Árlegur fundur LSR og LH með lífeyrisþegum

08.05.2006

Árlegur fundur LSR og LH með lífeyrisþegum var haldinn í gær á Hótel Nordica. Að venju var fjölmennt og góðmennt.

Haukur Hafsteinsson framkvæmdastjóri gerði í stuttu máli grein fyrir rekstri sjóðanna sl. ár og Páll Ólafsson deildarstjóri fjallaði um framkvæmd eftirmannsreglu og hvaða breytinga er að vænta á lífeyrisgreiðslum vegna nýgerðra kjarasamninga. Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir flutti fróðlegt og skemmtilegt erindi um líkamsrækt á efri árum. Tvöfaldur kvartett úr Schola Cantorum söng nokkur íslensk lög við góðar undirtektir. Í fundarlok voru fyrirspurnir og Maríanna Jónasdóttir formaður stjórnar LSR, sem  stýrði fundinum, svaraði m.a. fyrirspurn um tvísköttun lífeyris. Haukur Hafsteinsson svaraði spurningu um vægi einstakra stétta við útreikning á meðaltalshækkun dagvinnulauna en í svari hans kom m.a. fram að launabreytingar hjá starfsmönnum sveitarfélaga sem taka laun eftir kjarasamningi opinberra starfsmanna hafa áhrif á meðaltalsvísitölu og yrðu hækkanir á launum æðstu ráðamanna þjóðarinnar þá hefðu þær einnig áhrif. Vægið væri þó þyngst ef um væri að ræða launahækkanir hjá fjölmennum starfsstéttum. Þá kom fram ábending um það sem betur má fara í upplýsingagjöf á greiðsluseðli og mun sjóðurinn taka það til skoðunar. Um 300 sjóðfélagar mættu á fundinn sem hófst kl 15 og var honum lokið um kl 17.