Haukur Hafsteinsson hættir sem framkvæmdastjóri LSR

01.03.2019

Haukur Hafsteinsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri LSR - Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins snemma í sumar. Hann tilkynnti þetta á starfsmannafundi í morgun en hafði áður gert stjórn sjóðsins grein fyrir ákvörðun sinni.

Haukur hefur starfað að lífeyrismálum ríkisstarfsmanna allan starfsferil sinn eða frá því hann útskrifaðist úr lögfræði í Háskóla Íslands 1982. Hann réði sig fyrst til starfa hjá Tryggingastofnun ríkisins sem annaðist þá rekstur nokkurra lífeyrissjóða, þar á meðal sjóðs ríkisstarfsmanna.

Frá árinu 1985 hefur Haukur verið forsvarsmaður LSR og hefur gegnt því starfi í 34 ár samfleytt þegar hann hverfur af þeim vettvangi í sumar. „Ég verð 65 ára á hausti komanda og tel einfaldlega að nú sé réttur tími til breytinga. Í sjálfu sér hefði ég vel getað starfað hér lengur en gerði það upp við mig á síðastliðnu ári að ég myndi hætta sumarið 2019,“ segir Haukur.

Unnur Pétursdóttir, formaður stjórnar LSR, segir að ákvörðun Hauks hafi vissulega komið sér á óvart. Efst í huga sér nú sé virðing og þakklæti, „Haukur hefur um áratuga skeið verið drifkraftur, þungamiðja og andlit Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, alltaf vakinn og sofinn yfir velferð sjóðsins og sjóðfélaga. Hann er einn reynsluríkasti forystumaður lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi og hafsjór fróðleiks um lífeyrismál ríkisstarfsmanna sérstaklega. Ég er þakklát Hauki fyrir allt það sem hann hefur gert í okkar þágu á farsælum starfsferli. Hann skilur eftir sig skarð sem bíður stjórnar sjóðsins að fylla. Það verður augljóslega ekki auðvelt!“

Stjórn LSR mun síðar í marsmánuði auglýsa starf framkvæmdastjóra laust til umsóknar.