Ákvörðun Neytendastofu – vaxtaendurskoðunarákvæði lána með breytilegum vöxtum

10.01.2020

Neytendastofa hefur birt ákvörðun sína vegna breytinga á vöxtum verðtryggðra sjóðfélagalána LSR.

Þann 31. maí 2019 tilkynnti LSR á vef sínum að breytilegir vextir verðtryggðra sjóðfélagalána myndu framvegis breytast samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og taka mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði. Um var að ræða verðtryggða breytilega vexti sjóðfélagalána vegna skuldabréfa sem gefin voru út fyrir 15. janúar 2019.

Niðurstaða Neytendastofu var sú að vaxtabreyting var heimil vegna skuldabréfa sjóðsins er gefin voru út frá og með mars 2015 og að viðkomandi skilmáli skuldabréfanna hafi uppfyllt skilyrði laga og telur Neytendastofa ekki tilefni til frekari athugasemda af hálfu stofnunarinnar við skilmálann.

Niðurstaða Neytendastofu var jafnframt sú að LSR hafi í skilmálum eldri skuldabréfa með breytilegum vöxtum sem gefin voru út fyrir mars 2015 veitt ófullnægjandi upplýsingar um það hvaða skilyrði réðu breytingu á vöxtum. Þar sem í skilmálum þessara skuldabréfa var eingöngu vísað til þess að vextir gætu breyst samkvæmt ákvörðunar stjórnar voru skilmálarnir ekki taldir veita nægar upplýsingar um skilyrði fyrir breytingu á vöxtum. Neytendastofa telur þó að breytingarnar sem gerðar hafa verið á vöxtum lánanna frá útgáfu skuldabréfanna hafi heilt yfir verið til hagsbóta fyrir neytendur enda hafi vextir lækkað verulega á gildistíma lánanna og telur Neytendastofa ekki tilefni til frekari aðgerða.

Tengill á ákvörðun Neytendastofu.