Nýjar Mínar síður

26.02.2024

LSR hefur uppfært sjóðfélagavef sinn, Mínar síður, með það fyrir augum að gera hann einfaldari og þægilegri í notkun. Upplýsingagjöf er skýrari auk þess sem ýmsar aðgerðir og nýjungar eru nú í boði sem ekki voru á eldri sjóðfélagavef.

Meðal nýjunga sem má finna á nýjum vef eru:

  • Innskráning með auðkennisappi
  • Stillingar fyrir tölvupóst og símanúmer
  • Skjalasafn sjóðfélaga
  • Betra aðgengi að upplýsingum úr lífeyrisgátt
  • Myndræn framsetning á þróun inneignar í séreign og tilgreindri séreign
  • Betra aðgengi að umsóknum

Þá hefur starfsfólk LSR nú möguleika á að skrá sig inn á Mínar síður sjóðfélaga, sé veitt umboð til þess með rafrænum skilríkjum. Þannig er hægt að leiðbeina sjóðfélögum með notkun vefsins og yfirfara upplýsingarnar sem þar birtast.

Innskráning með auðkennisappi

Sífellt fleiri eru farnir að nota auðkennisapp í stað hefðbundinnar rafrænnar auðkenningar með SIM-korti. Nú er hægt að nota appið til að skrá sig inn á Mínar síður. Enn sem komið er þarf að undirrita umsóknir á Mínum síðum með hefðbundnum rafrænum skilríkjum, en stefnt er að því að hægt verði að nota auðkennisappið til þess á næstunni.

Stillingar fyrir tölvupóst og símanúmer

Á stillingasíðunni geta sjóðfélagar nú skráð netfang og símanúmer sem einfaldar sjóðnum að vera í sambandi ef þörf er á.

Skjalasafn sjóðfélaga

Í skjalasafninu geta sjóðfélagar nú fundið á einum stað öll skjöl sem þeir hafa fengið send frá sjóðnum. Þetta geta t.d. verið greiðsluseðlar lána, kvittanir, launaseðlar, tilkynningar, yfirlit og fleira.

Betra aðgengi að lífeyrisgátt

Við fyrstu innskráningu á nýjar Mínar síður geta sjóðfélagar samþykkt að sækja gögn um lífeyrisréttindi frá öðrum sjóðum í gegnum lífeyrisgáttina. Sé það samþykkt munu upplýsingarnar ávallt vera aðgengilegar á sameignarsíðunni, svo auðveldara er fyrir sjóðfélaga að sjá heildarlífeyrisréttindi sín.

Myndræn framsetning á séreign og tilgreindri séreign

Sjóðfélagar sem safna séreign eða tilgreindri séreign hjá sjóðnum geta nú séð þróun inneignar sinnar og ávöxtun með einföldum hætti á grafi. Þá eru innborganir og útgreiðslur einnig birtar í töflum og hægt að skoða hvert ár eða hvern mánuð fyrir sig.

Minar-sidur-sereign

Betra aðgengi að umsóknum

Þá hefur birting umsókna á Mínum síðum verið einfölduð og er núna hægt að opna hverja umsókn beint úr veftrénu.

Fleiri nýjungar væntanlegar

Með uppfærslunni nú hefur LSR fært Mínar síður yfir á nýtt grunnkerfi þar sem upplýsingatæknideild sjóðsins hefur mun betri tækifæri en áður til að þróa þær áfram. Stefnt er að því að innleiða ýmsar nýjungar á Mínum síðum á næstu misserum og því geta sjóðfélagar búist við að þjónustan muni þróast mun hraðar en síðustu ár.