Ríki og borg semja um uppgjör lífeyrisskuldbindinga

05.04.2004

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, og Þórólfur Árnason, borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu í dag samkomulag um uppgjör og ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum vegna starfsfólks samrekstrarstofnana ríkis og Reykjavíkurborgar. Um er að ræða starfsfólk stofnana á borð við Borgarspítalann, Gjaldheimtuna í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Samkvæmt samkomulaginu greiðir ríkissjóður borgarsjóði um 2,9 milljarða króna, en jafnframt er lagður grunnur að árlegum uppgjörum milli aðila vegna reksturs sem ríki og Reykjavíkurborg standa enn sameiginlega að.

Í tilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra og fjármálaráðuneytinu segir, að vinnuhópur á vegum samningsaðila hafi farið yfir þær skuldbindingar sem safnast hafi upp hjá umræddum lífeyrissjóðum vegna sameiginlegra verkefna á undanförnum áratugum. Um mjög viðamikið verkefni hafi verið að ræða þar sem samningsaðilar hafi átt víðtækt samstarf um rekstur stofnana á undanförnum áratugum, einkum á sviði heilbrigðis-, mennta- og félagsmála. Um er að ræða skuldbindingar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt samkomulaginu yfirtekur ríkissjóður skuldbindingar Reykjavíkurborgar gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og Reykjavíkurborg yfirtekur skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar miðað við stöðu þeirra í árslok 2002. Mismunurinn á yfirteknum skuldbindingum er gerður upp milli samningsaðila. Jafnframt er í samkomulaginu kveðið á um uppgjör á áföllnum og greiddum kröfum vegna þeirra sem byrjaðir eru töku lífeyris. Þá er með samkomulaginu gert ráð fyrir að nýjar skuldbindingar, sem falla til á ári hverju vegna áframhaldandi verkefna, skuli framvegis gerðar upp árlega milli aðila.

Niðurstaða þessa uppgjörs var sú að uppsafnaðar skuldbindingar ríkissjóðs til ársloka 2002 voru 2858 milljónum króna hærri en skuldbindingar Reykjavíkurborgar. Ríkissjóður greiddi þennan mismun við undirritun samkomulagsins með spariskírteinum ríkissjóðs miðað við 3,5% ávöxtunarkröfu.

Uppgjör þetta hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs í ár þar sem áður var búið að færa umræddar lífeyrisskuldbindingar til gjalda í ríkisreikningi. Þá hafði einnig verið gerð grein fyrir þessum óuppgerðu skuldbindingum í reikningum borgarsjóðs.