Villandi fréttaflutningur

30.03.2009

Fréttaflutningur Stöðvar 2 föstudaginn 27. mars s.l. um skuldbindingar vegna B-deildar LSR (Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins) var á margan hátt furðulegur. Í viðtalið við þingmann voru lífeyrisskuldbindingar sjóðsins bornar saman við Icesave skuldina. Þetta var svo sett í samhengi við tap af fjárfestingum á síðasta ári.  Nauðsynlegt er að gera nokkrar athugasemdir við þennan fréttaflutning.

LSR skiptist í A- og B-deild. A-deild sjóðsins var stofnsett 1997 og er gert ráð fyrir að hún sé fjármögnuð með iðgjöldum og ávöxtun þeirra. Þangað greiða allir nýir sjóðfélagar og nú greiða tæplega 80% allra sjóðfélaga í þá deild sjóðsins. B-deild er gamla réttindakerfið sem var lokað fyrir nýjum sjóðfélögum við stofnun A-deildar. Gamla réttindakerfið er ólíkt öðrum íslenskum lífeyrissjóðum. Það byggir að hluta til á sjóðsöfnun og að hluta til er það gegnumstreymiskerfi. Í stað þess að lífeyrisréttindi séu að fullu fjármögnuð með iðgjöldum og ávöxtun þeirra, er gert ráð fyrir að launagreiðendur standi að verulegum hluta undir lífeyrisgreiðslum þegar þær falla til.

Það er rétt sem fram kom í frétt Stöðvar 2 að verulegur munur er á eignum og skuldbindingum B-deildar LSR. Það er vissulega áhyggjuefni en það er eðlilegt. Það hefur aldrei verið við það miðað að þetta eldra réttindakerfi hjá opinberum starfsmönnum eigi eignir til að mæta öllum skuldbindingum. Þannig virka gegnumstreymiskerfi ekki. Lífeyrissjóðir starfsmanna á almennum vinnumarkaði hafa verið byggðir upp á fullri sjóðsöfnun og hefur það reynst farsæl ákvörðun. Frá 1997 hefur einnig verið byggt á sjóðsöfnun hjá LSR. Við erum hins vegar áfram með gamla réttindakerfið og það mun taka marga áratugi að loka því.

Útreikningur skuldbindinga
Þegar skuldbindingar lífeyrissjóðs eru metnar þá er reiknað í eina stærð hvað sjóðurinn þarf að eiga til að mæta öllum skuldbindingum í framtíðinni. Í tilfelli B-deildar LSR þá munu þessar skuldbindingar falla til á næstu 50 árum eða svo. Skuldbindingarnar eru vissulegar miklar og eins og fyrr segir er full ástæða til að hafa áhyggjur af því. En að bera þær saman við Icesave skuldina er fráleit framsetning.

Gegnumstreymiskerfi, eins og verið hefur við lýði hjá B-deild LSR, eru vel þekkt . Hjá mörgum þjóðum hafa lífeyrissjóðir verið byggðir upp með þeim hætti, m.a. í Mið- og Suður-Evrópu. Kerfi almannatrygginga á Íslandi er annað dæmi um gegnumstreymiskerfi.   Væru skuldbindingar ríkisins vegna þess til næstu 50 ára reiknaðar er ég hræddur um að út kæmi verulega háa fjárhæð, í hvaða samanburði sem er.

Áunnin réttindi
Þegar rætt er um skuldbindingar ríkisins vegna B-deildar LSR má  ekki gleyma því að þá er einnig verið að tala um réttindi þess fólks sem starfað hefur í opinberri þjónustu á undanförnum áratugum. Lífeyrisrétturinn hefur verið órjúfanlegur hluti af heildarkjörum þeirra og launin hafa oft á tíðum verið lægri en ella vegna góðra lífeyrisréttinda. Þá er nauðsynlegt að horfa á samhengi hlutanna. Rúmlega þriðjungur af öllum lífeyrisgreiðslum, sem á undanförnum árum hafa verið greiddar úr íslenskum lífeyrissjóðum, hefur komið frá LSR. Vegna samspils greiðslna úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun ríkisins hafa þessar greiðslur sparað verulegar fjárhæðir í almannatryggingakerfinu og munu einnig gera það á komandi árum.

