FME kannar starfsemi LSR

05.05.2014

Á liðnu ári framkvæmdi Fjármálaeftirlitið umfangsmikla könnun á starfsemi LSR, en því ber samkvæmt lögum að hafa eftirlit með því að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði laga og reglna sem um lífeyrissjóði gilda. Athugun FME tók m.a. til stjórnarhátta, fjárfestinga, áhættustýringar og upplýsingakerfa.

Það er ánægjulegt frá því að segja að sjóðurinn kom almennt vel út úr þessari skoðun. Í gagnsæistilkynningu FME um niðurstöðu athugunar á þáttum í starfsemi LSR segir orðrétt: „Samkvæmt athugun Fjármálaeftirlitsins voru þeir þættir sem vettvangsathugunin beindist að almennt í góðu horfi og telur Fjármálaeftirlitið að stjórnendur LSR hafi gott viðhorf til eftirlits. Það endurspeglast m.a. í fáum athugasemdum og ábendingum að teknu tilliti til þess hve athugun Fjármálaeftirlitsins var ítarleg og umfangsmikil. Af þeim athugasemdum sem gerðar voru ber helst að nefna athugasemd við að sjóðurinn flokkaði í nokkrum tilvikum óskráðar fjárfestingar sem skráðar“.

Á vefsíðu eftirlitsins er hægt að nálgast framangreinda tilkynningu um niðurstöðu athugunar FME.