Ný fjárfestingarstefna LSR og LH

01.10.2004

Í fjárfestingarstefnu LSR og LH eru tilgreindar megináherslur sem unnið er eftir við ávöxtun á fjármunum sjóðanna. Hún miðar að því að tryggja sjóðfélögum góða ávöxtun en jafnframt verði áhætta takmörkuð sem kostur er. Stefnan er endurskoðuð árlega og þann 1. desember sl. tók gildi ný fjárfestingarstefna fyrir allar deildir LSR og LH. Stefnan var samþykkt og undirrituð á sameiginlegum stjórnarfundi sjóðanna 26. nóvember 2003.  

Fjárfestingarstefnan miðar að því að tryggja sjóðfélögum góða ávöxtun en jafnframt verði áhætta takmörkuð sem kostur er. Markmiði þessu verði náð með því að ákveða samsetningu eigna sjóðanna með tilliti til þess; tryggja eignir sem best og vanda til allra ákvarðana um fjárfestingar og vörslu á eignum.

Helstu breytingar á fjárfestingarstefnunni eru sem hér segir:

1.            Erlend skuldabréf bætist við sem nýr eignaflokkur og verður að hámarki 5% af heildareignum sjóðanna.

2.            Hlutföll milli skuldabréfa og hlutabréfa hjá A- og B-deildum LSR og LH breytast úr 50% skuldabréf og 50% hlutabréf í 55% skuldabréf og 45% hlutabréf. Jafnframt lækkar hlutfall erlendra hlutabréfa úr 40% í 35%.

3.            Hlutföll milli skuldabréfa og hlutabréfa í Séreign I breytast úr 50% skuldabréf og 50% hlutabréf í 55% skuldabréf og 45% hlutabréf.

4.            Hlutföll í Séreign II breytast úr 85% skuldabréf og 15% hlutabréf í 80% skuldabréf og 20% hlutabréf.

5.            Bætt hefur verið inn ákvæðum um notkun skiptasamninga til þess að eyða gjaldmiðlaáhættu. Að jafnaði skal gjaldmiðlaáhættu að fullu eytt við fjárfestingar í erlendum skuldabréfum en heimilt að eyða 20-60% við fjárfestingar í erlendum hlutabréfum. Við sérstakar aðstæður er heimilt að hlutfallið sé á bilinu 0-75%.

6.            Ákvæðum, um að festa megi allt að 5% af eignum sjóðanna í erlendri mynt í framtaks- og vogunarsjóðum, hefur verið bætt inn í stefnuna.

Við mótun fjárfestingarstefnu er tekið mið af lögum nr. 129/1997 um starfsemi lífeyrissjóða og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, samþykktum sjóðanna, áætluðum iðgjalda- og fjárfestingartekjum, aukaframlögum ríkissjóðs og annarra launagreiðenda, áætluðum lífeyrisgreiðslum, framtíðargreiðsluflæði, núverandi eignasamsetningu og horfum á verðbréfamörkuðum.

Eignum sjóðanna er skipt í innlend og erlend verðbréf, í hlutabréf og skuldabréf og innan þeirra í nánar tilgreinda flokka. Er skiptingin ákveðin með hliðsjón af ávöxtun eða væntingum um ávöxtun og áhættu mismunandi flokka verðbréfa  í þeim tilgangi að draga úr áhættu með dreifingu eigna. Fjárfestingarstefna sjóðanna miðar að því að  eignasamsetningu verði náð í árslok 2012.

Hægt er að nálgast fjárfestingarstefnuna í heild sinni með því að smella hér.