Heimild til töku hálfs lífeyris og möguleiki á frestun töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs í A-deild LSR

13.09.2018

Þann 1. september sl. tóku gildi breytingar á samþykktum LSR er varða A-deild sjóðsins. Geta sjóðfélagar nú tekið hálfan lífeyri frá og með þeim tíma. Ef sjóðfélagi velur þennan kost geymir hann hinn helminginn þar til hann kýs að taka fullan lífeyri. Mánaðarleg fjárhæð vegna geymdra réttinda hækkar í samræmi við samþykktir sjóðsins. Einnig tóku gildi á sama tíma breytingar er gera sjóðfélögum A-deildar kleift að fresta lífeyristöku til allt að 80 ára aldurs gegn hækkun mánaðarlegs lífeyris.

Þá tóku gildi þann 1. september sl. breytingar á lögum um LSR er heimila töku hálfs lífeyris úr B-deild sjóðsins. Heimildin er bundin þeim skilyrðum að sjóðfélagi hafi náð 65 ára aldri og sé ekki í meira en 50% starfi sem veitir aðild að B-deild.

Með þessum breytingum geta sjóðfélagar LSR nú uppfyllt skilyrði laga almannatrygginga sem veita möguleika á töku hálfs lífeyris frá Tryggingastofnun gegn töku hálfs lífeyris hjá lífeyrissjóðum.