Spurt og svarað

Réttindi

Hver er munurinn á A-deild og B-deild LSR?

Í byrjun árs 1997 var A-deild LSR stofnuð en hún byggir á kerfi þar sem sjóðfélagi ávinnur sér réttindi miðað við greidd iðgjöld sem taka mið af heildarlaunum.

Á sama tíma var eldra kerfi sjóðsins, B-deild, lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Í B-deildinni ávinna sjóðfélagar sér 2% réttindi á ári miðað við fullt starf. Réttindi sjóðfélaga í B-deild reiknast út frá föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót skv. kjarasamningum við starfslok.  

Hverjir greiða til A-deildar og B-deildar LSR?

Allir fastráðnir ríkisstarfsmenn eiga skylduaðild að LSR, nema um annað sé samið í kjarasamningum. Allir nýráðnir starfsmenn greiða í A-deild LSR.

B-deild LSR var lokað fyrir nýjum sjóðfélögum í árslok 1996. Þeir sem greiddu til B-deildar LSR í árslok 1996 hafa áfram rétt til aðildar.

Einstaklingar sem ekki hafa skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði og eru félagsmenn í aðildarfélögum BSRB, aðildarfélögum BHM, KÍ eða í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og hafa ekki skylduaðild að öðrum lífeyrissjóði, eiga þess kost að greiða til A-deildar enda samþykki launagreiðandi þær mótframlagskröfur sem gerðar eru hverju sinni.

Hversu hátt iðgjald er greitt til A-deildar LSR?

Iðgjald til A-deildar er greitt af heildarlaunum. Sjóðfélagi greiðir fast 4% en mótframlag launagreiðanda er breytilegt, nú 11,5%, sem haldist hefur óbreytt frá stofnun deildarinnar árið 1997. 

Fyrir þá starfsmenn sem hafa greitt í A-deild LSR eða A-deild Brúar fyrir 1. júní 2017 og eiga enn rétt á jafnri ávinnslu réttinda ber launagreiðendum sem eru ekki að meirihluta fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum að greiða sérstakt viðbótariðgjald til þess að starfsmenn þeirra haldi jafnri ávinnslu réttinda og 65 ára lífeyristökualdri. Ef þetta iðgjald er ekki greitt reiknast réttindi sjóðfélaga í aldurstengdri ávinnslu og miðast við 67 ára lífeyristökualdur.

Hversu hátt iðgjald er greitt til B-deildar LSR?

Iðgjald til B-deildar greiðist af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót, orlofsuppbót og vaktaálagi. Sjóðfélagi greiðir 4% en mótframlag launagreiðanda er 8%. 

Ef ég hætti að greiða í B-deild LSR í ákveðinn tíma, má ég þá byrja að greiða aftur í B-deildina síðar?

Já, svo fremi sem sjóðfélagi hefji aftur starf sem veitir honum rétt til aðildar að deildinni eigi síðar en 12 mánuðum frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður. Í þeim tilvikum sem formlegu ráðningarsambandi hefur ekki verið slitið t.d. launalaust leyfi, heldur sjóðfélagi aðild sinni að B-deildinni þó iðgjaldagreiðslur falli niður í lengri tíma en 12 mánuði.

Hvað er 32 ára/almenna reglan í B-deild LSR?

Sjóðfélagi sem orðinn er 65 ára og látið hefur að störfum á rétt á töku lífeyris. Sá sem velur þessa reglu hefur greitt í sjóðinn í allt að 32 ár og áunnið sér 2% rétt á ári miðað við fullt starf. Hafi sjóðfélagi greitt í sjóðinn í 32 ár áður en hann verður 65 ára bætist við 1% réttur á ári fyrir fullt starf þar til 65 ára aldri er náð. Ef sjóðfélagi heldur áfram störfum eftir 65 ára aldur bætir hann við sig 2% rétti á ári miðað við fullt starf.

Hvað er 95 ára regla í B-deild LSR?

Þeir sjóðfélagar sem hefja greiðslu iðgjalda til sjóðsins yngri en 33 ára geta tekið lífeyri samkvæmt svokallaðri 95 ára reglu. Þau skilyrði sem uppfylla þarf eru eftirfarandi:

 1. Samanlagður aldur og iðgjaldagreiðslutími séu 95 ár. Þessu marki þarf vera náð fyrir 64 ára aldur.
 2. Sjóðfélagi þarf að vera orðinn 60 ára.
 3. Sjóðfélagi þarf að vera hættur störfum.

Sjóðfélagi sem velur þessa reglu þarf að greiða til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur hans er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi en þó ekki hærri en 64% við 95 ára markið. Eftir að 95 ára markinu er náð fellur iðgjaldagreiðsla niður,en sjóðfélagi bætir við sig 2% lífeyrisrétt fyrir hvert ár í fullu starfi.

