Samningar um yfirtöku ríkisins á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimila

11.06.2014

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, ellefu hjúkrunarheimili, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga hafa undirritað samninga sem fela í sér yfirtöku ríkisins á nær öllum lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimilanna vegna starfsmanna þeirra í B-deild LSR og LH. 

Samningarnir eru gerðir til að koma til móts við erfiða fjárhagsstöðu hjúkrunarheimila sem rekin eru af sjálfseignarstofnunum innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Fjárhæð yfirtekinna lífeyrisskuldbindinga nemur tæplega sex milljörðum króna. Þar af hefur rúmlega helmingur þeirrar skuldbindingar þegar verið færður til skuldar í ríkisreikningi vegna ábyrgðar ríkissjóðs á skuldbindingum í B-deild LSR og LH.

Samhliða samkomulaginu munu hjúkrunarheimilin gera upp sinn hluta skuldbindinganna við lífeyrissjóðina jafnframt því að greiða viðbótarlífeyrissjóðsframlag vegna þeirra starfsmanna sem eru í starfi hjá viðkomandi heimili og koma þannig í veg fyrir að ný skuldbinding safnist upp.

Í tengslum við samkomulagið eru ennfremur gerðar upp skuldir nokkurra hjúkrunarheimila vegna ógreiddra lífeyrishækkana til lífeyrissjóða sem safnast hafa undanfarið ár.