Af gefnu tilefni

03.02.2012

Í umfjöllun Kastljóss um úttektarskýrslu lífeyrissjóðanna í kvöld bar á góma, í máli spyrils, viðskipti LSR með hlutabréf í bönkum skömmu fyrir efnahagshrunið 2008. Gefið var sterklega í skyn að viðskiptin orkuðu tvímælis.

Af þessu gefna tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

  1. Skömmu fyrir fall Glitnis, Kaupþings og Landsbankans ákvað LSR að minnka eignarhluti sína í öllum þessum bönkum en auka í staðinn við eignarhluti sína í Straumi. Ástæðan var ekki sú að stjórn sjóðsins hafi séð fyrir sér örlögin sem bönkunum voru búin skömmu síðar heldur sú að stjórnin vildi dreifa betur áhættu sjóðanna, ekki síst með það í huga að LSR átti á þeim tíma afar lítinn hluta í Straumi, ef miðað er við vægi bankans í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar.
  2. Þann 25. september 2008 skipti LSR á bréfum úr hlutabréfasafni sínu þannig að sjóðurinn lét frá sér bréf í Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum en fékk í staðinn bréf í Straumi fyrir sömu fjárhæð. Þetta var fyrst og fremst gert til áhættudreifingar.
  3. Vikið er að þessu máli í 3. bindi nýju úttektarskýrslunnar og þar er staðfest að LSR hafi með viðskiptunum takmarkað tjón sitt þegar bankarnir þrír féllu fáeinum dögum síðar. Orðrétt segir á bls. 126:

„Á þriðja ársfjórðungi 2008 keyptu LSR og LH hlutabréf í Straumi fyrir 715 mkr. Á móti höfðu sjóðirnir selt hlutabréf í stóru bönkunum og drógu þar með aðeins úr tjóni sjóðsins þar sem Straumsbréfin voru seld skömmu síðar en á mun lægra verði en þau höfðu verið keypt á.“