Þarf að greiða iðgjald fyrir erlenda ríkisborgara?

Já, það þarf að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð fyrir alla launþega sem starfa á Íslandi á aldrinum 16-70 ára. Hins vegar kunna erlendir ríkisborgarar að eiga rétt til að fá iðgjöld sín endurgreidd þegar þeir láta af störfum. Slíkan endurgreiðslurétt eiga ríkisborgarar utan evrópska efnahagssvæðisins skv. ákveðnum reglum. Hér má lesa nánar um reglur um endurgreiðslur til erlendra ríkisborgara.

Lífeyrir

Hvenær er hægt að hefja töku eftirlauna hjá LSR?

Sjóðfélagar í A-deild sjóðsins geta hafið töku lífeyris hvenær sem er á aldrinum frá 60 til 70 ára og þurfa þeir ekki að vera hættir störfum þegar taka lífeyris hefst. Sjóðfélagar í B-deild sjóðsins geta hafið töku lífeyris mánuði eftir 65 ára skv. almennu reglunni en 60 ára skv. 95 ára reglunni hafi þeir látið af því fasta starfi sem veitti þeim aðild að sjóðnum.

Á ég rétt á örorkulífeyri?

Sjóðfélagar í A-deild sjóðsins, sem þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta störfum sökum örorku sem metin er 40% eða meira og áunnið hafa sér a.m.k. 2 stig, eiga rétt á örorkulífeyri. Sjóðfélagar í B-deild LSR, sem þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta störfum sökum örorku sem metin er 10% eða meira, eiga rétt á örorkulífeyri. 

Hvernig sæki ég um lífeyri?

Allir þurfa að sækja um lífeyri hvort sem vinnuveitandi tilkynnir um starfslok eða ekki. Hægt er að sækja umsóknareyðublað á vef sjóðsins eða óska eftir því að fá það sent í pósti. 

Ef ætlunin er að nýta skattkort hjá LSR þá þurfum við að fá upplýsingar um: 

 • Hversu hátt skattkort á að vera hjá LSR
 • Frá hvaða tíma á að nota skattkortið

Það nægir að senda tölvupóst með þessum upplýsingum.

Varðandi uppsöfnun þá er það á ábyrgð sjóðfélaga að gefa upp hvað búið er að nota mikið af skattkortinu. Hægt er að fá upplýsingar um notkun á vef Ríkisskattstjóra www.rsk.is.

A-deild: Get ég tekið hálfan lífeyri?

Sjóðfélagar A-deildar geta tekið hálfan lífeyri frá 60 ára aldri. Ef sjóðfélagi velur þennan kost geymir hann hinn helminginn þar til hann kýs að taka fullan lífeyri. Mánaðarlegar greiðslur vegna geymdra réttinda breytast í samræmi við samþykktir sjóðsins.

Ef sjóðfélagi heldur áfram í starfi eftir að taka á hálfum lífeyri hefst eru réttindi sem ávinnast af starfi meðfram töku á hálfum lífeyrir endurreiknuð þegar sótt er um fullan lífeyrir. Hægt er að fresta töku á fullum lífeyrir til 80 ára aldurs.

Í lögum um almannatryggingar er kveðið á um skilyrði þess að fá greiddan hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun. Athuga þarf að skilyrði fyrir hálfum lífeyri hjá Tryggingastofnun geta breyst ef breytingar verða á lögum eða öðrum gildandi reglum sem varða lífeyrisgreiðslur stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar um töku hálfs lífeyris má finna á vef Tryggingastofnunar.

B-deild: Get ég tekið hálfan lífeyri?

Sjóðfélagar B-deildar geta tekið hálfan lífeyri frá 65 ára aldri. Heimildin er bundin því skilyrði að sjóðfélagi sé ekki í meira en 50% starfi sem veitir aðild að B-deild.

Í lögum um almannatryggingar er kveðið á um skilyrði þess að fá greiddan hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun. Athuga þarf að skilyrði fyrir hálfum lífeyri hjá Tryggingastofnun geta breyst ef breytingar verða á lögum eða öðrum gildandi reglum sem varða lífeyrisgreiðslur stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar um töku hálfs lífeyris má finna á vef Tryggingastofnunar.

B-deild: Við hvað er miðað þegar lífeyrir er reiknaður út?

Við upphaf lífeyristöku hjá sjóðfélögum LSR B-deildar reiknast lífeyrir sem hlutfall af lokalaunum eða eftir atvikum af launum vegna 10 ára í hærra launuðu starfi. Eftir það breytast lífeyrisgreiðslur skv. eftirmannsreglu eða meðaltalsreglu. 

