Kröfur LSR og LH til verðbréfaútgefenda

15.02.2007

Stjórnir LSR og LH hafa á sameiginlegum fundi samþykkt yfirlýsingu um kröfur sjóðanna til verðbréfaútgefenda um virðingu við samfélagsleg gildi, umhverfi og góða stjórnunarhætti. Samhliða samþykkt yfirlýsingarinnar hefur LSR undirritað reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investments).

Yfirlýsing lífeyrissjóðanna er svohljóðandi:

     LSR og LH krefjast góðrar ávöxtunar af öllum fjárfestingum sínum.
     Lífeyrissjóðirnir gera kröfu til þess að útgefendur verðbréfa sem þeir fjárfesta í sýni ábyrgð gagnvart samfélagslegum gildum og umhverfinu og beiti góðum stjórnunarháttum, hluthöfum og öðrum til hagsbóta.
     Við mat á starfsháttum verðbréfaútgefenda horfa sjóðirnir til aðstæðna á markaði, laga og almennt viðurkenndra reglna og gilda.
    
LSR og LH fylgja kröfum sínum eftir með samskiptum og samvinnu við útgefendur verðbréfa.


Með því að rita undir reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar lýsa lífeyrissjóðirnir því yfir að þeir muni taka tillit til umhverfislegra málefna, samfélagslegra gilda og stjórnarhátta fyrirtækja við mat fjárfestinga. Reglur Sameinuðu þjóðanna voru settar saman af hópi alþjóðlegra fagfjárfesta að tilstuðlan aðalritara Sameinuðu þjóðanna og kynntar til undirritunar vorið 2006. Tilgangurinn með setningu reglnanna er að samræma betur en áður hagsmuni fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi.