Nýtt lánakerfi hjá LSR
LSR hefur skrifað undir samning um kaup og uppsetningu á lánakerfinu Libra Loan af hugbúnaðarfyrirtækinu Libra ehf. Kerfið mun halda utan um útlánastarfsemi LSR sem um áratugaskeið hafa boðið sjóðfélögum upp á fasteignaveðlán á hagstæðum kjörum. Kerfið mun halda utan um allan lánaferilinn frá umsókn að útgreiðslu láns auk innheimtu. Helsti kostur hins nýja kerfis er að nú verða allar upplýsingar um lán og lántakendur aðgengilegar á einum stað ásamt því að möguleikar til skráningar á samskiptum við sjóðfélaga aukast verulega. Einnig einfaldast öll skjalagerð vegna lána en hingað til hefur hún verið í mörgum kerfum. Þetta mun hafa í för með sér betri og markvissari afgreiðslu lána fyrir sjóðfélaga auk þess sem upplýsingamiðlun til banka, fasteignasala og annarra aðila tengdum fasteignaviðskiptum verður skilvirkari.
Gert er ráð fyrir að Libra Loan verði tekið í notkun í apríl 2005. Í framhaldi af innleiðingu kerfisins er svo áætlað að veita sjóðfélögum aðgang að upplýsingum um lánamál sín hér á heimasíðu LSR og bæta þar með enn frekar þjónustu við lántakendur.
LSR býður sjóðfélögum upp á lán með lánstíma frá 5 til 40 ára, án uppgreiðslugjalds og án kröfu um fyrsta veðrétt. Fastir vextir eru nú 4,15%.