B-deild: Hver er munurinn á eftirmannsreglu og meðaltalsreglu?

Skv. eftirmannsreglu fylgja lífeyrisgreiðslur þeim launum sem greidd eru fyrir það starf er lífeyrisþeginn gegndi síðast eða fyrir hærra launað starf/störf en lokastarf samtals í meira en 10 ár. Skv. meðaltalsreglu fylgja lífeyrisgreiðslur þeim meðalbreytingum sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Hagstofa Íslands reiknar út þessar meðalbreytingar mánaðarlega. Innan þriggja mánaða frá upphafi lífeyristöku þarf að velja hvort lífeyrisgreiðslur verði samkvæmt eftirmannsreglu. Ef það er ekki gert fylgja lífeyrisgreiðslur sjálfkrafa meðaltalsreglu. Hægt er að skipta af eftirmannsreglu yfir á meðaltalsreglu. Umsókn um slíkt tekur gildi 3 mánuðum eftir að hún berst LSR. Eftir það er ekki hægt að skipta af meðaltalsreglu yfir á eftirmannsreglu. 

Á ég réttindi hjá öðrum sjóðum?

Gerð hefur verið svokölluð lífeyrisskrá yfir alla þá sem einhvern tímann hafa greitt til lífeyrissjóða. Í þeirri skrá kemur fram til hvaða lífeyrissjóða hver einstaklingur hefur greitt. Lífeyrissjóðir veita sjóðfélögum upplýsingar úr skránni. Í skránni eru einungis upplýsingar um það til hvaða sjóða viðkomandi sjóðfélagi hefur greitt en engar frekari upplýsingar varðandi greiðslu iðgjalda eða réttindi. Hafa þarf samband við viðkomandi sjóð til að fá þær upplýsingar. 

Séreign

Almennt um séreign

Hvað er séreignarsparnaður?

Vegna ákvæða laga um frestun skattlagningar, sem fela það í sér að draga má greidd lífeyrisiðgjöld sem nema allt að 8% af heildarlaunum frá skattstofni, þá er heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sem iðgjald í séreignarsjóð til viðbótar við lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð. Sjóðfélagar í séreignarsjóð eiga þá jafnan kost á mótframlagi frá launagreiðanda sem getur numið allt að 2% til viðbótar.

Hverjir geta greitt í Séreign LSR?

Rétt til aðildar að Séreign LSR hafa þeir sem greiða eða hafa greitt iðgjald til einhvers eftirtalinna sjóða: A-deild LSR, B-deild LSR, Lífeyrissjóðs alþingismanna, Lífeyrissjóðs ráðherra. Sama gildir um þá sem átt gætu rétt til aðildar skv. 3. gr. laga um LSR svo sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB, BHM, KÍ og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Reglurnar eru býsna rúmar og geta tekið til allra á launakjörum opinberra starfsmanna sem og starfsmanna ýmissa sjálfseignarstofnana, sveitarfélaga og menningar- og uppeldisstofnana. Rétt er að leita upplýsinga hjá starfsmönnum sjóðsins ef vafi leikur á rétti til aðildar að séreignardeildinni.

Hvað er Sér-leið?

Sér-leið er þægilegt sparnaðarform sem hefur það markmið að fjárfestingarstefna fylgi aldri sjóðfélaga og áhættuvali hans. Það er eðlilegt að draga úr vægi áhættumeiri fjárfestinga eftir því sem fólk eldist og nær dregur lífeyrisgreiðslum. Sjóðfélagar hafa val um Leið I og Leið II til 55 ára aldurs en flytjast þá sjálfkrafa í Leið III sem ávaxta séreignarsparnaðinn á verðtryggðum innlánsreikningum.

Hvaða fjárfestingarleið á að velja í séreignarsparnaði?

Valin fjárfestingarleið fer eftir áhættuþoli og aldri hvers og eins. Almenna reglan er sú að eftir því sem sjóðfélagi er yngri því meira er áhættuþol hans, hann hefur lengri tíma til að ávaxta sparnað sinn og þolir því frekar sveiflur sem fylgja hlutabréfaverði. Jafnan er það svo að fjárfestingar í skuldabréfum eru áhættuminni en fjárfestingar í hlutabréfum. Sögulega séð hafa hlutabréf gefið af sér hærri ávöxtun en skuldabréf en áhætta og sveiflur eru jafnframt meiri.

Hvernig virkar tilgreind séreign hjá LSR?

Hér má sjá upplýsingar um tilgreinda séreign hjá LSR.

Útborgun séreignar

Hvenær er hægt að fá séreign sína útborgaða?

Séreignarsparnaður er laus til útborgunar við 60 ára aldur.

Hvernig sæki ég um útborgun séreignar?

Sjóðfélagi í Séreign LSR getur fyllt út umsókn um útgreiðslu á Mínum síðum hér á vef LSR. Skrifa þarf undir umsóknina með rafrænum skilríkjum.

Hvernig er útgreiðslum hjá Séreign LSR háttað?

Almennt er greitt út vikulega og 1. hvers mánaðar.

Er skattur greiddur af útborgun séreignar?

Við útborgun er greiddur tekjuskattur af fjárhæðinni samkvæmt þrískiptri þrepaskiptingu tekjuskatts. Sjóðurinn sér um að standa skil á tekjuskatti.

Hvað þýðir skattfrestun?

Skattfrestun þýðir að staðgreiðsla skatta er dregin af við útborgun lífeyris en ekki við iðgjaldaskil.

Get ég nýtt skattkortið mitt?

Já, þú getur nýtt skattkortið þitt ef það er ekki fullnýtt annars staðar. 

Sérstök heimild til úttektar á séreignarsparnaði frá og með 1. apríl 2020

Nánar um sérstaka heimild til úttektar á séreignarsparnaði vegna COVID-19 

 • Alþingi hefur samþykkt lög þar sem kveðið er á um tímabundna heimild til úttektar séreignarsparnaðar vegna COVID-19.
 • Hámarksúttekt miðast við 12.000.000 kr., óháð því hvort samanlagður séreignarsparnaður sé í vörslu hjá fleiri en einum vörsluaðila.
 • Inneignin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á 15 mánuðum eða 800.000 kr. á mánuði fyrir skatt.
 • Útgreiðslutími styttist ef um lægri fjárhæð en 12.000.000 kr. er að ræða.
 • Inneignin sem hægt verður að taka út miðast við stöðuna 1. apríl 2020, en þó aldrei hærri fjárhæð en kr. 12.000.000.
 • Umsóknartímabilið er 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021.
 • Óski rétthafi eftir útgreiðslu séreignarsparnaðar skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila.
 • Tekjuskattur er dreginn af útgreiðslunni.
 • Útgreiðslan skerðir ekki vaxta-, barna- eða aðrar tryggingabætur.

Lesa má um lögin á vef Alþingis.

Lán

Á ég lánsrétt?

 • Ef þú ert virkur sjóðfélagi hjá LSR

Jafnframt er lánsréttur enn til staðar þrátt fyrir að sjóðfélagi sé ekki virkur ef eitt af eftirtöldum skilyrðum er uppfyllt;

 • Ef þú hefur einhvern tímann greitt iðgjald til LSR á sl. 5 almanaksárum
 • Ef þú hefur einhvern tímann greitt iðgjald til LSR og ekki greitt iðgjald til annars lífeyrissjóðs eftir að greiðslum til LSR lauk
 • Ef þú ert lífeyrisþegi hjá LSR og hefur greitt iðgjald til LSR a.m.k. samtals í 10 ár, þrátt fyrir að framangreind skilyrði vegna iðgjaldagreiðslna eru ekki uppfyllt
 • Ef þú ert makalífeyrisþegi og maki þinn hefði átt lánsrétt.

Get ég endurfjármagnað núverandi LSR lán þó að ég sé ekki með lánsrétt?

Já, ef þú varst með lánsrétt í tíð eldri lánareglna og eingöngu er um endurfjármögnun núverandi lána að ræða, þ.e. ekki er verið að taka viðbótarlán.

Hvernig sæki ég um lán?

Sótt er um lán á Mínum síðum á stafrænu formi og þar er einnig hægt að skila inn fylgigögnum. Innskráning á Mínar síður vegna lánsumsókna þarf að vera með rafrænum skilríkjum í síma og sömuleiðis þarf að skrifa undir með rafrænum skilríkjum í síma.  Greiðslumatið fer einnig fram á stafrænu formi á Mínum síðum í tengslum við umsókn þína um lán. Ráðlagt er að nota vafrana Google Chrome eða Microsoft Edge við innskráningu á Mínar síður.

Hvernig sæki ég um endurfjármögnun?

Á sama hátt og sótt er um lán. Sjá svar við spurningunni hér að ofan, hvernig sæki ég um lán?

Hvaða gögn þurfa að fylgja lánsumsókn?

Sjá upplýsingar um fylgigögn hér.

Hvar næ ég í veðbókarvottorð?

Lífeyrissjóðurinn hefur netaðgang að veðbókarvottorðum vegna flestra eigna á landinu. Bankar, fasteignasölur og fleiri hafa sama aðgang auk þess sem öll sýslumannsembætti gefa út vottorð. Kostnað má sjá í gjaldskrá.

Hvar næ ég í fasteignamat?

LSR útvegar fasteignamat en einnig má nálgast það hjá Þjóðskrá Íslands.

Lánar LSR út á verðmat fasteignasala?

