Lífeyrisskuldbindingar – athugasemd við frétt RÚV

17.05.2010

Í fréttum RÚV í gær, sunnudaginn 16. maí, var fjallað um lífeyrisskuldbindingar sem hvíla á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Rætt var við þingmann sem sagði skuldbindingarnar vera eins og tvöföld Icesave skuldin. Nauðsynlegt er að gera nokkrar athugasemdir við það sem þar kom fram og skýra annað.

Skuldbinding

Áfallnar skuldbindingar sem hvíla á B-deild LSR umfram eignir eru metnar vera 316 milljarðar króna. Hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH) eru áfallnar skuldbindingar umfram eignir 38 milljarðar. Til viðbótar hefur verið reiknað út hversu mikil skuldbinding muni myndast í framtíðinni vegna sjóðfélaga í þessum tveimur sjóðum. Það er mat tryggingafræðinga að framtíðarréttindi umfram iðgjaldatekjur verði 33 milljarðar hjá B-deild LSR og 4 milljarðar hjá LH. Þessir tveir sjóðir mynda eldra réttindakerfi hjá opinberum starfsmönnum. Ekki er um hefðbundna lífeyrissjóði að ræða þar sem hver kynslóð safnar í sjóð fyrir sínum réttindum. Uppbygging B-deildar LSR og LH hefur aldrei verið við það miðuð að sjóðirnir eigi fyrir skuldbindingum. Þvert á móti hefur verið við það miðað að launagreiðendur og þá fyrst og fremst ríkissjóður standi skil á skuldbindingum sínum með því að taka þátt í greiðslu lífeyris til sjóðfélaga.

Uppbygging A-deildar LSR er með öðrum hætti og þar er réttindakerfið byggt á fullri sjóðsöfnun. Hjá þessari deild LSR vantar 7 milljarða upp á að hún eigi fyrir áföllnum skuldbindingum. Að sama skapi hefur verið reiknað út að A-deild vanti til viðbótar 44 milljarða til að eiga fyrir framtíðarskuldbindingum vegna núverandi sjóðfélaga.

Hér er um háar fjárhæðir að ræða sem vissulega er áhyggjuefni. Rækilega hefur verið greint frá skuldbindingunum undanfarin ár í ársreikningum LSR og LH. Það er því óþarfa ónákvæmni hjá þingmanninum þegar hann segir ógreiddar skuldbindingar B-deildar LSR vera 430 milljarða. Þar munar tæpum 100 milljörðum.

 

Hvers konar skuld er um að ræða?

Þegar rætt er um skuldbindingar ríkisins vegna B-deildar LSR má  ekki gleyma því að þá er einnig verið að tala um réttindi þess fólks sem starfað hefur í opinberri þjónustu á undanförnum áratugum. Lífeyrisrétturinn hefur verið órjúfanlegur hluti af heildarkjörum þeirra og launin hafa oft á tíðum verið lægri en ella vegna góðra lífeyrisréttinda. Skuldbindingar eða skuld ríkisins eru því áunnin réttindi tugþúsunda einstaklinga og þær eiga að koma til greiðslu á næstu áratugum. Að bera þetta saman við Icesave skuldina er vart sæmandi.

 

Samhengi hlutanna

Þá er nauðsynlegt að horfa á samhengi hlutanna. Rúmlega þriðjungur af öllum lífeyrisgreiðslum, sem á undanförnum árum hafa verið greiddar úr íslenskum lífeyrissjóðum, hefur komið frá LSR. Vegna samspils greiðslna úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun ríkisins hafa þessar greiðslur sparað verulegar fjárhæðir í almannatryggingarkerfinu og munu gera það í framtíðinni. Þá á ríkissjóður eftir að fá skatttekjur af lífeyrisgreiðslunum. Rétt er að hafa þetta í huga þegar talað er um skuld ríkissjóðs vegna skuldbindinga lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. Áhrif á ríkissjóð eru í öllu falli verulega minni en reiknuð skuldbinding segir til um.

