Breytingar á A-deild LSR

19.09.2016

Fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands skrifuðu fyrr í dag undir samkomulag um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Samkomulagið tekur til réttinda í A-deild LSR. Frumvarp sem byggir á samkomulaginu verður lagt fram á Alþingi í vikunni. Verði frumvarpið að lögum taka breytingarnar gildi 1. janúar 2017.

Réttindi sjóðfélaga í B-deild LSR standa óbreytt. Sama á við um þegar áunnin réttindi sjóðfélaga í A-deild. Þá er núverandi sjóðfélögum A-deildar tryggð áframhaldandi sambærileg réttindaávinnsla með framlagi ríkisins í sérstakan lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð.

Verði frumvarpið að lögum munu nýir sjóðfélagar frá og með næstu áramótum ávinna sér réttindi í breyttu lífeyriskerfi þar sem réttindaávinnsla verður aldurstengd, þ.e. því yngri sem sjóðfélagar eru, þeim mun verðmætari eru iðgjaldagreiðslur og þar með réttindin. Þá verður lífeyristökualdur þeirra hækkaður úr 65 árum í 67 ár.

Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Sátt um sjálfbært lífeyriskerfi - glærur frá kynningarfundi.