Nei. LSR lánar út á fasteignamat eða kaupverð fasteignar.

Hvar fæ ég greiðslumat?

Þú framkvæmir sjálf/sjálfur greiðslumat á Mínum síðum í tengslum við umsókn þína um lán. Rafræna greiðslumatið er einfalt í notkun og tekur stuttan tíma. Nauðsynlegt er að hafa rafræn skilríki til að geta sótt um lán um sjóðnum og til að framkvæma greiðslumatið. Rafræn skilríki er hægt að fá hjá viðskiptabanka þínum. Ef um sameiginlega lántöku er að ræða þurfa allir umsækjendur að vera með rafræn skilríki, en allir þinglýstir eigendur fasteignar þurfa að gerast lántakar. Vakin er athygli á því að kostnað við greiðslumat þarf að greiða þó að það verði ekki af lánveitingu. 

Hvenær þarf greiðslumat?

Áður en lán er veitt þarf greiðslumat. Einnig þarf greiðslumat við skuldaraskipti. Athygli er vakin á því að einnig gæti þurft greiðslumat við skilmálabreytingu.

Hvað er lánshæfismat?

Lánshæfismat er mat lánveitanda á lánshæfi lántaka um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Samkvæmt lögum um neytendalán er lánveitanda skylt að meta lánshæfi.

Hversu hátt lán get ég fengið hjá LSR?

Hver sá sem á lánsrétt getur fengið lán hjá LSR að fjárhæð allt að kr. 50.000.000 samanlagt, enda uppfyllir lánið kröfur um veðhæfi fasteignar og lántaki stenst lánshæfis- og greiðslumat eftir því sem við á.

Er lágmark á lánsfjárhæð?

Já, lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000, enda á viðkomandi lánsrétt og lánið uppfyllir kröfur um veðhæfi fasteignar og lántaki stenst lánshæfis- og greiðslumat eftir því sem við á.

Hvernig sé ég greiðslubyrði láns?

Með lánareiknivélinni er hægt að reikna út greiðslubyrði láns.

Hvaða kröfur gerið þið um veð?

Lánað er gegn veði í íbúðarhúsnæði allt að 65% eða 70% af fasteignamati eða kaupverði. Skilyrðin fyrir 70% veðhlutfalli eru að LSR láni gegn 1. veðrétti eða að LSR láni í samfelldri veðröð frá og með 1. veðrétti. Þó er heimilt að vera með lán frá öðrum lánveitanda ef lánsfjárhæðin er innan við 10% af verðmæti fasteignar. Heildarfjárhæð lána má þó aldrei fara yfir samtölu brunabótamats og lóðarmats. Eingöngu við sérstakar aðstæður skv. mati LSR er heimilt að miða veðsetningu við verðmat löggilts fasteignasala. Hámarksfjárhæð lána hjá LSR samanlagt er kr. 50.000.000. Nánari ákvæði eru í lánareglum.

Get ég fengið lán út á lánsveð?

Nei.

Hver er lánstíminn?

Lánstími er 5 til 40 ár vegna verðtryggðra lána og 3 til 40 ár vegna óverðtryggðra lána.

Er hægt að greiða lán upp?

Já. Lán má greiða upp hvenær sem er án nokkurs kostnaðar. Einfaldast er að greiða upp lán á Mínum síðum á vef LSR en einnig er hægt að hafa samband við LSR með því að senda póst á netfangið lsr@lsr.is eða hringja í síma 510 6100.

Er hægt að greiða inn á höfuðstólinn?

Já. Greiða má inn á höfuðstólinn hvenær sem er án nokkurs kostnaðar. Einfaldast er að greiða inn á lán á Mínum síðum á vef LSR en einnig er hægt að hafa samband við LSR með því að senda póst á netfangið lsr@lsr.is eða hringja í síma 510 6100.

Er hægt að greiða inn á lán í vanskilum?

Já. Vinsamlega sendið póst á lsr@lsr.is eða hafið sambandi í síma 510 6100.

Er hægt að sækja um greiðslufrest á láni?

Já. Undir kaflanum 'Greiðslufrestur lána' má lesa nánar um það.

Veðleyfi - er hægt að taka lán hjá öðrum lánastofnunum og fara fram fyrir LSR í veðröð ?   

LSR hleypir ekki öðrum lánastofnunum fram fyrir sig í veðröð nema í þeim tilvikum þegar gefið er út skilyrt veðleyfi.  Í þeim tilvikum ábyrgist sú lánastofnun sem fer fram fyrir LSR í veðröð að greiða lán LSR að fullu með hinu nýja láni eða lánastofnunin ábyrgist að greiða að fullu lán frá annarri lánastofnun sem var fyrir framan LSR í veðröð svo að veðstaða LSR verði ekki lakari. 

Ég hef aldrei greitt í sjóðinn en er með lán hjá LSR á eigninni minni. Á ég þá rétt á láni hjá sjóðnum?

Nei.  

Þarf maki minn einnig að gerast lántaki hjá sjóðnum þó hann sé ekki sjóðfélagi?

Já, en þó eingöngu í þeim tilvikum ef hann á fasteignina sem boðin er fram sem veð í heild eða hluta á móti sjóðfélaga.

Spurt og svarað um breytingar á A-deild LSR 01.06.2017

Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á A-deild LSR?

Alþingi samþykkti breytingar á lögum um LSR í lok desember 2016. Með breytingunum er stefnt að því að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Hvað varðar LSR eiga fyrirhugaðar breytingar aðeins við um A-deild sjóðsins en B-deild er með öllu óbreytt. Í þessum breytingum felst að reglur um ávinnslu réttinda munu breytast. Í stað jafnrar ávinnslu réttinda yfir starfsævina mun réttindaávinnsla verða aldurstengd og viðmiðunaraldur lífeyristöku verður 67 ár. Þessar breytingar munu taka gildi frá og með 1. júní 2017. Núverandi sjóðfélagar í A-deild munu halda óskertum réttindum.

Hvað þýðir annars vegar jöfn ávinnsla réttinda og hins vegar aldurstengd ávinnsla réttinda?

Með jafnri ávinnslu er átt við að ávinnsla réttinda er jöfn yfir starfsævina, óháð aldri. Þannig fær hver greiðandi sjóðfélagi sömu réttindi, án tillits til aldurs. Með aldurstengdri ávinnslu réttinda er átt við að réttindi taki mið af aldri sjóðfélaga. Iðgjöld yngri sjóðfélaga eru verðmætari því þau eiga eftir að ávaxtast yfir lengri tíma. Þannig njóta yngri sjóðfélagar ávinnings af því hve lengi þeirra iðgjöld eiga eftir að ávaxtast. Réttindi sjóðfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.

Skerðast lífeyrisréttindi núverandi sjóðfélaga í A-deild LSR?

Nei, ekki verður gerð breyting á réttindum sjóðfélaga í A-deild við upptöku á nýju réttindakerfi þann 1. júní 2017. Á það jafnt við um þá sem eru í starfi, eru byrjaðir að taka lífeyri eða eiga eldri réttindi hjá sjóðnum. Þau réttindi verða áfram reiknuð í jafnri réttindaávinnslu og miðuð við 65 ára lífeyristökualdur. Ríkið hefur greitt 106,8 milljarða króna framlag í lífeyrisaukasjóð sem verður notaður til að bæta þann mismun sem verður á útreikningi á réttindum miðað við aldurstengda ávinnslu og jafna ávinnslu ásamt hækkun viðmiðunaraldurs lífeyristöku úr 65 í 67 ár.

Hverjir eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda?

Þeir sjóðfélagar sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum og hafa greitt til A-deildar einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda. Sjóðfélagar sem starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríkisaðilum og sveitarfélögum eiga aðeins þennan rétt að launagreiðandi þeirra samþykki greiðslu sérstaks iðgjalds.

Falli iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga niður til lengri tíma en tólf mánaða fellur réttur hans niður til framtíðar. Heimilt er að framlengja þetta tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs sjóðfélaga. Sjóðfélagi heldur þó alltaf réttinum ef ráðningarsamband er fyrir hendi, t.d. ef hann er í launalausu leyfi.

Sjóðfélagar sem eiga rétt á jafnri ávinnslu réttinda halda þeim rétti þó þeir skipti um starf, að því gefnu að starfið veiti rétt til aðildar að A-deild. Loks geta sjóðfélagar sem hafa einhvern tíma greitt í sjóðinn öðlast rétt til jafnrar ávinnslu réttinda ef þeir hefja greiðslur á ný fyrir 1. júní 2018.

Hækkar lífeyristökualdur þeirra sem greiða í A-deild LSR úr 65 árum í 67?

Sjóðfélagar í A-deild geta hafið töku lífeyris hvenær sem er á aldrinum 60 til 70 ára. Þetta verður óbreytt í nýju kerfi. Viðmiðunaraldur til útreiknings lífeyris hækkar úr 65 árum í 67. Sú breyting hefur ekki áhrif á réttindi núverandi sjóðfélaga A-deildar. Lífeyrisgreiðslur til þeirra verða þær sömu og þær hefðu verið fyrir breytinguna en þeir eiga möguleika á að vinna til 70 ára aldurs og auka enn við réttindi sín.

Hvernig virkar bakábyrgð launagreiðanda vegna A-deildar LSR fyrir 1. júní 2017?

Launagreiðendur bera ekki beina bakábyrgð á A-deild með sama hætti og gildir um B-deild sjóðsins. Launagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum A-deildar nema með iðgjöldum sínum. Ef A-deild á ekki fyrir skuldbindingum sínum skal hækka mótframlag launagreiðanda.

Verður hin óbeina bakábyrgð launagreiðanda áfram til staðar?

Samhliða fullri fjármögnun skuldbindinga verður ábyrgð launagreiðenda á réttindum í A-deild afnumin.

Sérstakar reglur gilda um þá sem náð hafa 60 ára aldri eða hafa hafið töku lífeyris fyrir 1. júní 2017. Þessir sjóðfélagar munu áfram hafa rétt til sambærilegrar tryggingar og óbeina bakábyrgðin felur í sér. Þessi trygging felur í sér að komi til þess í ljósi tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar að rétt sé að skerða eða auka réttindi, skuli slíkar breytingar ekki taka til þeirra sem hafa hafið töku lífeyris eða hafa náð 60 ára aldri fyrir gildistöku nýrra samþykkta sem er 1. júní n.k. Fjárhagsleg áhrif slíkra breytinga skulu gerðar upp með samningi A-deildar LSR við ríkissjóð.

Hvað kemur í stað hinnar óbeinu bakábyrgðar launagreiðanda?

Til að tryggja lífeyrisréttindi núverandi sjóðfélaga og til að mæta halla á stöðu sjóðsins, hefur ríkið greitt til sjóðsins fjárhæð sem nemur 117,2 milljörðum króna. Að auki verða um 8,4 milljarðar króna settar í sérstaka varúðarsjóði sem ætlað er að styðja við lífeyrisaukasjóðina svo þeir geti staðið undir skuldbindingum sínum. Komi í ljós síðar að þessi fjárhæð dugi ekki til eru launagreiðendur skuldbundnir að taka upp viðræður við heildarsamtök opinberra starfsmanna um hvernig við því skuli brugðist.

Af hverju þarf að leggja peninga inn í A-deild LSR vegna breytinganna?

Til að tryggja að núverandi sjóðfélagar haldi jafnverðmætum réttindum eftir breytingarnar þurfti ríkissjóður að leggja A-deild til 106,8 milljarða eingreiðslu. Auk þess þurfti ríkissjóður að greiða 10,4 milljarða króna til að koma áfallinni stöðu deildarinnar í jafnvægi miðað við árslok 2016.

Af hverju er verið að samræma lífeyrisréttindi almennra- og opinberra starfsmanna?

Svo að allir búi við samræmt fyrirkomulag í lífeyrismálum og geti fært sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi áhrif á réttindaávinnslu.

Hefur breytingin einhver áhrif á lífeyrisréttindi þeirra sem eru í B-deild LSR?

Nei, fyrirhugaðar breytingar taka eingöngu til A-deildar LSR.

Hvenær eiga breytingar á A-deild LSR að taka gildi?

Breytingar á ávinnslu sjóðfélaga A-deildar taka gildi 1. júní 2017. Sjóðfélagar sem greiða í sjóðinn fram að þeim tíma halda sínum réttindum og jöfn réttindaávinnsla í framtíðinni er tryggð með lífeyrisaukasjóði.

Geta ungir sjóðfélagar notið betri réttinda í nýju kerfi ?

Yngri sjóðfélagar kunna að koma betur út í nýju kerfi. Öll réttindi sem áunnust fyrir 1. júní 2017 munu verða jöfn réttindi, en hvað varðar réttindi sem ávinnast eftir þann tíma skal sjóðfélagi fá þau réttindi sem hærri eru við töku lífeyris.

Sem dæmi, ef sjóðfélagi hóf að greiða til sjóðsins þann 1. janúar 2016, þá mun öll ávinnsla til 1. júní 2017 ávallt veita jöfn réttindi. Ef hann greiðir til sjóðsins í fimm ár, til 31. desember 2020, en hættir þá greiðslum, munu réttindi hans frá 1. júní 2017 til 31. desember 2020 annað hvort verða jöfn eða aldurstengd, eftir því hvor ávinnslutegundin kemur betur út.

Ég starfa hvorki hjá ríki né sveitarfélögum en hef engu að síður greitt í A-deild LSR. Munu réttindi mín verða skert?

Sjóðfélagar sem greiða í A-deild einhvern tímann á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. júní 2017 en starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríki og sveitarfélögum eiga áfram rétt á jafnri ávinnslu réttinda ef launagreiðandi þeirra samþykkir að greiða sérstakt viðbótariðgjald fyrir þá.

Ég hef greitt í A-deild Brúar lífeyrissjóðs og á rétt til lífeyrisauka þar. Ég mun fljótlega skipta um starf og á þá að greiða til A-deildar LSR. Munu réttindin mín þá skerðast?

