Ríkissjóður greiðir 19 milljarða króna inn á skuldbindingar gagnvart B-deild LSR

09.01.2018

Í gær var staðfest samkomulag milli Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og LSR um framsal eigna fyrir 19 milljarða króna. Eignirnar voru hluti af svonefndum stöðugleikaframlögum fallinna fjármálafyrirtækja. Þær eru framseldar til sjóðsins sem innborgun inn á skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart B-deild LSR. Kemur þessi innborgun sem viðbót við 5 milljarða króna innborgun frá ríkinu inn á skuldbindingar gagnvart B-deild sjóðsins á árinu 2017.

Stærstur hluti þeirra eigna sem framseldar eru til LSR samkvæmt samkomulaginu eru lánasamningar, en einnig eru þar hlutir í félögum.

Ríkissjóður ber eftir sem áður ábyrgð á skuldbindingum B-deildar LSR og umrædd ráðstöfun hefur engin áhrif þar á. Standi eignirnar ekki undir því verðmati sem sett er á þær í dag leiðir það að öðru óbreyttu til hækkunar á skuldbindingum ríkissjóðs í framtíðinni, en skili eignirnar meiri verðmætum í framtíðinni hefur það jákvæð áhrif á skuldbindingarnar.

Sjá nánar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins