Samantekt upplýsinga til sjóðfélaga LSR og LH

03.03.2009

Frá falli bankanna hafa nokkrar fréttir birst hér á heimasíðunni til upplýsingar fyrir sjóðfélaga. Nú þegar nokkuð er um liðið atburðunum í október er rétt að taka saman til hagræðis fyrir sjóðsfélaga nokkur atriði sem gagnast þeim í vangaveltum þeirra um hag sinn.

LSR lán

Skömmu eftir fall bankanna var myndaður vinnuhópur á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða til að fjalla um og gera tillögur um aðstoð við þá sem eru eða kunna að verða í vandræðum með  að standa skil á afborgunum sjóðfélagalána. Niðurstaða þeirrar vinnu var að Landssamtök lífeyrissjóða beindu því til lífeyrissjóðanna að efla almenna upplýsingamiðlun til þeirra sem eru í vanda staddir eða hvernig þeir geta komist hjá því að lenda í fjárhagsvandræðum, meðal annars með auknu samstarfi við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Því var beint til lífeyrissjóða að til viðbótar þeim úrræðum sem þeir hafa áður boðið upp þá  yrði sjóðfélögum í greiðsluerfiðleikum gefinn kostur á að „frysta“ lífeyrissjóðslán sín í sex til tólf mánuði. Í desember samþykkti Alþingi svo lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, sem gerðu lántakendum kleift að greiðslujafna fasteignaveðlánum t.d. lífeyrissjóðslánum miðað við sérstaka greiðslujöfnunarvísitölu. Auk þess hefur lögum um stimpilgjald verið breytt og einnig lögum um vexti og verðtryggingu en hvort tveggja miðar að því að bæta stöðu skuldara fjárkrafna.

Tillögur Landssamtaka lífeyrissjóða um greiðsluvanda má finna í heild sinni á heimasíðu samtakanna.

Upplýsingar LSR um úrræði vegna greiðsluvanda og vanefnda má finna á heimasíðu LSR.

Upplýsingar um greiðslujöfnun fasteignaveðlána má finna á heimasíðu Félagsmálaráðuneytisins.


Séreign

Vegna aðstæðna á mörkuðum í byrjun október sl. varð LSR að loka tímabundið fyrir flutning á eign á milli fjárfestingarleiða og útborgun úr leiðum I og II í Séreign LSR. Þá var ekki er hægt að reikna gengi og verðmæti ýmissa eigna í Séreign LSR og lokun því talin nauðsynleg til að gæta hagsmuna allra. Á meðan á lokuninni stóð var öllum iðgjöldum sem bárust Séreign LSR ráðstafað inn á verðtryggðan innlánsreikning leiðar III. Þetta var gert óháð upphaflegu vali sjóðfélaga um fjárfestingar í leið I eða II. Séreign LSR opnaði aftur 19. desember fyrir færslur á milli leiða og úttektir úr leiðum I og II. Frá og með áramótunum hefur iðgjöldum verið ráðstafað á ný í samræmi við upphaflegt val sjóðfélaga nema þeir hafi sérstaklega óskað eftir að færa sig á milli leiða. Fyrir opnun Séreignarinnar var fjárfestingarstefnum leiða I og II breytt í samræmi við gerbreytt landslag. Öllum sjóðfélögum Séreignar LSR var sent sérstakt bréf þar sem upplýst var um opnun séreignarinnar, mat á tapi vegna hruns bankanna og breytta fjárfestingarstefnu.

Ítarlegri frétt um breytta fjárfestingarstefnu Séreignar LSR og áhrif bankahrunsins á eignasafn séreignar má finna á heimasíðu LSR.


Áhrif efnahagsástandsins á eignasöfn og uppgjör fyrir árið 2008

Það er ljóst að slæmt efnahagsástand og verðfall á fjármálamörkuðum, bæði heima og erlendis, mun hafa veruleg áhrif á ávöxtun verðbréfasafna hjá LSR. Áhrifin á söfn séreignarinnar hafa að stórum hluta verið áætluð og birt. Þar hefur fall bankanna og afleidd áhrif á skuldabréfaeign haft þau áhrif að inneign sjóðfélaga í leið I hefur lækkað um 15,4% og 13,3% í leið II en lækkunin yfir árið í heild er meiri vegna verðfalls allra markaða eða um 23% frá janúar til loka nóvember 2008. Nú er unnið að uppgjöri fyrir sameign LSR og LH og ber sjóðunum að skila ársskýrslum til Fjármálaeftirlitsins 30. apríl n.k. og skýrslu um tryggingafræðilega athugun 30. mars. Þegar niðurstöður þessara skýrslna liggja fyrir verða þær birtar hér á heimasíðu LSR.

Ítarlegri frétt um eignasöfn LSR og LH eftir fall bankanna má finna á heimasíðu LSR.

 

Lagabreyting

Lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða var breytt með lögum nr. 171/2008. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru:

  • Þeim, sem náð hafa 60 ára aldri, er gert heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslum á sjö ár.
  • Fellt er brott aldurshámark á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris en það var við 75 ára aldur.
  • Lífeyrissjóðum er veitt rýmri heimild til að fjárfesta fyrir allt eða allt að 20% af hreinni eign sinni í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði. Þessi tvöföldun á hlutfallinu skýrist fyrst og fremst af þeirri stöðu sem nú er uppi á innlendum fjármálamarkaði þar sem framboð á skráðum verðbréfum er afar takmarkað.
  • Reglur um fjárfestingarstefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði eru samræmdar á milli aðila.

Auk ýmissa smærri breytinga, er helst snerta rekstur lífeyrissjóða, þá var lífeyrissjóðum með bráðabirgðaákvæði veitt heimild til að hafa allt að 15% neikvæðan mun á milli eignaliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008, án þess að þeim sé skylt að breyta samþykktum sjóðanna. Samkvæmt gildandi lögum eru mörkin –10%.