Raunávöxtun LSR 9,1% á árinu 2012

17.04.2013

Vel gekk að ávaxta eignir LSR á árinu 2012. Nafnávöxtun sjóðsins var 14,2% sem svarar til 9,1% hreinnar raunávöxtunar. Tekjur af fjárfestingarstarfsemi voru 54,4 milljarðar króna og heildareignir LSR voru 436,6 milljarðar króna í árslok 2012.

Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 108,2 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðsins því á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 96,6 milljörðum króna.

Verðbréfaeign sjóðsins er vel dreifð í innlend og erlend skuldabréf og hlutabréf. Í árslok 2012 var 58,7% af eignum sjóðsins í innlendum skuldabréfum, þar af 36,9% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 4,9% í innlendum hlutabréfum, 29,8% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 5,7% í innlánum og 0,9% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2012 fengu 16.785 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 26,9 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 29.686 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 19,9 milljarða króna.

Upplýsingar um einstakar deildir LSR 2012


A-deild LSR

Nafnávöxtun var 13,1% á árinu 2012 sem svarar til 8,1% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir A-deildar námu 218,4 milljörðum króna í lok árs 2012.

Í árslok 2012 var 61,8% af eignum A-deildar í innlendum skuldabréfum, þar af 41,2% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 6,2% í innlendum hlutabréfum, 23,8% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 6,5% í innlánum og 1,7% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2012 fengu 3.190 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá A-deild, samtals 2 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 22.685 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 16,7 milljarða króna.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati var áfallin staða A-deildar neikvæð um 7,6 milljarða eða 3,3%. Heildarstaða A-deildar var neikvæð um 60,9 milljarða eða 12,5%.

B-deild LSR

Nafnávöxtun var 15,5% á árinu 2012 sem svarar til 10,4% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir B-deildar námu 208 milljörðum króna í lok árs 2012.

Verðbréfaeign deildarinnar í árslok 2012 skiptist þannig að 56,9% voru í innlendum skuldabréfum, þar af 33% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 3,7% í innlendum hlutabréfum, 36,5% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 2,8% í innlánum og 0,1% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2012 fengu 12.794 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá B-deild, samtals 24,2 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 4.315 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 2,5 milljarða króna.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2012 var 573 milljarðar og hækkaði hún um 5,4% á árinu. Samkvæmt útreikningi tryggingafræðings eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 243,7 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem deildin á sjálf að standa undir eru því 329,3 milljarðar króna. Samkvæmt efnahagsreikningi var hrein eign B-deildar til greiðslu lífeyris í árslok 208 milljarðar króna. Mismunurinn á skuldbindingum og hreinni eign er á ábyrgð ríkissjóðs.

Séreign LSR

Fjárfestingarleiðir Séreignar LSR eru með mismunandi eignasamsetningu og sveiflast ávöxtun þeirra þar af leiðandi mismikið. Nafnávöxtun Leiðar I var 11,8% sem svarar til 6,9% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 12,6% sem svarar til 7,6% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 6,7% á síðasta ári sem svarar til 2,1% hreinnar raunávöxtunar.

Heildareignir Séreignar LSR námu 10,2 milljörðum króna í árslok 2012 og jókst hrein eign um 905 milljónir króna eða 9,7%.

Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2012 skiptist þannig að 51,3% voru í innlendum skuldabréfum, þar af 45,9% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 3,8% í innlendum hlutabréfum, 37,7% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 7,1% í innlánum og 0,1% í öðrum fjárfestingum. Verðbréfaeign Leiðar II um áramót var þannig að 57,1% var í innlendum skuldabréfum, þar af 45,4% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 6,1% í innlendum hlutabréfum, 31% í erlendum verðbréfum, einkum hlutabréfum, 5,7% í innlánum og 0,1% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2012 fengu 801 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá Séreign LSR, samtals 714 milljónir króna. Að meðaltali greiddu 2.686 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 702 milljónir króna.

Upplýsingar um starfsemi LSR og LH 2012