• Fundarmenn voru á fjórða hundrað
    096
  • Maríanna Jónasdóttir formaður stjórnar LSR
    102

Árlegur kynningar- og samráðsfundur

16.05.2012

Heiðarleiki og kærleikur var oftast nefnt þegar lífeyrisþegar í LSR og LH á fjölmennum fundi voru beðnir að nefna þau gildi sem þeir vildu að þær kynslóðir sem á eftir koma tileinkuðu sér. Reglusemi, ábyrgð, umburðarlyndi og samviskusemi var einnig ofarlega á blaði.

Á árlegum og fjölsóttum kynningar- og samráðsfundi með lífeyrisþegum fluttu formaður stjórnar sjóðsins
Maríanna Jónasdóttir og framkvæmdastjóri Haukur Hafsteinsson stutt erindi um afkomu sjóðsins og þá umfjöllun sem hæst hefur borið í fjölmiðlum í kjölfar endurskoðunarskýrslu um lífeyrissjóðina. Páll Ólafsson deildarstjóri fór yfir hver þróun meðaltalsvísitölunnar hefði verið en 9 af 12 þúsund lífeyrisþegum í B-deild LSR fá nú lífeyri sem hækkar í takt við meðalbreytingar sem verða á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna. Fram kom að 100 þúsund króna verðtryggður lífeyrir í janúar 1997 hefði samkvæmt meðaltalsvísitölu hækkað í 320 þúsund krónur til maí 2012.

Elísabet Berta Bjarnadóttir félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar flutti erindi um stöðu fjölskyldunnar í ólgusjó samtímans. Hún tengdi störf sín í gegnum tíðina við það ástand sem nú ríkir í samfélaginu; taldi þá kynslóð sem nú er komin á lífeyri koma sterka inn þegar hart væri í ári. Hún lagði áherslu á að hvert lítið viðvik skipti máli í samskiptum við börn og barnabörn; samverustund sem þó væri ekki löng væri dýrmætari en margt annað. Hún benti á að hver fjölskylda ætti sína menningu sem m.a. birtist bæði í pönnukökubakstri og því að segja sögur. Þetta bæri að varðveita.

Tríóið Glóðir flutti nokkur lög eftir Oddgeir Kristjánsson og langafabarn Oddgeirs, Hafsteinn Þórólfsson söng og sagði sögurnar á bak við lögin. Fundurinn, sem haldinn var á Nordica hóteli hófst kl. 14 og var honum lokið fyrir kl. 16. Fundarmenn voru á fjórða hundrað.