Eignaaukning 22 milljarðar - Raunávöxtun 2,2% hjá LSR

05.05.2011

Um síðustu áramót voru samanlagðar eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) 371,8 milljarðar króna og hækkuðu um 21,9 milljarða frá árinu á undan eða um 6,3%. Í árslok 2010 skiptust eignir þannig að hlutur A-deildar var 154,5 milljarðar króna, B-deildar 187 milljarðar króna, Séreignar LSR 8,6 milljarðar króna og eignir LH voru 21,7 milljarðar króna.

Í árslok 2010 voru 60,2% af eignum sjóðanna í innlendum skuldabréfum, 33,2% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 1,6% í innlendum hlutabréfum, 4,6% í innlánum og 0,4% í öðrum fjárfestingum.

Nafnávöxtun LSR var 4,9% á árinu 2010 sem svarar til 2,2% hreinnar raunávöxtunar. Árið áður var hrein raunávöxtun 2,9% og hefur sjóðurinn því skilað jákvæðri raunávöxtun undanfarin 2 ár þrátt fyrir erfitt umhverfi og takmarkaða fjárfestingarmöguleika.

Árið einkenndist af talsverðum sveiflum á erlendum mörkuðum og nam lækkunin fram að miðju ári um 10,5%. Markaðir tóku þá viðsnúning og hækkuðu um 24,9% til loka árs. Vegna styrkingar á gengi krónunnar lækkaði dollar um 7,9% gagnvart krónu. Heildaráhrif þessa eru því að þrátt fyrir ágætis raunávöxtun á erlenda hlutabréfasafninu lækkar hún töluvert þegar áhrifin vegna styrkingar krónunnar eru tekin með í reikninginn og nam hún 0,59%. Talsverðar hækkanir voru á innlenda hlutabréfasafninu og nam raunávöxtun þess 27,3% samanborið við 11,7% raunávöxtun íslensku Úrvalsvísitölunnar OMXI 6.

Talsverðar lækkanir urðu á ávöxtunarkröfu innlenda skuldabréfamarkaðarins árið 2010. Nokkrar sveiflur voru þó innan ársins og fór ávöxtunarkrafa ríkistryggðra skuldabréfa í ein lægstu gildi sem sést hafa á innlendum markaði. Ávöxtunarkrafan hækkaði þó á nýjan leik seinni hluta ársins en lækkaði þegar horft er til ársins í heild. Mest lækkaði ávöxtunarkrafa skuldabréfa með stuttan líftíma og endurspeglaði það vel aðgerðir Seðlabankans sem lækkaði stýrivexti átta sinnum á árinu, úr 10% í 4,5%. Verðbólgan lækkaði hratt frá fyrra ári og mældist hún 2,6% samanborið við 8,6% árið 2009.

Ársuppgjör einstakra sjóða 2010

Samantekt á niðurstöðu ársuppgjörs 2010 má skoða hér.

A-deild LSR

Heildareignir A-deildar námu 154,5 milljörðum króna í lok árs 2010. Nafnávöxtun A-deildar var 5% á árinu 2010 sem svarar til 2,3% hreinnar raunávöxtunar.

Í árslok 2010 voru 63,9% af verðbréfaeignum deildarinnar í innlendum skuldabréfum, 27,1% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 1,4% í innlendum hlutabréfum, 7% í innlánum og 0,6% í öðrum fjárfestingum.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati var áfallin staða sjóðsins neikvæð um 4,2 milljarða eða 2,5%. Heildarstaða sjóðsins var neikvæð um 47,4 milljarða eða 12%.

B-deild LSR

Heildareignir B-deildar námu 187 milljörðum króna í lok árs 2010. Nafnávöxtun B-deildar var 4,6% á árinu 2010 sem svarar til 1,9% hreinnar raunávöxtunar.

Verðbréfaeign deildarinnar í árslok 2010 skiptist þannig að 59% voru í innlendum skuldabréfum, 37,8% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 1,8% í innlendum hlutabréfum, 1% í innlánum og 0,4% í öðrum fjárfestingum.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2010 var 513 milljarðar króna miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir, sem jafngildir 3,5% ávöxtun umfram vísitölu neysluverðs, og hækkaði hún um 1,2% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðinga eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 217,3 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 295,7 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok 187 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum sjóðsins og hreinni eign er með bakábyrgð ríkissjóðs.

Séreign LSR

Ávöxtun Séreignar LSR var góð á árinu. Fjárfestingarstefna leiðanna þriggja gerir ráð fyrir mismunandi vægi hlutabréfa og skuldabréfa og sveiflast ávöxtun þeirra þar af leiðandi mismikið. Nafnávöxtun Leiðar I var 12,9% sem svarar til 10% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 14,2% sem svarar til 11,2% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 6,2% á síðasta ári sem svarar til 3,5% hreinnar raunávöxtunar. Við samanburð á ávöxtun Séreignar LSR við ávöxtun A- og B-deildar sjóðsins er rétt að hafa það í huga að flestöll skuldabréf í séreigninni eru í sjóðum sem gerðir eru upp á markaðsvirði en skuldabréf eru gerð upp á kaupkröfu í öðrum deildum.

Heildareignir Séreignar LSR námu 8,6 milljörðum króna í árslok 2010 og jókst hrein eign um 1.165 milljónir króna eða 15,6%.

Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2010 skiptist þannig að 51,4% voru í innlendum skuldabréfum, 34,7% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 1,7% í innlendum hlutabréfum, 10,1% í innlánum og 2,1% í öðrum fjárfestingum. Verðbréfaeign Leiðar II um áramót var þannig að 64,3% var í innlendum skuldabréfum, 28,1% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 2,2% í innlendum hlutabréfum, 3,9% í innlánum og 1,5% í öðrum fjárfestingum.

Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga

Heildareignir LH í árslok 2010 námu 21,7 milljörðum króna. Nafnávöxtun sjóðsins var 4,6% á árinu 2010 sem svarar til 1,8% hreinnar raunávöxtunar.

Verðbréfaeign sjóðsins í árslok 2010 skiptist þannig að 54,3% voru í innlendum skuldabréfum, 40,2% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 1,8% í innlendum hlutabréfum, 3,5% í innlánum og 0,2% í öðrum fjárfestingum.

Áfallin skuldbinding sjóðsins í árslok 2010 var 60,6 milljarðar króna miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir og hækkaði um 1,9% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðinga eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 30,3 milljörðum króna af skuldbindingum sjóðsins með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem sjóðurinn á sjálfur að standa undir eru því 30,4 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í árslok 21,7 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum sjóðsins og hreinni eign er með bakábyrgð ríkissjóðs og annarra launagreiðenda.