 

Skattgreiðslur hækkaðar

Í fréttinni og í viðtali við þingmanninn var gefið í skyn að á sama tíma og réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum á almennum markaði hafi verið skert hafi skattar verið hækkaðir til að standa undir skuldbindingum vegna opinberra starfsmanna. Sjóðfélagar sem hafi þurft að þola skerðingu á lífeyrisréttindum sínum þurfi auk þess að borga hærri skatta til að standa undir réttindum opinberra starfsmanna. Þarna verður aftur að horfa á samhengi hlutanna.

Í kjölfar fjármálahrunsins hafa margir sjóðir þurft að skerða lífeyrisréttindi. Skattar hafa hins vegar ekki verið hækkaðir til að standa undir lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Ríkið hefur ekki aukið greiðslur til LSR og LH í kjölfar hrunsins. Þvert á móti hefur ríkið verulega dregið úr greiðslum inn á skuldbindingar við þær aðstæður sem við er að eiga.

Sú framsetning sem viðhöfð var í fréttinni, að sjóðfélagar í öðrum sjóðum þurfi með sköttum sínum að greiða fyrir lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, er varla sanngjörn gagnvart þeim opinberu starfsmönnum sem hlut eiga að máli. Því hefur ekki verið mótmælt að lífeyrisréttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna eru hluti af heildarkjörum þeirra. Þetta er fólkið sem unnið hefur á sjúkrahúsum, í skólunum, á skattstofunum í Tryggingastofnun o.s.frv. Við greiðum öll fyrir þessa þjónustu með sköttum. Það á líka við um þá sem nú taka lífeyri, hvort sem það er úr lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna eða lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði.

 

Skerðing réttinda

Í fréttinni var minnst á það atriði, sem talsvert hefur verið í umræðunni að undanförnu, að margir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði hafi þurft að skerða réttindi sjóðfélaga að undanförnu en engar skerðingar væru á dagskrá hjá LSR. Rétt er að benda á nokkur atriði vegna þessa.

 

·         A-deild LSR

A-deildin tók til starfa 1997 og þangað greiða allir nýir sjóðfélagar. 80% starfandi sjóðfélaga eru nú í A-deildinni þar sem réttindakerfið er að nokkru leyti samanburðarhæft við réttindakerfi á almenna markaðnum. Iðgjald launagreiðenda er þó hærra til A-deildar LSR og réttindi hærri sem því nemur. En í báðum tilvikum hækka greiðslur í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Margir af þeim sjóðum, sem nú eru að skerða réttindi, juku þau umtalsvert umfram verðlagsbreytingar á árunum 2007 og fyrr vegna góðrar afkomu. Með skerðingu réttinda nú eru þessir sjóðir því í raun að taka til baka að hluta eða fullu þá réttindaaukningu sem var hjá þeim í góðærinu.

Hjá LSR eru réttindi lögbundin og óháð afkomu sjóðsins. Þau voru því ekki aukin umfram verðlagsbreytingar á góðæristímanum og þau verða ekki skert án lagabreytingar nú þegar verr árar.

 

·         B-deild LSR

Hjá B-deild LSR taka réttindi sjóðfélaga sömu breytingum og verða á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna. Á árunum frá 1998 og nokkur ár fram yfir aldamótin hækkuðu greiðslur úr B-deild LSR talsvert meira en greiðslur úr almennu lífeyrissjóðunum. Á þessum árum var samið um breytta samsetningu launa opinberra starfsmanna og hlutur dagvinnulauna í heildarlaunum aukinn. Þetta leiddi til hækkunar á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga í eldra réttindakerfi, þ.e. B-deildinni. Frá sjónarhóli margra sjóðfélaga var þarna um löngu tímabæra leiðréttingu að ræða. Samsetning launa hjá ríkinu hafi verið óeðlileg, mikið hafi verið um yfirvinnugreiðslur, m.a. vegna svokallaðrar “óunninnar yfirvinnu”. Launahækkanir hafi að verulegu leyti verið í formi slíkra greiðslna. Lífeyrisgreiðslur fylgdu hins vegar dagvinnulaunatöxtum sem höfðu tekið minni breytingum.

