LSR lán nú boðin með föstum og breytilegum vöxtum

01.10.2004

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur samþykkt breytingar á lánareglum sjóðsins og hafa þær þegar tekið gildi. Samkvæmt þeim býður LSR nú sjóðfélagalán með 4,3% föstum vöxtum frá 5 til 40 ára. Eftir sem áður verður boðið upp á lán með breytilegum vöxtum og eru þeir nú 4,33%. Heimilt verður að breyta vöxtum eldri sjóðfélagalána úr breytilegum í fasta vexti. Reglum um veðtryggingu lána var ekki breytt. Þannig er ekki gerð krafa um fyrsta veðrétt en veðsetningahlutfall má ekki fara yfir 65% af verðmæti eignar. Þá eru engin takmörk á fjárhæð sjóðfélagalána og heimilt er að greiða lán upp að hluta eða öllu leyti án kostnaðar hvenær sem er á lánstímanum, sem er frá 5 til 40 ár.

Með þessum breytingum kemur LSR til móts við óskir sjóðfélaga um sjóðfélagalán með föstum vöxtum. Það er í samræmi við þá stefnu sjóðsins sem fylgt hefur verið um langt árabil að bjóða sjóðfélögum ávallt hagstæð lán samanborið við þá valkosti
sem eru í boði á hverjum tíma. Þannig fara hagsmunir sjóðfélaga áfram vel saman við það markmið sjóðsins að veita góða þjónustu og ávaxta eignir sjóðsins með árangursríkum og öruggum hætti.