Afkoma LSR á árinu 2019

24.04.2020

Afkoma á árinu 2019 var afar góð og ein sú besta í sögu LSR. Það var einkar ánægjulegt í ljósi þess að sjóðurinn fagnaði 100 ára afmæli sínu á árinu. Nafnávöxtun sjóðsins var 16,6% sem svarar til 13,4% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm ára var 5,6% og síðustu tíu ára var það einnig 5,6%. Heildareignir LSR voru 1.017,5 milljarðar króna í árslok 2019 og fjárfestingartekjur ársins námu tæpum 145 milljörðum króna.

Lífeyrisgreiðslur 2019

Á árinu 2019 fengu að meðaltali 25.472 lífeyrisþegar greiðslur frá sjóðunum og nam fjárhæð til þeirra alls 63,2 milljörðum króna. Þá greiddu að meðaltali 32.128 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu.

Miklar hækkanir voru á hlutabréfamörkuðum heimsins á árinu, þó mismikið eftir heimshlutum. Hlutabréfa­markaðurinn á Íslandi var þar ekki undanskilinn og skiluðu innlend hlutabréf góðri ávöxtun á árinu. 

Lækkandi vaxtastig leiddi jafnframt til verðhækkana á skuldabréfamarkaði en vextir hérlendis eru nú í sögulegu lágmarki.


Verðbréfaeign 2019

Góð eigna- og áhættudreifing er í verðbréfasafni LSR. Í árslok voru 49,3% af eignum sjóðsins í skuldabréfum og um helmingur skuldabréfanna er með ríkisábyrgð. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 36,1% í árslok.

Hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok var 729,5 milljarðar króna í A-deild, 268,5 milljarðar króna í B-deild og 19,5 milljarðar króna í Séreign. Helstu kennitölur deildanna má sjá í töflu:Kennitölur 2019

Upplýsingar um starfsemi LSR 2019 (.pdf skjal sem opnast í nýjum glugga)

Upplýsingar um einstakar deildir LSR 2019

A-deild

Nafnávöxtun var 16,1% á árinu 2019 sem svarar til 13% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára var 5,8% og meðaltal síðustu tíu ára var 5,4%. Heildareignir A-deildar námu 729,5 milljörðum króna í lok árs 2019.

Í árslok 2019 voru 53,0% af eignum A-deildar í skuldabréfum, þar af 24,5% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 31,2% í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, 13,4% í hlutabréfum og 2,4% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 34,3% í árslok.

Á árinu 2019 fengu að meðaltali 8.140 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá A-deild, samtals 9,2 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 27.330 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar og námu iðgjöld á árinu samtals 32,8 milljörðum króna.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati voru eignir A-deildar 110,1 milljarður króna umfram áfallnar skuldbindingar eða 19,1%. Heildarstaða A-deildar var hins vegar neikvæð um 2,9% eða sem nemur 32,1 milljarði króna.

Ársreikningur A-deild 2019

B-deild

Nafnávöxtun var 18,2% á árinu 2019 sem svarar til 14,8% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára var 5,5% og meðaltal síðustu tíu ára var 5,9%. Heildareignir B-deildar námu 268,5 milljörðum króna í lok árs 2019.

Verðbréfaeign deildarinnar skiptist þannig í árslok 2019 að 42,5% voru í skuldabréfum, þar af 22,1% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 36,5% í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, 14,5% í hlutabréfum og 6,4% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 40,9% í árslok.

Á árinu 2019 fengu að meðaltali 17.120 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá B-deild, samtals 53,4 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 1.795 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu og námu iðgjöld á árinu samtals 1,9 milljörðum króna.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2019 var 950,8 milljarðar króna og hækkaði hún um 5,1% á árinu. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 508,2 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem deildin á sjálf að standa undir eru því 442,6 milljarðar króna. Endurmetin hrein eign sjóðsins, að frádregnum núvirtum framtíðarkostnaði, var 261,3 milljarðar króna í árslok skv. úttektinni. Munurinn á skuldbindingum og eignum sjóðsins er á ábyrgð ríkissjóðs.

Ársreikningur B-deild 2019

Séreign

Nafnávöxtun Leiðar I var 21,3% sem svarar til 18,1% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 15,3% sem svarar til 12,3% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 4,4% á síðasta ári sem svarar til 1,6% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir Séreignar námu 19,5 milljörðum króna í árslok 2019 og jókst hrein eign um 2,7 milljarða króna á milli ára eða 15,8%. Fjárfestingarleiðir Séreignar eru með mismunandi eignasamsetningu og sveiflast ávöxtun þeirra því mismikið.

Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2019 skiptist þannig að 42,6% voru í skuldabréfum og hlutdeildarskírteinum í skuldabréfasjóðum, 55,7% í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum og 1,7% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 44,3% í árslok.

Verðbréfaeign Leiðar II um áramót var þannig að 66,0% voru í skuldabréfum og hlutdeildarskírteinum í skuldabréfasjóðum, 29,2% í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum og 4,9% í innlánum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum voru 24,2% í árslok.

Á árinu 2019 fengu að meðaltali 213 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá Séreign samtals að fjárhæð 598,6 milljónir króna. Iðgjöld námu 1.099,5 milljónum króna á árinu 2019 en alls greiddu 3.003 sjóðfélagar að meðaltali iðgjald til deildarinnar á árinu.

Ársreikningur Séreign 2019