklega að undanskilja þau tímabil sem verkfallið stóð yfir sem var  20.-30. september, 1. - 26. október og 9. - 13. nóvember (báðir dagar meðtaldir). Aðeins ber að skila iðgjöldum fyrir það tímabil sem greitt er fyrir.

Minnt er á að iðgjöld til B-deildar eru greidd af launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum á hverjum tíma. Því ber ekki að skila iðgjöldum til B-deildar af eingreiðslum sem samið er um. Jafnframt skal minnt á að greiða ber iðgjald af persónuuppbót í desember.

A-deild LSR

Iðgjald til A-deildar er greitt af heildarlaunum og því ber að greiða iðgjald af umsamdri eingreiðslu.

Séreign LSR

Iðgjald í séreignarsjóð ber að skila af heildarlaunum til samræmis við samning hvers og eins launþega sem gert hefur slíkan samning.  Því ber að skila iðgjaldi af  eingreiðslu í séreign og skal sérstaklega vakin athygli á að jafnframt ber að greiða af eingreiðslu í séreign fyrir sjóðfélaga í B-deild.