Kröfur lífeyrissjóða

19.11.2009

Kröfur lífeyrissjóða í bú Landsbanka Íslands eru háar og eru tilkomnar af margra ára viðskiptum við bankann. Kröfur LSR og LH byggja á fjölbreyttum kröfugrunni. Hluti krafna byggir á afleiðusamningum sem gerðir voru til að verja erlent hlutabréfasafn sjóðanna fyrir áhættu af sveiflum gjaldmiðla en bankinn og lífeyrissjóðirnir hafa átt í viðræðum um gildi þeirra og uppgjör og munu niðurstöður þeirra viðræðna hafa töluverð áhrif á endanlegar kröfufjárhæðir. Þá er hluti krafna sjóðanna á hendur bankanum tilkominn vegna kaupa sjóðanna á skuldabréfum útgefnum af Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem Landsbanki Íslands hafði tekið yfir, en þær kröfur munu hafa sérstöðu í búi bankans og vænta sjóðirnir þess að fá þær kröfur greiddar að fullu.

Loks gerðu sjóðirnir sértækar kröfur vegna erlendra verðbréfa sem hafa verið í vörslu bankans í tengslum við afmörkuð viðskipti og nema þær kröfur töluverðri fjárhæð. Þannig telja kröfur vegna skuldabréfa Stofnlánadeildar landbúnaðarins, kröfur vegna gjaldmiðlavarnasamninga og sértækar kröfur um þremur fjórðu af kröfum LSR og LH á bú Landsbanka Íslands. Beinar kröfur vegna skuldabréfa útgefnum af Landsbanka Íslands nema hins vegar fjórðungi krafna LSR og LH.

Það er ljóst að vegna hárra forgangskrafna og innlánakrafna fæst lítið upp í almennar kröfur og víkjandi kröfur á hendur Landsbanka Íslands, nema t.d. við skuldajöfnun. Niðurstöður í viðræðum aðila um uppgjör gjaldmiðlavarna og skuldajöfnunarmál munu þannig ráða miklu í endanlegu uppgjöri milli sjóðanna og bankans.