Hækkun iðgjalds launagreiðenda í A-deild LSR

11.10.2016

Stjórn LSR hefur tekið ákvörðun um að iðgjald launagreiðenda hækki um næstu áramót úr 11,5% í 15,1%. Samanlagt iðgjald sjóðfélaga og launagreiðenda verður þá 19,1%.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 1/1997 um LSR ber stjórn að hækka iðgjald launagreiðenda leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi launagreiðenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins, sbr. þó 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 39. gr. lífeyrissjóðslaganna ber stjórn að grípa til aðgerða ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Staða A-deildar hefur verið utan 5% markanna 8 ár í röð. Á undanförnum árum hefur Alþingi reglulega samþykkt bráðabirgðaákvæði sem heimilað hafa lífeyrissjóðnum að vera með stöðu utan þeirra marka sem tilgreind eru í 39. gr. lífeyrissjóðslaganna. Slíku bráðabirgðaákvæði er ekki til að dreifa að þessu sinni. Til að koma heildarstöðu A-deildar í jafnvægi miðað við tryggingafræðilega úttekt um síðustu áramót þarf að hækka iðgjaldið í 19,1%.