Lífeyrisréttindi sjóðfélaga í LSR eru lögbundin og þau breytast ekki nema Alþingi breyti lögum um þau. Því hefur verið haldið fram í umræðu að undanförnu og m.a. í tilvitnaðri frétt, að það sé ósanngjarnt ef skerða þarf réttindi á almennum markaði, að réttindi hjá LSR verði óbreytt. Það hefur þá verið sett í það samhengi að sjóðfélagar almennu lífeyrissjóðanna, sem í sumum tilvikum þurfa að sæta skerðingu í sínum sjóði, þurfi jafnframt að greiða fyrir tap hjá LSR. Vegna þessa er aftur nauðsynlegt að útskýra uppbyggingu B-deildar LSR.

Lífeyrisréttindi hjá LSR breytast ekki eftir ástandi á fjármálamörkuðum og ávöxtun sjóðsins, hvorki til hækkunar þegar vel gengur, né til lækkunar þegar illa árar. Lífeyrisgreiðslur í B-deild LSR breytast í samræmi við breytingar á launum opinberra starfsmanna en lífeyrisréttindi hjá sjóðum á almennum markaði breytast eftir vísitölu neysluverðs. Á síðasta ári hækkuðu lífeyrisgreiðslur sem taka breytingum eftir vísitölu neysluverðs t.d. 18,1% en lífeyrisgreiðslur hjá B-deild LSR hækkuðu um  12,6%.

Þegar tap verður á fjárfestingum þá eykst vissulega hallinn á B-deild LSR. Það er hins vegar misskilningur að þetta hafi þau áhrif að ríkissjóður, og þar með skattgreiðendur, þurfi greiða hærri fjárhæð til sjóðsins á þessu ári eða því næsta. Svo er ekki. Þetta hefur hins vegar þau áhrif að framtíðarskuldbinding ríkissjóðs við LSR eykst og eins og fyrr segir kemur sú skuldbinding til greiðslu á næstu 50 árum eða svo. Á þeim tíma eigum við vonandi eftir að sjá betra ástand á fjármálamörkuðum og væntanlega geta þeir lífeyrissjóðir, sem nú þurfa að skerða réttindi, aukið þau aftur.

Ávöxtun
Nú má enginn skilja mig svo að fyrst lífeyrisgreiðslur hjá B-deild LSR taka ekki breytingum eftir ávöxtun sjóðsins þá skipti hún minna máli en ella. Mikilvægt er að sem best takist til við ávöxtun eigna svo sjóðurinn geti staðið undir stærri hluta skuldbindinga í framtíðinni. Á undanförnum árum hefur ávöxtun verið góð en síðasta ár var sjóðnum hins vegar erfitt eins og öðrum lífeyrissjóðum. Það á ekki bara við um íslenska lífeyrissjóði. Um allan hinn vestræna heim áttu lífeyrissjóðir í erfiðleikum vegna fjármálakreppu sem er einhver sú versta í heila öld. Þurftu þeir þó ekki að glíma við að fjármálakerfi heillar þjóðar hafi fallið á nokkrum dögum og gjaldmiðillinn hrunið. Sem dæmi má nefna að eignir norska olíusjóðsins lækkuðu um tæplega fjórðung, ávöxtun Calpers, sem er stærsti lífeyrissjóðurinn í Bandaríkjunum, var neikvæð um 27%, meðalávöxtun lífeyrissjóða í Belgíu var neikvæð um 25% og meðalávöxtun lífeyrissjóða almennt innan OECD ríkjanna var neikvæð fyrstu 10 mánuði ársins um 19%. Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að illa ári hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Við megum hins vegar ekki gleyma því að við Íslendingar eigum eftir sem áður sterkt lífeyriskerfi sem hefur alla burði til að standast það andstreymi sem við förum nú í gegnum.

Haukur Hafsteinsson
Framkvæmdastjóri LSR