Tjón lífeyrissjóða verður ekki metið fyrr en óveðrinu slotar

25.11.2008

Fárviðrið á fjármálamörkuðum heimsins hefur þegar greitt íslensku samfélagi afar þung högg og  liggur fyrir að áhrif hamfaranna eru umfangsmeiri og alvarlegri en víðast annars staðar.  Íslenska lífeyriskerfið mun ekki fara varhluta af þessum hamförum. Það er hins vegar ekki tímabært að meta tjón lífeyrissjóðanna, þó ekki væri nema fyrir þá sök að óveðrinu hefur ekki slotað ennþá. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir að eðlilega sé nokkuð um að sjóðfélagar hafi samband við skrifstofu sjóðsins til að afla upplýsinga um stöðu mála. Hins vegar verði óhjákvæmilega fátt um svör af hálfu starfsmanna sjóðsins, einfaldlega vegna þess að mjög langt sé frá því að heildarmyndin sé skýr.
„Ég skil mætavel að sjóðfélagar vilji upplýsingar um gang og stöðu mála. Við vildum svo gjarnan geta talað skýrar en við gerum en skortir einfaldlega forsendur til þess,“  segir Haukur. „Stjórnir lífeyrissjóða og við, sem stjórnum daglegum rekstri sjóðanna, fylgjumst auðvitað grannt með atburðarásinni frá klukkustund til klukkustundar og fjöllum um málið í eigin ranni eða á sameiginlegum vettvangi sjóðanna, það er að segja innan vébanda Landssamtaka lífeyrissjóða. Ljóst er að tjónið er mikið en því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar svo unnt sé að svara nákvæmlega ýmsum áleitnum spurningum. Umfang tjónsins ræðst til dæmis af verðmæti eigna í þrotabúum þar sem lífeyrissjóðir eiga hagsmuna að gæta, hvernig farið verður með skuldabréf sem sjóðirnir  keyptu af bönkunum og margt fleira í þeim dúr. Þarna á sem sagt eftir að gera upp fjölda mála og margt í því uppgjöri verður örugglega býsna flókið. Þess vegna bera fæst orð minnsta ábyrgð að sinni. Ætla má engu að síður að eignir einstakra lífeyrissjóða rýrni um tugi milljarða króna í þessum hamförum þar sem skaðinn verður mestur.  Mikilvægt er þá að halda því jafnframt til haga að þessir sömu sjóðir hafa vaxið verulega undanfarin ár, reyndar svo mjög að íslenska lífeyriskerfið verður áfram eitt hið stærsta sem í heiminum miðað landsframleiðslu. Og það þrátt fyrir að allt fari á versta veg miðað við stöðu mála í augnablikinu.“