Aðkoma LSR að skráðum félögum í fjárhagsvanda

24.09.2009

Frá falli viðskiptabankanna þriggja í október á síðasta ári hafa mörg íslensk fyrirtæki lent í verulegum fjárhagslegum vandræðum. Sum þessara fyrirtækja höfðu gefið út markaðsskuldabréf sem LSR og aðrir fjárfestar höfðu keypt. Mörg þeirra hafa nú þurft að leita vars undir reglum gjaldþrotalaga og stjórnendur þeirra óskað eftir greiðslustöðvun, nauðasamningi, gjaldþrotaskiptum eða leitað samninga beint við kröfuhafa. Þetta hefur ýmist verið gert að frumkvæði stjórnenda fyrirtækjanna eða kröfuhafa. Í aðkomu að slíkum málum hefur LSR lagt megináherslu á endurheimt krafna, en einnig hefur sjóðurinn lagt þunga áherslu á upplýsingagjöf til kröfuhafa og að bæði félög og kröfuhafar fylgi þeim lagareglum og sjónarmiðum um góða stjórnunarhætti sem gilda við aðstæður sem þessar.
Þannig hefur LSR meðal annars óskað eftir að í hverju félagi verði gildi gerninga síðustu mánaða eða missera metið, hvort sem leitað hefur verið gjaldþrotaskipta eða ekki. Þá verður að hafa í huga að aðkoma kröfuhafa er í mörgum tilvikum ærið misjöfn og óvissa oft mikil, ekki síst þegar í hlut eiga stór og flókin fyrirtæki. Það, að um er að ræða félög með skráð skuldabréf og hlutabréf í dreifðu eignarhaldi, gerir það enn mikilvægara en ella að stjórnendur og kröfuhafar gæti vel að góðum viðskiptaháttum.

Síðustu vikur hafa fjölmiðlar rætt nokkuð um fjárhagslega stöðu Exista. Forsvarsmenn LSR hafa í góðu samstarfi við aðra kröfuhafa, innlenda og erlenda, verið að skoða málefni félagsins. Í þeirri vinnu hefur LSR fylgt þeim markmiðum sem að framan er lýst um endurheimt krafna og réttmætt mat á stöðu félagsins og kröfuhafa þess. Þessari vinnu er ekki lokið og af hálfu LSR og annarra lífeyrissjóða sem að málinu hafa komið, hefur ekki verið lokað á neinar leiðir. Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum eru skuldir Existu verulegar en á móti eru verðmætar og mikilvægar eignir, en þær eru helstar Skipti, VÍS, Lífís og Lýsing. Þá er margt óljóst um stöðu félagsins vegna óuppgerðra samninga þess og annarra flókinna tengsla þess við gömlu bankana.

Það mat liggur fyrir að líklegasta leiðin til að skila kröfuhöfum mestum árangri sé að leita leiða til að halda starfrækslu félagsins áfram og bíða betri tíma til að hámarka verðmæti eigna. Af þessu leiðir að ýmsir kröfuhafar og ráðgjafar sem að málinu hafa komið telja rétt að skoða stöðu félagsins til hlítar og hvort ekki séu meiri möguleikar á endurheimt krafna með áframhaldandi starfrækslu þess þó svo að það verði mögulega með mjög breyttu sniði.

Hjá Exista, og reyndar fleiri sambærilegum félögum, hafa innlendir og erlendir kröfuhafar m.a. skoðað leiðir sem gefa svigrúm til að endurskipuleggja reksturinn og jafnframt tíma og möguleika til að meta gildi ýmissa gerninga félagsins með tilliti til riftanleika og einnig gildi krafna á hendur því. Liður í þessu ferli væri aukin og skýr aðkoma kröfuhafa að nauðsynlegu umbreytingarferli. Allir aðilar hafa verið sammála um að skera þurfi verulega niður rekstrarkostnað og gera margs konar breytingar á starfsemi félagsins. Að lokinni endurskipulagningu og aukinni aðkomu kröfuhafa að félaginu yrði kosin ný stjórn sem ræki félagið áfram með það eitt að markmiði að hámarka endurgreiðslur lána.

Loks ber að geta að fara verður að reglum um trúnaðarskyldu og upplýsingagjöf og því er það hlutverk stjórna félaganna en ekki kröfuhafa að veita upplýsingar um málefni einstakra félaga.