81 milljarður króna í tekjur af fjárfestingum á 3 árum

04.05.2006

Í árslok 2005 voru samanlagðar eignir allra deilda LSR og LH 246 milljarðar króna og höfðu þær aukist um tæplega 51 milljarð króna eða 26% frá árinu á undan. Mikla eignaaukningu má að hluta til rekja til mikilla iðgjaldagreiðslna til A-deildar LSR, að hluta til innborgana ríkissjóðs inn á skuldbindingar við B-deild, en að stærstum hluta til góðrar ávöxtunar á síðasta ári. Tekjur af fjárfestingum á árinu 2005 voru 38,6 milljarðar króna.
Góð ávöxtun á árinu 2005 kemur í kjölfar tveggja ára þar sem ávöxtunin var einnig mjög góð. Á þessum þremur árum hafa tekjur LSR  og LH af fjárfestingum verið samtals 81 milljarður króna. Hér er um háa fjárhæð að ræða sem nýtist til að búa í haginn fyrir lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna í framtíðinni og til að draga úr lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs. Á þessu þriggja ára tímabili hafa eignir LSR og LH aukist úr 127 milljörðum króna í 246 milljarða. Þær hafa því nánast tvöfaldast á einungis þremur árum.


Á undanförnum 10 árum hafa eignir sjóðanna hins vegar sjöfaldast. Í meðfylgjandi súluriti má sjá eignir sjóðanna undanfarin 10 ár.