Skúli Hrafn Harðarson ráðinn sjóðstjóri hjá LSR

02.11.2022

LSR hefur ráðið Skúla Hrafn Harðarson í starf sjóðstjóra á eignastýringasviði. Skúli mun gegna lykilhlutverki við mat og stýringu verðbréfa á innlendum markaði hjá LSR og taka þátt í áframhaldandi vegferð í fjárfestingum sjóðsins. Hann mun hefja störf hjá LSR innan nokkurra vikna.

Skuli_hardarson

Skúli hefur síðustu ár verið sjóðstjóri hlutabréfasjóða hjá Kviku eignastýringu þar sem hann hefur leitt eignastýringu í innlendum hlutabréfum og náð góðum árangri við uppbyggingu hlutabréfasjóða félagsins. Hann hefur starfað hjá samstæðu Kviku banka og fyrirrennara fyrirtækisins, MP Banka, frá árinu 2008, þar sem hann gegndi áður starfi sjóðstjóra í blandaðri eignastýringu og sem forstöðumaður eigin viðskipta bankans. Skúli er með BA-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og hefur hlotið löggildingu í verðbréfamiðlun.