Verðbréfaeign LSR og LH

10.12.2008

Í lok þriðja ársfjórðungs þessa árs var samanlögð verðbréfaeign LSR og LH 338 milljarðar króna. Frá þessum tímapunkti hefur mikið gengið á í fjármálakerfi heimsins og ekki hvað síst hér á landi. Fall íslensku bankanna vegur þar þyngst. Enn er talsverð óvissa um hver áhrif þessa verða á verðbréfaeign LSR og LH. Umfang tjónsins ræðst til t.d. að verulegu leyti af því hvernig farið verður með uppgjör gjaldmiðlavarnasamninga sem lífeyrissjóðirnir gerðu við gömlu bankana og skuldabréfa sem sjóðirnir eiga á þá. Þá er óvissa um hvað muni innheimtast af nokkrum skuldabréfum sem keypt hafa verið af fyrirtækjum sem nú eiga í erfiðleikum.


Staðan hefur engu að síður skýrst talsvert að undanförnu og nú er hægt að leggja mat á áhrif fjármálakreppunnar á lífeyrissjóðina, þó svo vissulega sé það mat háð nokkrum óvissuþáttum. Í kjölfar falls bankanna þriggja, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings, hefur verðbréfaeignin verið endurmetin. Lækkun á verðbréfaeign LSR og LH vegna afskriftar á hlutabréfum og víkjandi skuldabréfum á bankana er 9%. Auk þessa er rétt að taka tillit til lækkunar sem orðið hefur á öðrum hlutabréfum og til áætlaðra afskrifta vegna útlánatapa af skuldabréfum. Að teknu tilliti til þessa er áætluð lækkun á verðbréfaeign u.þ.b. 12% frá því sem hún var fyrir fall bankanna.

Annar mælikvarði til að meta lækkun eigna er að skoða þetta í samhengi við uppbyggingu eigna sjóðanna á undanförnum árum. Síðustu 10 ár hefur verið mikil eignaaukning hjá LSR og LH. Í árslokum 1997 til ársloka 2007 hafði eign sjóðsins upp í lífeyrisgreiðslur vaxið úr tæplega 40 milljörðum króna í yfir 300 milljarða króna. Það högg sem sjóðurinn hefur nú orðið fyrir færir þessa uppbyggingu aftur í tímann u.þ.b. tvö ár. Ætla má að í árslok þessa árs verði eignir svipaðar og þær voru í árslok 2006.

Það högg sem lífeyrissjóðirnir verða nú fyrir er að stórum hluta til komið vegna afskrifta á hlutabréfum. Mikilvægt er því að halda því til haga að þessi sömu hlutabréf höfðu hækkað mikið á undanförnum árum. Það er því alltaf erfitt að tala um hversu mikið „tap“ hafi verið af þessum fjárfestingum. Sem dæmi má taka þróunina frá árslokum 2001 til ársloka 2007. Á þessum árum hækkuðu íslensk hlutabréf mikið í verði. Í árslok 2001 var hlutabréfaeign LSR og LH 8 milljarðar króna. Í árslok 2007 var hlutabréfaeignin 50 milljarðar króna. Á tímabilinu voru nettókaup sjóðanna á innlendum hlutabréfum tæplega þrír milljarðar króna. Skerðing eigna nú er því að nokkru leyti vegna eigna sem höfðu hækkað mikið á undanförnum árum. Það má því með vissum rökum segja að ekki hafi verið innistæða fyrir þeim hækkunum sem bókfærðar hafa verið á undanförnum árum vegna innlendra hlutabréfa.