Lífeyrissjóðir draga lærdóm af hruninu

08.04.2010

Nefnd, sem Landssamtök lífeyrissjóða skipuðu í maí 2009 til að fjalla um hvað „lífeyrissjóðir gætu lært af þeim fjárhagslegu áföllum sem dunið hafa yfir íslenskt þjóðfélag, allt frá hruni viðskiptabankanna þriggja í byrjun október 2008“, leggur til breytingar á viðskiptaháttum á verðbréfamarkaði, regluverki og starfsumhverfi lífeyrissjóða. Nefndin kynnti skýrslu sína, Lærdóm lífeyrissjóða af hruninu 2008-2009, fyrir 80-90 fulltrúum lífeyrissjóða á fundi á Grand hóteli í Reykjavík í dag.

Nefndin telur að lífeyrissjóðir eigi að gera strangari kröfur til útgefenda verðbréfa, miðlara, kauphallar og eignastýringaraðila og gæta hagsmuna sinna með virkari og fjölbreyttari hætti hér eftir en hingað til, með því meðal annars að

•        herða ákvæði skilmála verðbréfa og fjármálagerninga til að verja rétt og stöðu lífeyrissjóða þegar kaup eiga sér stað.

•        knýja á um tafarlausa skráningu verðbréfa og aukna upplýsingamiðlun í kauphöll um útgefendur, umfang viðskipta og eðli þeirra.

•        stuðla að bættum stjórnarháttum í fyrirtækjum og að standa vörð um hagsmuni smárra hluthafa.

Í skýrslunni segir m.a. í kaflanum um hlutabréf bls. 5:

„Svo er að sjá að verðmyndun hlutabréfa margra hlutafélaga hafi verið stýrt af stærstu þátttakendum með ótæpilegri notkun lánsfjár og eignarhaldsfélaga í höndum tengdra eða hliðhollra aðila. Upplýsingagjöf um eignarhald og um fjármögnun stórra hluthafa var mjög ábótavant og því var þátttakendum á borð við lífeyrissjóði ókleift að átta sig á umfangi þessara eignatengsla eða hættunni á keðjuverkandi hruni.“

Nefndin leggur til að við hverja skuldabréfaútgáfu verði skipaður fulltrúi kröfuhafa að erlendri fyrirmynd (bondholder agent) til að gæta hagsmuna þeirra og að í hlutafélagaskrá liggi alltaf ljóst fyrir hverjir séu stærstu hluthafar í félögum og hvernig þeir kunni að tengjast, ef samanlögð eign þessara hluthafa fer yfir 5%.

Enn má nefna að nefndin mælist til þess að lífeyrissjóðirnir láti meira til sín taka í umræðu og gagnrýni, opinberlega og á aðalfundum og hluthafafundum.

Lagt er til að lífeyrissjóðir auki samstarf og sameiginlegt frumkvæði á vettvangi Landssamtaka lífeyrissjóða til að knýja á um úrbætur á öðrum sviðum fjármagnsmarkaðar og efnahagslífs og birta Alþingi, ráðuneytum, eftirlitsstofnunum og kauphöll tillögur sínar um úrbætur, sem meðal annars byggjast á árangursríkum viðskiptavenjum erlendis.

„Lærdómsnefndina“ skipuðu Stefán Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, formaður, Baldur Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði  starfsmanna ríkisins, Helga Indriðadóttir, sjóðstjóri hjá Almenna lífeyrissjóðnum, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs og Tryggvi Tryggvason, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði. Með þeim starfaði Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.