Tryggingafræðileg staða A-deildar LSR

19.05.2011

Í tilefni af fréttaflutningi af tryggingafræðilegri stöðu A-deildar og erindi Fjármálaeftirlitsins um hækkun iðgjalds launagreiðenda til deildarinnar vill LSR koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Tryggingafræðileg úttekt A-deildar LSR miðað við árslok 2010 sýnir að áfallin skuldbinding var neikvæð um 4,2 milljarða kr. eða -2,5% en var árið á undan neikvæð um 6,9 milljarða kr. eða -4,7%. Heildarstaða sjóðsins, þ.e. miðað við áunnin réttindi og framtíðarréttindi þeirra sem nú greiða í sjóðinn, var neikvæð um 47,4 milljarða kr. eða -12%. Hafði hún batnað milli ára en í árslok 2009 var staðan neikvæð um 51 milljarð kr. eða -13,2%. Í lögum um A-deild LSR segir að jafnvægi skuli vera milli eigna og skuldbindinga. Í lögum um starfsemi lífeyrissjóða eru síðan ákvæði um tiltekið svigrúm sem getur verið þarna á milli á hverjum tíma. Sjóðurinn hefur ávallt litið svo á að 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, gildi um A-deild LSR. Í greininni er kveðið á um að heimilt sé að hafa allt að 10% mun á eignarliðum og lífeyrisskuldbindingum. Samkvæmt bráðbirgðaákvæði við lögin hafa mörkin verið 15% árin 2008, 2009 og 2010. Frá árinu 2000 hefur tryggingafræðileg staða A-deildar verið neikvæð (2000 -0,1%, 2001  -0,9%, 2002 -4,9%, 2003 -2,8%, 2004 -3,5%, 2005 -3,6%, 2006 -0,6%, 2007 -2,4%, 2008 -13,1%, 2009 -13,2%, 2010 -12,0%) en aldrei hefur komið athugasemd frá eftirlitsaðilum fyrr en nú á þessu ári. Upplýsingar um tryggingafræðilega stöðu sjóðsins hafa ávallt legið fyrir og koma m.a. fram í ársskýrslum sem gefnar eru út og birtar eru á heimasíðu sjóðsins. Stjórn sjóðsins hefur talið sig vinna fyllilega innan marka laganna en hefur engu að síður verið sér meðvituð um vanda A-deildar.

Í bréfi sem stjórn LSR hefur fengið frá Fjármálaeftirlitinu er fjallað um nauðsyn á hækkun á iðgjaldi launagreiðenda til sjóðsins. Stjórnin hefur haft málið til skoðunar og mun vinna að lausn þess í góðu samstarfi við Fjármálaeftirlitið en frestur til að taka afstöðu til erindisins er til 1. október n.k.