Aðkoma lífeyrissjóða að endurreisn atvinnulífsins

19.11.2009

Umfjöllun um aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun margvíslegra verkefna hefur verið fyrirferðarmikil að undanförnu. M.a. hefur verið rætt um byggingu nýs sjúkrahúss, vegaframkvæmdir, virkjunarframkvæmdir og aðra þætti á sviði orkumála, stofnun fjárfestingarsjóðs til endurreisnar atvinnulífinu o.fl.

 

Í ljósi fjárhagslegs styrkleika lífeyrissjóðanna er þessi umræða eðlileg. Lífeyrissjóðirnir urðu vissulega fyrir þungu höggi við falla bankanna og það hefur áhrif á stöðu þeirra og fjárhagslegan styrk. Þeir hafa hins vegar fulla burði til að koma að fjármögnun verkefna og núverandi aðstæður fela í sér ýmis tækifæri fyrir sjóðina. Umræðan í fjölmiðlum hefur hins vegar verið óábyrg á ýmsan hátt, að sumu leyti villandi og oft á tíðum fyrirferðarmeiri en á vettvangi sjóðanna sjálfra.

Eðlilegra er að stjórnir lífeyrissjóða taki afstöðu til fjárfestingarkosta eftir því sem þeir falla til. Að því er stjórn LSR varðar þá mun hún, eftir því sem tilefni gefast, meta einstaka kosti með hag lífeyrissjóðsins að leiðarljósi. Horfa þarf til fjölmargra þátta s.s. fjárhagslegrar arðsemi, trygginga fyrir endurgreiðslu, þátttöku annarra fjárfesta o.fl. Engar ákvarðanir hafa verið teknar, en í kjölfar slíkrar athugunar mun stjórn LSR taka sjálfstæðar ákvarðanir um þátttöku í fjármögnun einstakra verkefna .