Á síðustu árum hafa hlutirnir snúist við. Síðustu tvö ár hefur verið lítið um launahækkanir og þar með litlar hækkanir orðið á lífeyrisgreiðslum úr B-deild. Í fyrra hækkuðu lífeyrisgreiðslur úr B-deild LSR einungis að meðaltali um 1,6%, meðan neysluverðsvísitalan og þar með greiðslur úr almennu sjóðunum hækkaði um 8,6%. Ef horft er til síðustu tveggja ára þá hækkuðu lífeyrisgreiðslur úr B-deild um 14,4% meðan neysluverðsvísitalan hækkaði um 26,4%. Samanburðurinn er einnig óhagstæður sjóðfélögum í B-deild þegar horft er þrjú, fjögur eða fimm ár aftur í tímann. Sama þróun hefur haldið áfram á þessu ári. Lífeyrisgreiðslur standa í stað þó svo vísitala neysluverðs hækki. Það má því halda því fram með nokkrum rökum að sjóðfélagar í B-deild hafi tekið út sína skerðingu og það meiri en hjá sumum öðrum lífeyrissjóðum.

 

Áframhaldandi greiðslur í B-deild

Í fréttinni var sérstaklega rætt um það að enn væru sjóðfélagar í B-deild LSR að greiða til deildarinnar og ávinna sér þar réttindi með tilheyrandi uppsöfnun skuldbindinga. Þetta er rétt ábending en breyting á þessu ekki auðvelt viðfangsefni. Hafa ber í huga eðli réttindanna og stöðu sjóðfélaganna. Það kann að vera flókið lögfræðilegt úrlausnarefni ef breyta á samningsbundnum og lögbundnum réttindum. Auk þess er rétt að hafa í huga að vandamálið eða viðfangsefnið er fyrst og fremst þau réttindi sem þegar eru áfallin. Þau réttindi sem sjóðfélagar eiga eftir að bæta við sig í framtíðinni eru einungis tíundi hluti þess sem þegar er áunnið.

 

Aðgerða er þörf

Í fréttinni er haft eftir þingmanninum að tími sé kominn til að taka á vandanum. Undir það er rétt að taka. Þegar tekin var ákvörðun um það á árinu 1996 að loka gamla réttindakerfinu, sem nú er B-deild LSR, fyrir nýjum sjóðfélögum, þá stóð ríkissjóður frammi fyrir erfiðu viðfangsefni: Það átti eftir að fjármagna gamla réttindakerfið að stórum hluta til. Á sama tíma var stofnað nýtt réttindakerfi (A-deild) sem var að fullu fjármagnað með iðgjöldum. Ríkissjóður þurfti og þarf því að fjármagna tvö kerfi samtímis. Engu að síður var talið skynsamlegt að loka gamla kerfinu fyrir nýjum sjóðfélögum frekar en að halda áfram með óbreytt kerfi með þeirri uppsöfnun skuldbindinga sem það hefði í för með sér.

Í framhaldi af lokun gamla kerfisins ákváðu forráðamenn ríkissjóðs að hefja greiðslur inn á skuldbindingar umfram lagaskyldu. Það var talið skynsamlegra fremur en að láta B-deildina tæmast með tilheyrandi skelli fyrir ríkissjóð vegna bakábyrgðar á sjóðnum. Þannig hefði mátt jafna greiðslum ríkisins til langs tíma. Nú hafa forsendur breyst og staða ríkissjóðs þannig að hlé hefur verið gert á þessu greiðslum. Það er því nauðsynlegt endurmeta stöðuna og taka nýja stefnu.