Fjölmennur fundur með sjóðfélögum á lífeyri

13.05.2010

Árlegur kynningar- og samráðsfundur með sjóðfélögum á lífeyri var haldinn miðvikudaginn 12. maí. U.þ.b. 350 sjóðfélagar mættu á fundinn. Á fundinum var m.a. fjallað um afkomu sjóðsins á síðasta ári. Greint var frá því að samanlagðar eignir LSR og LH hafi um síðustu áramót verið 350 milljarðar króna og að eignirnar séu nú orðnar heldur hærri í krónutölu en þær voru hæstar fyrir hrun íslenska fjármálakerfisins. Greint var frá ávöxtun á síðasta ári en nafnávöxtun var 11,9%, sem svarar til 2,9% hreinnar raunávöxtunar. Þetta er nokkru hærri ávöxtun en var að meðaltali hjá öðrum lífeyrissjóðum á árinu. Nokkur umræða var á fundinum um umfjöllun sem hefur verið hávær að undanförnu um samanburður á réttindum sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna annars vegar og réttindum sjóðfélaga í lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði hins vegar. Margir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði hafi þurft að skerða réttindi sjóðfélaga að undanförnu. Spurt hafi verið hvaða sanngirni sé í því að á meðan svo er þá hafi sjóðfélagar í LSR og LH allt sitt á þurru og þurfi ekki að sæta sambærilegri skerðingu. Af þessu tilefni var rætt um samanburð á breytingum á lífeyrisgreiðslum á síðustu árum. Sölvi Eysteinsson lífeyrisþegi kvaddi sér hljóðs og bar fram fyrirspurn. Maríanna Jónasdóttir formaður stjórnar LSR og fundarstjóri ásamt Hauki Hafsteinssyni framkvæmdastjóra tóku niður og svöruðu fyrirspurnum. LSR er skipt í tvær deildir, A-deild og B-deild. A-deildin er ný deild sem tók til starfa 1997 og þangað greiða allir nýir sjóðfélagar. 80% starfandi sjóðfélaga eru nú í A-deildinni. Réttindakerfi A-deildar er að nokkru leyti samanburðarhæft við réttindakerfi á almenna markaðnum. Iðgjald launagreiðenda er þó hærra til A-deildar LSR og réttindi hærri sem því nemur. En í báðum tilvikum hækka greiðslur í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Margir af þeim sjóðum sem nú eru að skerða réttindi juku þau umtalsvert umfram verðlagsbreytingar á árunum 2007 og fyrr vegna góðrar afkomu. Með skerðingu réttinda nú eru þessir sjóðir því í raun að taka til baka að hluta eða fullu þá réttindaaukningu sem var hjá þeim í góðærinu. Hjá LSR eru réttindi lögbundin og óháð afkomu sjóðsins. Þau voru því ekki aukin umfram verðlagsbreytingar á góðæristímanum og þau verða ekki skert án lagabreytingar nú þegar verr árar. Hjá B-deild LSR taka réttindi sjóðfélaga sömu breytingum og verða á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna. Á árunum frá 1998 og nokkur ár fram yfir aldamótin hækkuðu greiðslur úr B-deild LSR talsvert meira en greiðslur úr almennu lífeyrissjóðunum. Á þessum árum var samið um breytta samsetningu launa opinberra starfsmanna og hlutur dagvinnulauna í heildarlaunum aukinn. Þetta leiddi til hækkunar á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga í eldra réttindakerfi, þ.e. B-deildinni. Á síðustu árum hafa hlutirnir snúist við. Síðustu tvö ár hefur verið lítið um launahækkanir og þar með litlar hækkanir orðið á lífeyrisgreiðslum úr B-deild. Í fyrra hækkuðu lífeyrisgreiðslur úr B-deild LSR einungis að meðaltali um 1,6%, meðan neysluverðsvísitalan og þar með greiðslur úr almennu sjóðunum hækkaði um 8,6%. Ef horft er til síðustu tveggja ára þá hækkuðu lífeyrisgreiðslur úr B-deild um 14,4% meðan neysluverðsvísitalan hækkaði um 26,4%. Samanburðurinn er einnig óhagstæður sjóðfélögum í B-deild þegar horft er þrjú, fjögur eða fimm ár aftur í tímann. Það kom fram í máli sjóðfélaga að nauðsynlegt væri að halda þessum upplýsingum til haga vegna umfjöllunar um samanburð á stöðu sjóðfélaga í mismunandi lífeyrissjóðum. Góður rómur var gerður að ræðu gestafyrirlesarans, séra Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests sem gerði samspil réttlætis, iðrunar og fyrirgefningar til framtíðar að umtalsefni. Þá gerði Sigríður Thorlacius stormandi lukku með söng sínum við undirleik Daníels Friðriks Böðvarssonar Heiðurspilts á lögum eftir Jón Múla við texta Jónasar Árnasonar. Ágústa H. Gísladóttir nýr forstöðumaður réttindamála hjá LSR kynnti þá breytingu sem verður frá og með næstu mánaðamótum en þá verður útsendingu greiðsluseðla fyrir lífeyri hætt og þeir framvegis birtir í heimabanka svo og á vefsvæði sjóðsins sem sjóðfélagar hafa aðgang að með lykilorði. Séra Hjálmar stóðst ekki mátið þegar hann sté í ræðustól á eftir Ágústu og kastaði fram þessari vísu: Hjá Ágústu ávaxtast gróðinn. Allt er það þakkað og metið. “Hafið þið samband við sjóðinn. Síminn er opinn og netið.”