Sjóðfélagar Brúar sem rétt eiga á jafnri ávinnslu réttinda munu einnig eiga rétt á jafnri ávinnslu hjá A-deild LSR skipti þeir um starf og verði sjóðfélagar þar. Þó má ekki hafa liðið lengri tími en tólf mánuðir á milli starfa. Sambærilegt ákvæði verður í samþykktum Brúar sem felur í sér sambærilegan rétt skipti sjóðfélagar um starf og færa sig frá LSR til Brúar.

Hvað gerist ef ég tek mér árs leyfi frá störfum? Held ég þá óskertum réttindum?

Falli iðgjaldagreiðslur þínar niður til lengri tíma en tólf mánaða fellur réttur til jafnrar ávinnslu niður til framtíðar en þó er heimilt að framlengja það tímabil um 12 mánuði vegna náms, veikinda eða fæðingarorlofs. Þú heldur hins vegar alltaf réttinum ef ráðningarsamband er fyrir hendi, t.d. ef þú ferð í launalaust leyfi.

Ef ég fer að vinna á almennum vinnumarkaði og hætti þar með að greiða í A-deild LSR en sný til baka til hins opinbera eftir tólf mánuði eða meira. Held ég þá óskertum réttindum?

Nei, réttur til jafnrar ávinnslu fellur niður eftir 12 mánuði í slíkum tilvikum. Þú heldur þó ávallt áunnum réttindum.

Ég vinn hjá fyrirtæki á almenna vinnumarkaðnum en hef alltaf greitt í A-deild LSR. Mun ég geta greitt áfram í A-deild eftir breytingarnar?

Allir þeir sem eiga eða hefðu átt aðild að A-deild fyrir 1. júní 2017 munu áfram eiga rétt til aðildar að A-deild LSR.

Þeir sjóðfélagar sem vinna hjá launagreiðendum sem eru ekki einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum ávinna sér þó aðeins réttindi í jafnri ávinnslu ef launagreiðandi þeirra greiðir sérstakt viðbótariðgjald. Ef það er ekki greitt reiknast réttindin í aldurstengdri ávinnslu.

Mun iðgjald mitt til A-deildar LSR/Brúar lífeyrissjóðs verða hækkað vegna breytinganna?

Nei, iðgjald þitt verður eftir sem áður 4%.

Mun mótframlag atvinnurekanda vegna iðgjalda hækka vegna breytinganna?

Launagreiðendur greiða áfram 11,5% mótframlag til LSR þar til iðgjald hefur verið ákveðið í kjarasamningum. Þeir launagreiðendur sem eru á almennum vinnumarkaði og samþykkja að greiða sérstakt viðbótariðgjald vegna áframhaldandi aðildar starfsmanna þeirra að LSR skulu greiða slíkt.

Munu réttindi vegna örorkulífeyris breytast?

Nei, réttindi núverandi sjóðfélaga verða óbreytt. Hjá nýjum sjóðfélögum er meginbreytingin að ávinnsla réttinda verður aldurstengd en skilyrði til að öðlast réttindi eru þau sömu. Sjóðfélagi í A-deild á rétt á örorkubótum ef hann hefur verið metinn 40% öryrki og greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. tvö ár.

Munu réttindi vegna makalífeyris verða skert?

Nei, réttindi núverandi sjóðfélaga verða óbreytt. Hjá nýjum sjóðfélögum er meginbreytingin að ávinnsla réttinda verður aldurstengd en skilyrði til að öðlast réttindi eru þau sömu. Eftirlifandi maki sjóðfélaga LSR sem naut eftirlauna eða örorkulífeyris úr sjóðnum, eða hafði greitt iðgjald til hans a.m.k. 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum, á rétt á lífeyri úr sjóðnum. Fullur makalífeyrir skal greiddur í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.

Munu réttindi vegna barnalífeyris verða skert?

Nei, rétturinn til barnalífeyris verður óbreyttur. Við fráfall sjóðsfélaga sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins eða notið úr honum örorkulífeyri í sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, eiga börn hans rétt á lífeyri úr sjóðnum til 22 ára aldurs. Fullur mánaðarlegur barnalífeyrir vegna andláts er 25.172 kr. með hverju barni á mánuði. Fullur mánaðarlegur barnalífeyrir vegna örorku er 18.927 kr. Fjárhæðir miða við apríl 2017.

Ég er lögreglumaður. Verður breyting á reglum um lífeyristökualdur?

Nei, sú sérregla sem gildir um lögreglumenn verður óbreytt. Öllum lögreglumönnum sem eru leystir frá embætti sínu við 65 ára aldur skal reiknuð eftirlaun eins og þeir hefðu starfað til 70 ára aldurs.