Hrein raunávöxtun LSR 6,5% á árinu 2013

10.04.2014

Ávöxtun eigna LSR á árinu 2013 var mjög góð. Nafnávöxtun sjóðsins var 10,4% sem svarar til 6,5% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin er 4,5%. Tekjur af fjárfestingarstarfsemi á árinu 2013 voru 46,3 milljarðar króna og heildareignir LSR voru 485 milljarðar króna í árslok 2013.

Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 134,8 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðsins því á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 131,4 milljarði króna.

Verðbréfaeign sjóðsins er vel dreifð í innlend og erlend skuldabréf og hlutabréf. Í árslok 2013 var 55% af eignum sjóðsins í skuldabréfum, þar af 35,2% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 9% í innlendum hlutabréfum, 29,8% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 5,4% í innlánum og 0,9% í öðrum fjárfestingum.

Ávöxtun innlendra og erlendra hlutabréfa var góð á árinu. Nafnávöxtun innlends hlutabréfasafns LSR var 30,4% á árinu sem jafngildir 25,8% raunávöxtun. Nafnávöxtun erlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina var 11,7% á árinu sem jafngildir 7,8% raunávöxtun.

Á árinu 2013 fengu 17.590 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 29,4 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 29.491 sjóðfélagi iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 21,2 milljarði króna.


Upplýsingar um einstakar deildir LSR 2013


A-deild LSR
Nafnávöxtun var 10,1% á árinu 2013 sem svarar til 6,1% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir A-deildar námu 256,7 milljörðum króna í lok árs 2013.

Í árslok 2013 var 58,3% af eignum A-deildar í skuldabréfum, þar af 39,4% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 11,2% í innlendum hlutabréfum, 22,5% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 6,5% í innlánum og 1,5% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2013 fengu 3.648 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá A-deild, samtals 2,5 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 23.066 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 18,2 milljarða króna.

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati var áfallin staða A-deildar neikvæð um 5,7 milljarða króna eða 2,2%. Heildarstaða A-deildar var neikvæð um 63,1 milljarða eða 11,7%.


B-deild LSR

Nafnávöxtun var 11% á árinu 2013 sem svarar til 7% hreinnar raunávöxtunar. Heildareignir B-deildar námu 217 milljörðum króna í lok árs 2013.

Verðbréfaeign deildarinnar í árslok 2013 skiptist þannig að 52,6% voru í skuldabréfum, þar af 31% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 6,7% í innlendum hlutabréfum, 38,7% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 1,9% í innlánum og 0,1% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2013 fengu 13.284 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá B-deild, samtals 26,4 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 3.856 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 2,3 milljarða króna.

Áfallin skuldbinding B-deildar í árslok 2012 var 599,5 milljarðar og hækkaði hún um 4,6% á árinu. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eiga ríkissjóður og aðrir launagreiðendur að standa undir 255,3 milljörðum króna af skuldbindingum B-deildar með greiðslu lífeyrishækkana. Skuldbindingar sem deildin á sjálf að standa undir eru því 344,3 milljarðar króna. Endurmetin hrein eign sjóðsins var 220,1 milljarðar króna í árslok skv. úttektinni en munurinn á skuldbindingum og eignum sjóðsins er á ábyrgð ríkissjóðs.


Séreign LSR
Fjárfestingarleiðir Séreignar LSR eru með mismunandi eignasamsetningu og sveiflast ávöxtun þeirra því mismikið. Nafnávöxtun Leiðar I var 9,7% sem svarar til 5,7% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar II var 8,7% sem svarar til 4,8% hreinnar raunávöxtunar. Nafnávöxtun Leiðar III, sem er bundinn innlánsreikningur, var 5,8% á síðasta ári sem svarar til 2% hreinnar raunávöxtunar.

Heildareignir Séreignar LSR námu 11,2 milljörðum króna í árslok 2013 og jókst hrein eign um 991 milljón króna eða 9,7%.

Verðbréfaeign Leiðar I í árslok 2013 skiptist þannig að 45,6% voru í skuldabréfum, þar af 40,6% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 9,2% í innlendum hlutabréfum, 38,5% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 6,6% í innlánum og 0,1% í öðrum fjárfestingum.

Verðbréfaeign Leiðar II um áramót var þannig að 50,8% var í skuldabréfum, þar af 40% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 5,7% í innlendum hlutabréfum, 31,6% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 11,8% í innlánum og 0,1% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2013 fengu 658 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá Séreign LSR, samtals 453 milljónir króna. Að meðaltali greiddu 2.569 sjóðfélagar iðgjald til deildarinnar á árinu, samtals að fjárhæð 636 milljónir króna.

(PDF skjal) Upplýsingar um starfsemi LSR og LH á árinu 2013