Málefni framtakssjóðsins Brú II

01.04.2014

Síðastliðið haust fjallaði þátturinn Kastljós í Sjónvarpinu um málefni framtakssjóðsins Brú II, þar sem nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins eru hluthafar, auk fleiri aðila. Þar komu fram ýmsar ávirðingar um rekstur sjóðsins, auk þess sem vakin var athygli á deilumálum milli hluthafa og kröfuhafa í einstökum félögum sem Brú II hefur fjárfest í eða dótturfélögum þeirra. Í kjölfar þessarar umfjöllunar óskuðu lífeyrissjóðirnir eftir því að gerð yrði ítarleg innri endurskoðun á öllum þáttum í rekstri sjóðsins og að niðurstöður úr slíkri skýrslu yrðu gerðar opinberar. Var endurskoðunarfyrirtækið KPMG fengið til að gera þessa endurskoðun.

Sjóðurinn er staðsettur í Lúxemborg og undir opinberu eftirliti fjármálaeftirlitsins þar. Í skýrslu KPMG kemur fram að rekstur sjóðsins hafi verið í samræmi við lög og að í öllum meginatriðum í samræmi við aðrar reglur sem um hann gilda, hvað varðar rekstur, þóknanir, uppgjör, mat á fjárfestingum og önnur þau atriði sem til skoðunar komu. Nokkrar ábendingar komu fram um þætti sem betur mega fara, m.a. vegna tafa á framlagningu ársreikninga. Sjóðirnir munu sjá til þess að úr þessum atriðum verði bætt. Hvað varðar deilumál milli einstakra hluthafa eða kröfuhafa í félögum sem Brú II hefur fjárfest í eða dótturfélögum þeirra, þá hafa lífeyrissjóðirnir, sem fjárfestar í Brú II, enga aðkomu að slíkum málum. Helstu niðurstöður úr skýrslu KPMG hafa verið birtar og skýrsluna í heild má nálgast hér. Sjóðirnir telja ekki ástæðu til frekari umfjöllunar af þeirra hálfu í kjölfar birtingar skýrslunnar.