Yfirlýsing í tilefni umfjöllunar Morgunblaðsins

31.03.2009

Vegna fréttar í Morgunblaðinu sunnudaginn 29. mars s.l. er nauðsynlegt að taka eftirfarandi fram:

Í fréttinni er fjallað um hvers konar boð starfsmenn lífeyrissjóða hafi þegið frá fjármálafyrirtækjum. Af þessu tilefni er rétt að það komi fram að starfsmenn LSR hafa ekki þegið boð í laxveiði, hvorki innan lands né utan. Þeir fóru ekki á fótboltaleik í Aþenu sem fjallað er um í blaðagreininni. Þeir hafa ekki þegið boð á Formúlu 1 kappaksturskeppni. Þeir kannast ekki við að bandaríski bankinn Morgan Stanley hafi boðið þeim reglulega til New York. Þá hafa þeir ekki heldur þegið boð í skíðaferðir eða siglingar sem einnig eru tilgreindar í umfjöllun Morgunblaðsins.
Hjá LSR hafa verið settar reglur fyrir starfsmenn sjóðsins og stjórnarmenn um samskipti við viðskiptaaðila, viðtöku gjafa, boð o.fl. Í reglunum er kveðið á um að starfsmenn LSR og stjórnarmenn sjóðsins skulu leitast við að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og að boð af einhverju tagi hafi áhrif á ákvarðanatöku þeirra.

LSR er stór lífeyrissjóður með nálægt 300 milljarða króna eignir til ávöxtunar. U.þ.b. þriðjungur eigna hefur verið í erlendum verðbréfum. Á undanförnum árum var það einnig svo að stór hluti af starfsemi íslenskra fyrirtækja fór fram erlendis. Umsýsla og ávöxtun eigna sjóðsins hefur því kallað á nokkur ferðalög. Meginreglan er að slík ferðalög eru greidd af lífeyrissjóðnum. Á umliðnum árum juku íslensk fyrirtæki mjög við starfsemi sína á erlendri grundu og efndu þau stundum til ferða til að kynna þá starfsemi. Lagt var mat á það í hverju tilfelli hvort LSR hefði hagsmuni af því að sækja slíkar kynningar. Yfirleitt voru slíkar ferðir skipulagðar fyrir hóp manna og í mörgum tilvikum tóku fulltrúar frá lífeyrissjóðum, öðrum markaðsaðilum, greiningaraðilum og fjölmiðlum þátt í ferðunum og sóttu viðeigandi kynningar og fundi. Hver ferð tók að jafnaði tvo til þrjá daga. Að gefnu tilefni er hins vegar rétt að gera greinarmun á ferðum sem kallaðar hafa verið boðsferðir og vinnuferðum sem þessum.

Stjórnarmenn LSR hafa ekki farið í ferðir á vegum LSR sem greiddar hafa verið af öðrum aðila en lífeyrissjóðnum.

Haukur Hafsteinsson
Framkvæmdastjóri LSR