Kjör á sjóðfélagalánum LSR í samanburði við kjör banka og sparisjóða

06.09.2004

Mikil gróska hefur verið að undanförnu á markaði fyrir fasteignalán til einstaklinga . LSR hefur leitast við að fylgja vel eftir þróun á markaði fyrir fasteignalán og eru reglur um sjóðfélagalán LSR mjög sveigjanlegar, samanborið við marga aðra kosti sem í boði eru.
Þann 1. september sl. var hámarkslánstími sjóðfélagalána lengdur úr 30 í 40 ár og veðsetning sem hlutfall af markaðsvirði hefur verið hækkuð úr 55% í 65% en skv. lögum um lífeyrissjóði má veðsetningarhlutfall ekki vera hærra. Þá er lánstími eftir sem áður sveigjanlegur, ekkert gjald er tekið fyrir inngreiðslu eða uppgreiðslu láns og engin takmörk á því að flytja lán eða láta lán fylgja fasteign þegar eign er seld, enda sé nægjanlegt veðrými fyrir hendi. LSR gerir ekki kröfu um fyrsta veðrétt. Þá eru gjöld fyrir veðflutninga og skilmálabreytingar með því lægsta sem gerist.

Þegar lán er tekið til langs tíma þarf að huga að mörgum mikilvægum þáttum þegar valkostir lánastofnana eru bornir saman.

Huga þarf að:

vöxtum
lánstíma
lántökukostnaði
hvort unnt sé að greiða lán upp að hluta eða að fullu án kostnaðar
hvort krafa sé gerð um fyrsta veðrétt, það getur stóraukið kostnað við fjárhagslega   endurskipulagningu 

ASÍ hefur birt
yfirlit yfir skilmála fasteignalána nokkurra banka, sparisjóða og Íbúðalánasjóðs.
LSR hefur gert 
sambærilegt yfirlit og bætt við upplýsingum um sjóðfélagalán LSR. Það skal tekið fram að upplýsingarnar um lán LSR eru færðar inn af sjóðnum.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur um langt árabil boðið sjóðfélögum sínum fasteignalán á mjög hagstæðum kjörum. Þessi viðskipti hafa verið til hagsbóta fyrir lífeyrissjóðinn og lántakendur. Lántakendur hafa þannig átt kost á lánum með kjörum sem eru með því besta sem er í boði á hverjum tíma. Á sama tíma hafa þessi lán reynst lífeyrissjóðnum hagstæður ávöxtunarkostur og því eftirsóknarverður í bland við aðra kosti sem bjóðast

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar hér á heimasíðu LSR: Lánareglur LSR. Einnig veitir starfsfólk LSR nánari upplýsingar í síma 510 6100. Auk þess er hægt að senda fyrirspurn á netfangið lsr@lsr.is.